14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4384 í B-deild Alþingistíðinda. (4439)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki fara yfir jafnvítt svið almennrar þjóðmálaumræðu og hv. síðasti ræðumaður, heldur halda mér við það efni, sem hér er á dagskrá, og aðeins örfáa þætti þess.

Hv. fjh.- og viðskn. þessarar deildar hefur skilað samhljóða nál. og samhljóða brtt. enda þótt 1. og 2. minni hl. nefndarinnar hafi skilað aukanefndarálitum og sérbrtt. á öðrum þskj. Hér hefur verið farið lofsyrðum um þá samstöðu sem náðst hafi á Alþingi um meðferð skattamála, bæði að þessu sinni og í annan tíma. Það er fjarri mér að kasta rýrð á þá samstöðu eða þátt einstakra manna í því, að slík samstaða hefur náðst. Ég vil hins vegar láta þess getið, að ég tel að sú samstaða hafi byggst á því, að í skattalög voru tekin þegar á árinu 1978 ákvæði, sem fela í sér mikið ranglæti, og þeim hefur verið beitt þannig að ranglæti hefur af hlotist. Ég fæ ekki betur séð en það samkomulag, sem tekist hefur í hv. fjh.- og viðskn., feli það enn í sér að lagt sé til að lögfesta ákvæði sem bjóða því heim að ranglæti sé viðhaft.

Ég vil segja, að þær breytingar, sem hv. fjh.- og viðskn. leggur hér til, eru sumpart þess efnis að þær eru eðlilegar. Eins og frv. var lagt fram var áskilið að því fylgdu fyrirvarar um afstöðu til tiltekinna greina frv., einkanlega þeirra greina sem fjölluðu um breytingar á afskriftareglum. Það er því fjarri því, að það sé að nokkru leyti í misræmi eða fari á svig við þá fyrirvara, sem fyrir lágu þegar frv. var lagt fram, þótt breytingar séu gerðar á þessum greinum eða þær aflagðar.

Hitt er annað mál, að sú breyting, sem hv. n. leggur til, að enn verði tekin upp í þessi lög þau ákvæði sem kveða á um reiknuð laun þeirra sem starfa við sjálfstæðan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, kemur í bága við það sem ég tel rétt. Ég tel að það bjóði því heim að enn verði unnt að beita þessum lögum þannig að ranglæti fylgi. Ég hef alla tíð verið á móti þeim ákvæðum sem kveða á um reiknuð laun. Ég er í raun og veru á móti þeirri hugsun sem að baki slíkum ákvæðum liggur. Það felst í þessari hugsun að atvinnurekandi, sem starfar við eigin rekstur eða sjálfstæða starfsemi, býr við þau skattalagaákvæði að skattstjórum ber að reikna honum laun án tillits til þess, hvort hann hefur haft tekjur af starfsemi sinni eða ekki. Þetta finnst mér vera óhæf ákvæði. Jafnvel þótt sá einstaklingur, sem í hlut á, geti sannað með fullgildu bókhaldi eða fullgildum gögnum öðrum að hann hafi ekki haft tekjur ber samt að reikna honum tekjur og hann að greiða opinber gjöld samkvæmt því. Ég get ekki fallist á slík ákvæði og ég er enn andvígur þeim. Þess vegna mun ég greiða atkvæði gegn þeim brtt. hv. n. sem að þessu lúta. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi fram þegar við þessa umr. og ekki einungis í atkvgr.

Ég skal láta þess getið, sem sjálfsagt er, að 59. gr, sem lagt er til að taka inn í lögin nú að nýju, breytist til batnaðar frá því sem er í gildandi lögum. Það er sjálfsagt að viðurkenna þetta og þær tilraunir sem hafa verið gerðar til þess að bæta úr þeim gífurlegu ágöllum sem á greininni voru. Hins vegar stendur það eftir, að skylt er að reikna atvinnurekanda, sem starfar við sjálfstæða starfsemi, laun eins og hann hefði unnið hjá öðrum óskyldum aðila, að vísu með vissum takmörkunum.

Hv. frsm. fjh.- og viðskn., Halldór Ásgrímsson, sagði að með þeim ákvæðum, sem nú eru í 59. gr., væri tryggt að ekki væru lagðir skattar á peningalegar tekjur sem hlutaðeigandi hefði aldrei haft. Þetta er rétt að vissu marki og þessi ummæli hv. frsm. eru byggð á því, að í greininni segir að ákvörðun skattstjóra samkv. þessari grein um reiknuð laun megi aldrei mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum samkv. 38. gr. og gjaldfærslu samkv. 53. gr. Þetta þýðir sem sagt að það má fella niður fyrningar þessara aðila og skattleggja samkvæmt því.

