14.05.1981
Neðri deild: 94. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4408 í B-deild Alþingistíðinda. (4451)

291. mál, almannatryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. um frv. til l. um breyt. á lögum um almannatryggingar ásamt brtt. sem liggja hér fyrir á þskj. 811. Nefndin fjallaði um málið, en það hefur þegar hlotið afgreiðslu í Ed. þar sem mælt var með samþykkt þess óbreytts, en heilbr.- og trn. Nd. taldi nauðsynlegt að gera á því lítils háttar breytingar.

Sú fyrri er við 1. gr. og er þar lagt til að nánari ákvæði um framkvæmd skuli sett með reglugerð. Nefndinni þótti ástæða til þess að ráðgast við Tryggingastofnun ríkisins um hvernig yrði í framkvæmd fyrir umsækjendur að sanna 25 ára veru á sjó þar sem skráning hefur verið með ýmsu móti, a. m. k. áður en Lífeyrissjóður sjómanna var stofnaður, og stofnunin óskaði eindregið eftir að það ákvæði yrði sett inn í þessa grein, að reglugerð yrði sett um framkvæmd.

Síðari breytingin er við 2. gr., en þar þótti ekki ljóst að mati deildarstjóra lífeyrisdeildar Tryggingarstofnunar ríkisins hvort örorkustyrk, sem væri orðinn jafnhár örorkulífeyri, ættu að fylgja bætur tengdar örorkulífeyri. Við gerum því tillögu um að aftan við greinina bætist innan sviga til frekari skýringar: „(grunnlífeyris, án bóta tengdra honum).“

Einkum vakti það athygli, að í grg. er sagt, með leyfi forseta: „Til þess að búa betur að örorkustyrkþegum er lagt til að þeir séu eins settir við ofangreind aldursmörk eins og örorkulífeyrisþegar.“ Þetta er varla hægt að skilja öðruvísi en svo, að hugsanlegt væri að bæta tekjutryggingu, frekari uppbótum og jafnvel barnalífeyri við þennan nýja örorkustyrk. Þetta var ekki hugsunin, enda gert ráð fyrir að slíkir menn geti verið í fullri vinnu eða a. m. k. vinnu að verulegu leyti, þannig að okkur þótti rétt að taka þarna af allan vafa.

Ég vænti þess, að þessar lítilfjörlegu breytingar, sem eru meira til auðveldunar á framkvæmd, tefji málið ekki til neinna muna, og skora á hv. deild að samþykkja frv. með þessum brtt.