14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4387 í B-deild Alþingistíðinda. (4440)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns vekja athygli á því, að fyrr á þessu þingi ræddi ég sérstaklega um það, að með reglugerð um sjómannafrádrátt 27. júní 1980 hefði verið skertur fiskimannafrádráttur eins og hann er ákveðinn í 30. gr. laga um tekju- og eignarskatt. Í 2. tölul. C-kafla 30. gr. segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimannafrádrátt, er nema skal 10% af beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenskum fiskiskipum. Þessi ákvæði eiga einnig við um hlutaráðna landmenn.“

Vegna þeirrar framkvæmdar, sem verið hefur á þessum lögum, og vegna þeirrar reglugerðar, sem út var gefin, sé ég mér óhjákvæmilegt að flytja svohljóðandi brtt., þ. e. viðauka við 2. tölul.:

„Óheimilt er að takmarka fiskimannafrádrátt samkv. þessari grein með reglugerð.“

Vil ég biðja hæstv. forseta um að leita afbrigða fyrir því að þessi till. megi koma til afgreiðslu.

Ég þarf ekki að taka það fram, að sú venja hefur ekki tíðkast að framkvæmdavaldinu sé heimilt að ákveða fyrir löggjafann hvernig skattalögum sé háttað. Þó svo að við lifum nú á tímum afturvirkra skatta, lifum á þeim tímum sem endrum og sinnum er farið að leggja eignarskatt og tekjuskatt á svo sem tvisvar sinnum á ári og lifum á þeim tímum sem afturvirknin er alls ráðandi, menn eru jafnvel sviptir launum sínum mánuði aftur í tímann, eins og gerðist um mánaðamótin mars-apríl, þá ætla ég samt að gera tilraun til þess að leita eftir stuðningi hjá deildinni við þá skoðun mína, að hæstv. fjmrh. verði að una landslögum varðandi fiskimannafrádráttinn.

Það hefur verið svo norður við Eyjafjörð svo lengi sem ég kann að rekja þá sögu, að menn hafa verið hlutaráðnir við netabátana, einn til tveir landmenn, og sá háttur verið á hafður, að ef skipverji forfallast hafa þessir menn hlaupið í skarðið um lengri eða skemmri tíma, stundum einn róður, stundum fleiri. Þetta hefur auðveldað mannaráðningar, þetta hefur auðveldað uppgjör eftir veiðitímabil, og reynslan hefur sýnt að þessi háttur hefur gefist afskaplega vel. Þessar byggðir eru kunnar að því, hversu mikil samdrægni ríkir á þessum stöðum. Útgerðin þar hefur blómgast og menn hafa lagt sig fram um að framleiðslan sé sem best, líka vegna þess að hver og einn ber úr býtum eftir því, hversu miklum verðmætum er skilað á land og hversu vel er unnið að aflanum.

Nú hefur mér verið sagt að sá hængur sé hér á, að Sjómannafélag Akureyrar hafi ekki samið við útgerðirnar út með Eyjafirði nákvæmlega um það, hversu þessum hlutaskiptum skuli háttað. Á hinn bóginn er bent á það, að útgerðirnar hér fyrir sunnan hafi samið um það, að svo og svo margir menn skuli vera í landi við að beita línur og þeim hafi tekist í samningum að fá stjórnvöld til að fallast á að hlutaráðnir menn við línubeitingar skuli fá fiskimannaafslátt. En ef það heita hlutaráðnir menn fyrir norðan eiga þeir ekki að fá samsvarandi aflsátt.