Þegar um er að ræða atvinnurekendur af því tagi sem þessi grein hittir, sem eru þeir smæstu í atvinnurekendastétt, má fella niður fyrningar, jafnvel að fullu til þess að geta komið við reiknuðum launum og skattheimtu samkvæmt því, Ég tel þess vegna, að ekki séu fullnægjandi þær breytingar sem greinin vissulega felur í sér frá gildandi lögum, og er henni andvígur. Hún getur leitt af sér ranglæti, jafnvel þótt ekki sé um það að ræða að reiknuð laun verði svo há að þau verði stofn til tekjuskatts. Hitt er ljóst, að þau verða a. m. k. það há að geti leitt til útsvars af reiknuðum tekjum sem hlutaðeigandi hefur aldrei fengið, ef tekið er tillit til fyrninga. Ef fyrningar eru felldar niður getur þetta staðist hjá hv. frsm. — Þetta get ég ekki fallist á og skal ekki endurtaka það frekar.

Ég vil aðeins segja það um þetta atriði frekar, að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson taldi þetta eitt hið merkasta nýmæli í löggjöf um skattamál hér á landi — nýmæli sem tekið var inn í lögin 1978 — og koma í veg fyrir að þeir, sem starfi að atvinnurekstri, geti sloppið frá skattgreiðslum, eins og hann orðaði það, og beri „vinnukonuútsvar“.

Ég lít svo á að þessi grein og reiknuð laun yfirleitt séu ekki regla í skattalögum sem eigi neitt skylt við það að ná til þeirra sem væru meintir skattsvikarar. Að því lúta önnur ákvæði skattalaga, t. a. m. í 96. gr., enda er það sjálfgefið þegar búið er svo um hnúta að jafnvel þótt fullnægjandi gögn séu sýnd af hálfu skattþegns, sem sanna að hann hafi ekki haft tekjur, beri honum samt að greiða opinber gjöld af einhverjum „reiknuðum tekjum“.

Ég tel að það sé mjög hæpið að það fái staðist sem hv. frsm. n. sagði hér, jafnágætur þm. og hann er og traustur í málflutningi, að með þessum ákvæðum sé verið að koma því til leiðar að atvinnurekendur fái svipuð skattaleg réttindi og skattalegar skyldur og aðrir skattþegnar. Til að gera þetta virkt í raun ætti einnig að reikna laun á launþega. Þá væri kannske rétt að koma skattalögum þannig fyrir að hver skattskyldur Íslendingar bæri einhver opinber tágmarksgjöld, a. m. k. til síns sveitarfélags, ef ekki til ríkis. Þar með væri búið að festa í lög reglu sem færði alla skattþegna á sama svið. Ég á ekki von á að nokkur láti sér til hugar koma að slík regla verði tekið upp. En ég tel að þau ákvæði, sem eru í gildandi skattalögum, og þau, sem enn standa eftir þótt 59. gr. verði breytt, feli í sér svipað ranglæti gagnvart nokkrum þeim sem stunda smáatvinnurekstur á Íslandi. Þetta kemur ekki nálægt þeim sem eru með stærri fyrirtæki. Það kemur ekki nálægt þeim.

Ég skal ekki fjalla um þetta efni í lengra máli. Ég vil aðeins segja það, að það er auðvitað hárrétt, sem hv. þm. Halldór Ásgrímsson sagði, að þær miklu breytingar, sem gerðar voru á skattalögum 1978, áttu m. a. að hafa í för með sér að skattalögin gæfu ekki möguleika til þess sem hann kallaði „verðbólguspekúlasjón“ þ. e. með ákvæðum um verðbreytingafærslur. Ég tel samt að þetta geti verið hæpið. A. m. k. sýnist mér að fjársterkir aðilar geti notað þessar verðbreytingafærslur til skattalegra „spekúlasjóna“ þannig að koma sínum fjármunum þannig fyrir að þeir sleppi við skattgreiðslur ef þeir hafa fjárráð. A. m. k. er það svo, að þessi ákvæði skattalaganna, sem ég held að sé nauðsynlegt að taka til endurskoðunar, virðast hafa í för með sér að þeir, sem eru betur megandi í röðum atvinnurekstrar fari vel út úr skattalögunum. Jafnvel vel stæð fyrirtæki sleppa við skattgreiðslur á meðan þeir, sem höllum fæti standa, eru hundeltir. Mér er vel kunnugt um það t. a. m. í bændastétt, að betur megandi bændur, grónir bændur, sem hafa komið sér vel fyrir og hafa sæmilega góðar tekjur og góða afkomu, geta sloppið kannske að verulegu leyti við skattgreiðslu samkvæmt þessum skattalögum meðan frumbýlingar og aðrir þeir, sem í raun ekkert mega missa, eru skattlagðir meira en hóflegt er og það auðvitað hvort tveggja vegna ákvæða um reiknuð laun, tekjufærslu, og einnig um verðbreytingafærslu.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þetta mál. Ég taldi rétt að láta afstöðu mína til brtt. n. koma fram. Mér þykir auðvitað stórum verra að svo skyldi til takast að hv. n. skyldi breyta þessum ákvæðum frv. frá því sem ríkisstj. ákvað að leggja það fram. En meiri hl. hlýtur vitaskuld að ráða. Ég mun samt greiða atkv. gegn þeim brtt. n. sem að þessu lúta.