14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4399 í B-deild Alþingistíðinda. (4445)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil ekki lengja þessar umr. og gera að umtalsefni ýmislegt sem hér hefur komið fram. Það hefur margt verið rætt hér um brtt. og ýmislegt fleira. Ég vil aðeins ítreka það, að ég mælti hér fyrir sameiginlegum brtt. fjh.- og viðskn., en get ekki stutt aðrar brtt. sem fram hafa komið.

Ég vil aðeins minnast á það varðandi þá till. sem hv. þm. Matthías Bjarnason lagði hér fram varðandi fjárfestingarsjóð, að það hefur lengi verið á dagskrá og lengi verið m. a. mitt áhugamál að breyta svokölluðum varasjóð í fjárfestingarsjóð, þ. e. skattalegan, fjárfestingarsjóð. Ég tel að það eigi mikinn rétt á sér, sérstaklega í því verðbólguástandi sem við búum við, og geti verið mikilvægt tæki fyrir hagstjórn í þessu landi. Hins vegar tel ég að það þurfi að ganga nokkuð jafnt yfir allar atvinnugreinar.

En ég vil aðeins minnast á það sem hæstv. landbrh. sagði hér, að enn fæli þetta í sér að verið væri að lögfesta það ranglæti, sem við hefur verið haft, og þetta geti leitt af sér ranglæti. Það er vissulega afstætt hvað er réttlæti og hvað er ranglæti. Fyrir nokkrum árum var í þjóðfélaginu talið mikið ranglæti þegar ýmsir menn úr atvinnurekendastétt í Bolungarvík, Borgarnesi, Hveragerði og um land allt voru skattlausir. Þá hrópaði þjóðin einum rómi um, að slíkt ranglæti mætti ekki viðgangast, og krafðist þess af stjórnmálamönnum, að þeir færu að gá að því hvað ætti að gera við hana. Þá voru að vísu ekki allt saman skemmtilegar umræður, en hitt er svo annað mál, að þá hét það ranglæti samkvæmt almannarómnum.

Það var tekin upp sú regla að taka upp reiknuð laun og tókst ekki sérstaklega vel til í upphafi. Það er ekki þar með sagt að sú aðferð hafi mistekist. Ég tel að þessi regla, sem hér er komin, geti ekki leitt til þess sem ég kalla ranglæti, vegna þess að ég tel fyllilega verjanlegt að maður sé skattlagður af því fé sem hann fær og tekur til einkaneyslu úr sinum rekstri, alveg eins og launþeginn þarf að greiða skatta af sínu umráðafé. Með þessum reglum er tryggt að það er ekki hægt að skattleggja mann fyrir meira fé en sem nemur peningalegum tekjum. Ég get ekki séð, ef ég er aðili, sem rekur sjálfstæða starfsemi, og hef 10 milljónir til umráða til minnar einkaneyslu og fjárfestingar í mínu prívatlífi, að ég eigi að borga neitt minna í skatta heldur en launþeginn sem fær 10 milljónir til umráða. Það var hins vegar sá galli á þessari reglu eins og hún var, að hún gat leitt til þess, að menn greiddu skatta af tekjum eða peningum sem þeir höfðu aldrei fengið í hendur.

Ég vil einnig taka það fram, að með þessum breytingum er á engan hátt verið að leggja til að fella niður fyrningar eða fella niður afskriftir í einu og öllu. Það myndast yfirfæranlegt tap sem hægt er að draga frá á næsta ári. Og það eru töluvert mikil réttindi að geta gert það jafnt í öllum atvinnurekstri. Það var niðurstaða mín og okkar allra í nefndinni, að við vildum ekki taka þau réttindi af þeim, sem stunda sjálfstæða starfsemi, að draga frá 10% af sínum tekjum. Við vildum ekki taka af þessum mönnum þau réttindi, að persónuafsláttur gengi upp í útsvör. Við vildum ekki taka af þeim þau réttindi að geta jafnað tapið á tekjum milli ára. Og við vildum ekki standa að því, að lítil sveitarfélög væru svipt verulegum tekjum. Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því, að við gerum þessar breytingar. Og við teljum að greinin, eins og hún er, leiði ekki til ranglætis. Vissulega getur alltaf eitthvert ranglæti komið upp í þessu þjóðfélagi þrátt fyrir góð lög. Lög tryggja menn ekki alfarið gegn ranglæti. En eins og ég nefndi áðan var aðaluppistaðan í okkar rökstuðningi að við hefðum talið það mikið ranglæti hefðu þessir aðilar verið sviptir þessum réttindum.