Nú er að sjálfsögðu afskaplega einfalt fyrir Sjómannafélag Akureyrar og útgerðarmenn út með ströndinni að semja um það, að þessir hlutir séu aflahlutur bátsins, og stækka hlut sjómanna sem því nemur, rétt eins og gert er í sambandi við línuútgerðina. Þá skilst mér að búið sé að ýta til hliðar þeim fyrirslætti, að ekki sé um umsaminn aflahlut að ræða. Það hefur verið svo hjá löggjafanum oft og tíðum, að sumar stéttir hafa setið við annað borð vegna þess að þeirra stéttarfélögum hefur tekist að semja um svo og svo mikil fríðindi sem skattayfirvöld hafa fallist á að ekki skuli falla undir tekjuskatt. Ég hef áður gagnrýnt það, að ég tel að það sé ekki verkefni vinnuveitandans og launþegans að semja um skattfríðindi einstökum stéttum til handa. Slík skattfríðindi eiga að ákveðast af Alþingi sjálfu án tillits til þess, hvernig kjarasamningar hafa orðið. Á hinn bóginn er það hreinn útúrsnúningur — og það sjá allir menn — að eitthvert réttlæti sé í því, að landmaður skuli fá fiskimannaafslátt ef veiðarfærið heitir lína, en hann skuli ekki fá fiskimannaafslátt ef veiðarfærið heitir net.

Í framkvæmdinni virðist þetta ætla að verða svo fyrir norðan, að útgerðin eigi að halda um það nákvæma skrá ef þessir landmenn hafa þurft að hlaupa í skarðið í viku, einn túr eða hálfan mánuð. Og það er fullur skilningur milli skattyfirvalda og útgerðarmanna þar um að þvílíkar yfirlýsingar frá útgerðarmönnum yrðu teknar trúanlegar. Ég efast ekki um að við það verði staðið. En það, sem ég fer fram á hér, er að sá háttur, sem verið hefur um þennan veiðiskap, megi áfram verða og sjómenn við Eyjafjörð megi njóta áfram þess fiskimannaafsláttar, sem þeir hafa notið til þessa, og sitja þar við sama borð og hlutaráðnir línumenn á Suðurnesjum. Ég vænti þess, þó svo að menn á hinu háa Alþingi skiptist í stjórnmálaflokka, að þeir muni sameinast með mér um að fiskimannaafsláttur eigi ekki að fara eftir því, hvar menn búa á landinu. En það er um þetta eins og ýmislegt fleira, að ef menn eru ekki gagnkunnugir hlutunum hér frá nágrenni Reykjavíkur, þá virðist erfitt að koma þeim í gegn vegna þess að staðarþekkinguna skortir. Og nóg um það.

Ég vil svo segja það varðandi ræðu hæstv. landbrh., að mér kom ekki á óvart það sem hann sagði. Ef frv. ríkisstj. hefði verið samþykkt óbreytt hefðu þeir menn, sem stunda einkarekstur, ekki fengið að njóta 10% frádráttarins og ekki heldur persónuafsláttar við útsvar. Eins og málin hafa þróast upp á síðkastið kemur það síður en svo á óvart þótt þeir ráðh., sem kosnir voru á þing í síðustu kosningum og eru þm. Sjálfstfl., snúist gegn hverri tilraun sem gerð er til þess að einkarekstraraðilar njóti samsvarandi réttar og aðrir menn í þjóðfélaginu, að ég tali nú ekki um kaupfélögin. Með hliðsjón af því ber að skilja hans ræðu.

