11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það þarf, eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, betri aðstæður til ítarlegrar málefnalegrar umr. um þessi atriði.

Varðandi olíustöðina er ég sammála því, að það sé ákvörðunaratriði utanrrh. eins og aðrar framkvæmdir varnarliðsins, hvernig í það er ráðist. Ég tel að það þurfi að rannsaka mjög vel þá skýrslu sem fram er komin, þ. á m. staðsetningu tankanna, en fyrir þessar byggðir er aðkallandi að fá þetta gert.

Ég ætla tímans vegna aðeins að nefna eitt atriði í þessu olíustöðvarmáli Suðurnesja. Það er að íslensku olíufélögin hafa neitað að þau hafi nokkurra hagsmuna þarna að gæta eða að hafa nokkur afskipti af málinu. Þó liggur fyrir að allt flugvélabensín fyrir farþegaflug, sem ekki kemur varnarliðinu við, er sett á land á Reykjavíkursvæðinu og flutt með bílum í gegnum mesta þéttbýlissvæði landsins suður á flugvöll. Þetta er stórhættulegt og við getum vaknað við það hvenær sem er, að einn þessara bíla hafi lent í árekstri og sprungið í loft upp, og er best að segja sem minnst um afleiðingarnar. Þess vegna skil ég það ekki, úr því að talað er um að byggja olíustöð með löndun á Reykjanesi, hvers vegna löndun fyrir íslenska flugið er ekki þar með.

Ég tel að það eigi að athuga þetta mál nánar, ekki aðeins spyrja olíufélögin, heldur kanna frá almennum íslenskum þjóðfélagshagsmunum hvort við eigum ekki — í fyrsta lagi öryggis vegna og í öðru lagi vegna óhemjulegs slits á götum og vegum — að fyrirskipa það, ef þessi stöð verður reist einhvers staðar á Reykjanesi, að hún verði notuð fyrir okkar olíuflutninga til flugvallarins um leið.