Ég ávarpaði formann Verkamannasambands Íslands sérstaklega við 1. umr. þessa máls og beindi því þá til hans, að hann gerði grein fyrir því, með hvaða hætti og eftir hvaða aðferðum hann hefði komist að þeirri niðurstöðu að það frv., sem hér liggur fyrir, jafngilti 1.5% kaupmáttaraukningu hjá launþegum. Í frammíkalli þá lofaði hv. þm. því, eða a. m. k. gaf það í skyn, að hann mundi reiðubúinn til þess að fjalla nánar um þessi mál síðar. Og ég minnist þess sérstaklega, að hann talaði þá um að sú staðhæfing mín væri röng að atvinnutekjur hefðu hækkað um 53% frá árinu 1979 til 1980. Nú skora ég á þennan hv. þm. að skýra frá því hér í ræðustól Nd., hversu hann metur hækkun atvinnutekna þeirra launþega, sem eru innan Verkamannasambandsins, frá árinu 1979 til 1980. Það er hans starf sem formanns Verkamannasambandsins að standa vörð um það fólk, og þegar hann í einkaviðræðum við ríkisstj. gaf yfirlýsingu um það, að í þessum skattalögum fælist 1.5% aukning kaupmáttar, hlýtur hann að hafa fullvissað sig um að framlögð gögn gæfu þetta í skyn. Nú óska ég eftir því, að hv. þm. sannfæri mig og aðra þdm. um að þessi niðurstaða sé rétt. Ég skal ekki óska þess af hv. 8. landsk. þm., sem sæti á í stjórn BSRB, að hún gefi sambærilegar yfirlýsingar, en hlýt að samhryggjast þessum þm. út af því, að þeir launþegar, sem notið hafa hennar forsjár á s. l. ári, hafa dregist aftur úr öðrum launþegum varðandi kaupmátt.

Hæstv. fjmrh. sagði við 1. umr. málsins að hann mundi við 2. umr. gefa skýringu á því, hversu ríkisstj. hefði reiknað launahækkanir á þessu ári og hversu mikil verðbólgan yrði frá einum mánuði til annars. Að sjálfsögðu er óhjákvæmilegt að þær upplýsingar liggi fyrir til þess að kaupmátturinn verði mældur. Ég efast ekki um, að hæstv. fjmrh. muni standa við þetta, og skal ekki hafa mínar orðræður við hann lengri fyrr en í síðari ræðu minni eftir að hann hefur gefið skýringar á því, hvernig hann reiknar með að kauphækkanir verði út árið og hversu miklu hærri heildarlaunin verði á þessu ári borið saman við s. l. ár.

Það er nauðsynlegt í sambandi við þetta frv. öðrum þræði að tala um lífskjörin í landinu vegna þess að kjaraskerðingin 1. mars var bundin fyrirheitinu um 1.5% kaupmáttaraukningu með lækkun skatta. Það var loforðið sem ríkisstj. gaf. Fyrri helmingur ársins er að líða. Launþegar hafa ekki fengið krónulækkun á fyrirframgreiðslunni þrátt fyrir þetta fyrirheit. Fyrirframgreiðslan hefur verið nákvæmlega jafnhá og hún hefði orðið þótt til engrar kjaraskerðingar hefði komið 1. mars. Þetta sýnir að ríkisstj. hefur svikið sitt fyrirheit varðandi fyrri hluta þessa árs að fullu. 7% kjaraskerðingin 1. mars var algjör vegna þess að ekki fylgdi með í kaupið, eins og ríkisstj. hafði lofað, lægri fyrirframgreiðsla opinberra gjalda. Og fróðlegt væri að fá reiknað af hagspekingum ríkisstj. hversu mikið launþegar eiga inni vegna þessara svika.

Ég var svo óheppinn að hafa ekki aðstöðu til þess að hlusta á kvöldfréttir sjónvarpsins í gærkvöld, en mér hefur verið sagt að hæstv. forsrh. hafi þar lýst yfir að verðbólgan yrði 36% á þessu ári. (Gripið fram í.) Var það 33%. — Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann sé jafnbjartsýnn og hæstv. forsrh. varðandi það að verðbólgan verði 33 eða 36% á þessu ári. Og ég vil spyrja hann um leið hvað hann reikni með að launahækkanirnar verði miklar. Ég man eftir því og hef oft rifjað það upp, — það er vont, án þess að ég biðji nú að náð sé í formann Alþb., en það er vont að hann skuli ekki vera hér við því honum þykir alltaf skemmtilegt og gott þegar rifjað er upp hvað Lúðvík Jósepsson sagði meðan hann var á Alþingi, sá maður sem ól hann upp, — en ég er ekki viss um að honum finnist guttinn standa sig vel núna þegar hann fylgist með honum úr fjarlægð. Ég er ekki viss um nema Lúðvík mundi nokkrum sinnum taka ofan gleraugun þegar hann líti til ráðherrastólanna og virti fyrir sér þá kjaraskerðingu, sem orðið hefur á þessu þingi sem er að ljúka, og þetta plagg, sem hér liggur fyrir um enn frekari skattpíningu á launþegum en var öll ár Geirs Hallgrímssonar í ríkisstj.

Lúðvík Jósepsson sagði 1978, þegar sú ríkisstj. sem sat um þetta leyti árs var að verja sig með því, að kaupmátturinn yrði svipaður og á s. l. ári, kaupmátturinn árið 1978 yrði svipaður og á s. l. ári, kaupmátturinn árið 1978 yrði svipaður og 1977, þá sagði Lúðvík: Þetta er ekki sanngjarnt af því að við sömdum um sólstöður 1977 og þá ætluðum við okkur að fá meiri kaupmátt á árinu 1978 en meðaltalið 1977. Þess vegna eigum við að reikna með hærri kaupmætti 1978 af því að samningarnir voru á miðju ári 1977.

Hvað skyldi formaður Verkamannasambands Íslands segja um það núna? Skyldi hann taka undir með Lúðvík Jósepssyni um að samningar í árslok leggi þá byrðar á verkalýðshreyfinguna og á þá ríkisstj., sem verkalýðshreyfingin telur sína ríkisstj., að þessir aðilar í sameiningu reyni að finna einhverja leið til þess að kaupmátturinn í ár mætti verða að einhverju leyti meiri en á s. l. ári? Það tók þá allt árið að semja. Menn sátu þarna dag eftir dag fyrir ómældan risnukostnað hins opinbera sem allur var greiddur af skattborgurum, allur var greiddur af launþegunum. Það var farið ofan í launaumslögin í hvert einasta skipti og náð í 1% til að borga rekstrarkostnað verkalýðshreyfingarinnar. Dag eftir dag í heilt ár sátu þeir að störfum. Og þeir sömdu um svo og svo miklar grunnkaupshækkanir handa fólkinu í landinu. Menn gerðu sínar áætlanir í samræmi við það, að þegar verkalýðshreyfingin loksins fengi sína ríkisstj. í stólana, ríkisstj. sósíalisma og samvinnuhreyfingar, þá mundi ekki standa á því að umsamdar grunnkaupshækkanir fengju að standa, ekki síst þegar það var rifjað upp að þeir aðilar, sem höfðu forgöngu um þessa samninga, voru ekki atvinnurekendur og hinn frjálsi vinnumarkaður, heldur kom hæstv. fjmrh. með nýju samningana á silfurfati til opinberra starfsmanna.

Maður skyldi halda að ríkisstj. mundi reyna að halda uppi þeim kaupmætti sem hún sjálf semdi við opinbera starfsmenn án nokkurs þrýstings, án þess að til vinnustöðvunar kæmi, án þess að í hótunum væri haft um vinnustöðvun. Í fullum friði var um þetta samið og tónninn gefinn. Og auðvitað, ef ábyrg ríkisstj. hefði verið í landinu, hefði hún a. m. k. reynt að standa við sinn hlut í eitt misseri um kauphækkanir sem hún sjálf átti frumkvæði að. En það var síður en svo.

Sól var naumast farin að hækka á lofti þegar ríkisstj. var búin að koma sér saman um að svipta launþega ríflega því sem um var samið. Og uppi stöndum við núna með ríkisstj. sem laug því að fólkinu í landinu þegar hún tók við, að það væri svigrúm til kjarabóta, og hafði stór orð uppi um Sjálfstfl. af því að Sjálfstfl. hélt fram að það væri ekkert svigrúm til grunnkaupshækkana. En þeir menn, sem settust í ráðherrastólana í byrjun árs 1980, áttu ráðin og þeir vissu hvernig átti að stjórna landinu þannig, að það væri hægt að bæta kjörin verulega og það væri vissulega ástæða til að gera sér vonir um að há grunnkaupshækkun mundi gefa launþegunum eitthvað í aðra hönd þegar til lengdar léti. Þetta var það fyrirheit sem gefið var. Í samræmi við þetta samdi ríkisstj. við opinbera starfsmenn. Og það kom að sjálfsögðu á eftir að samið var á hinum frjálsa vinnumarkaði. En ef þessi saga er skoðuð sér maður að þessar grunnkaupshækkanir hefðu orðið miklu meiri ef ekki hefði verið sterk stjórn í Vinnuveitendasambandinu. Það, hversu staðið var í ístaðinu, er einvörðungu að kenna þeim gömlu íhaldskörlum og Geirsliði sem hefur hreiðrað um sig uppi í Garðastræti. Síðan kom það eftir að samið var á hinum almenna vinnumarkaði.

Menn muna hvernig talað var 1. maí 1978. Það var nú meiri munurinn frá því sem er núna. Formaður Verkamannasambandsins bað ekki um það í ár að hann fengi að vera aðalræðumaðurinn. Hann vitnaði ekki í Jón Hreggviðsson núna og minntist ekki á Íslandsklukkuna og Íslandsmann. Og ég gat ekki séð að borgarfulltrúinn og alþm., hv. 8. landsk. þm., væri neins staðar á mælendaskrá heldur né ritstjórar Þjóðviljans. Og forseti Alþýðusambandsins laumaðist norður í land í von um að ekki yrði tekið eftir því hvað hann segði.

Nei, það var ekki hávaði núna. Og hvernig skyldu kröfurnar vera núna? Núna er ríkisstj. samvinnumanna og sósíalista við völd. Það var alltaf talað um það, að viðreisnarstjórnin og gömlu ríkisstjórnirnar vildu arðræna. Hvað skyldu launakröfurnar vera miklar núna? Skyldu þær vera eitthvað í líkingu við það sem þær voru 1977? Skyldi vera talað um það núna í sjónvarpinu við formann iðnrekenda og hann spurður: Getur þú lifað á þessum kjörum? Nei, það er ekki spurt um það. Það er talað um að með skattalækkunum eigi að hjálpa fólkinu og þó eru fyrirframgreiðslurnar óbreyttar. Svo er pöntuð skoðanakönnun í Dagblaðinu öðru hverju. Það er allt og sumt. En launin fara minnkandi. Og svo er af forustumönnum alþýðusamtakanna dregið hér á hinu háa Alþingi að þeir treysta sér ekki einu sinni til að koma upp í ræðustólinn og gera grein fyrir því sem þeir þykjast hafa unnið á í sambandi við það skattalagafrv. sem hér liggur fyrir. Þeir treysta sér ekki til þess. Þeir eru orðnir hógværir upp á síðkastið, eins og höfðingjarnir þegar þeir riðu frá Mosfellsklerki forðum og heyrðu þegar sannleikurinn var talaður enda fer ekki hjá því að menn hafi tekið eftir því, að ASÍ er byrjað að klofna, og það dettur engum manni í hug að næstu heildarkjarasamningar verði þannig gerðir að Alþýðusambandinu verði gefin heildarforsjá þeirra mála. Og fróðlegt verður að sjá m. a. hvort Verkamannasamband Íslands treystir sér til þess að spenna bogann svo hátt að svo sem 2–3% grunnkaupshækkun væri möguleg og þá í áföngum. En að hugsa sér að Verkamannasambandið mundi nú nefna tveggja stafa tölu í sambandi við grunnkaupshækkanir, að hugsa sér að Verkamannasambandið mundi kannske treysta sér til þess að hækka grunnkaupið í næstu samningum jafnmikið og það var skert 1. mars s. l., það er fráleitt vegna þess að þeir menn, sem stjórna verkalýðshreyfingunni, eru ekki þangað komnir til þess að bæta kjör íslenskrar alþýðu, heldur vegna þess að þeir eru þar á pólitískri varðstöð og líta fyrst og fremst á sitt hlutverk sem pólitískra legáta þeirra manna sem hafa hreiðrað um sig á Grettisgötunni og hafa hvað best samböndin austur um, eins og m. a. blaðafulltrúi ASÍ er glöggt vitni um. Sumir þeirra eiga alltaf í skrifborðsskúffunni farmiða á Svartahafsstrendurnar þar sem þeir geta sólað sig á milli þess sem þeir gera spé að Eystrasaltsþjóðunum. Ég verð að játa að ég er að vona að þeir gleymi stundum að taka miðann með til baka og verði þar eftir. Þeirra yrði ekki sárt saknað hér á landi þótt svo yrði. (Gripið fram í.) Ég er að tala um það, að formaður Verkamannasambands Íslands gaf fyrirheit um að í þessum skattalögum fælist 1.5% kaupmáttaraukning hjá launþegum og það ber ekki á henni hér. Eins og þetta frv. liggur fyrir frá meiri hl. n. verður kaupmátturinn rétt svipaður og ef skattalögin hefðu gilt sem voru í fyrra. Það er nú allt og sumt. En það er reynt að blekkja. Og það er auðvitað gert í skjóli þess, að það er pínulítið erfitt að meta 1.5% kaupmáttaraukningu fyrir fram í 60% verðbólgu. Það er ekki hátt prósent og erfitt að átta sig þar á brotunum. En hitt sjá allir, að kaupið var skert um 10% 1. mars, engin lækkun kom á fyrirframgreiðslu opinberra gjalda á þessu ári og launþegar hafa því orðið að taka þá kaupskerðingu á sig að fullu og hafa engar bætur fengið. Þetta er hrollvekjandi, enda er nú svo komið að það er talað um að það þurfi að gera sérstakar ráðstafanir til þess að breyta lausaskuldum almennra borgara í föst lán. Ég man ekki eftir þvílíku fyrr. Það er algert einsdæmi og ágæt meðmæli með ríkisstj. fólksins, ríkisstj. sósíalisma og samvinnuhreyfingar. Það er ekki ónýtt.

Það er nú leiðinlegt að hæstv. landbrh. skuli vera farinn út. (MB: Hann er að jafna sig eftir eigin ræðu.) Hann var nú að vísu óvenjustuttorður hér áðan, en glöggur eins og vant var og vissi hvað hann vildi og sagðist ekki vilja reikna mönnum laun umfram það sem þeir sannanlega þénuðu. Samt sem áður saknar hann þess nú mjög ef 17. gr. félli niður:

„Þrátt fyrir ákvæði 32.–49. gr. má heildarfjárhæð fyrninga aldrei vera hærri en svo að hreinar tekjur af rekstrinum nái ekki a. m. k. 5% af heildartekjum. Skerðing fyrninga samkv. þessari grein skal þó aldrei nema meiru en 10% af heildarfjárhæð gjaldfærðra fyrninga skv. 32.–49. gr. á rekstrarárinu. Skerðingin skal fyrst lækka gjaldfærðar fyrningar samkv. 44. gr. Eftirstöðvar skerðingarinnar skulu síðan lækka aðrar gjaldfærðar fyrningar á rekstrarárinu.“

Hugsunin á bak við þessa grein er sú, að það eigi að leggja hærri tekjuskatt á þau fyrirtæki, sem illa ganga, heldur en hin, sem betur ganga. Má segja að í þessu ákvæði lýsi sér í hnotskurn viðhorf hæstv. ríkisstj. til atvinnurekstrarins.

Herra forseti. Ég skal svo ekki hafa þessi orð lengri, en vænti þess, að leitað verði afbrigða til þess að brtt. mín megi fram koma, í von um að menn megi sitja við sama borð varðandi fiskimannafrádrátt hvar sem þeir búa á landinu.