15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4417 í B-deild Alþingistíðinda. (4464)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég hef að vísu ekki lagt það í vana minn að eiga í þrætum um Framkvæmdastofnun ríkisins. Ég gæti þá fáu öðru sinnt ef stöðugt ætti að sitja fyrir svörum um þau málefni og þá gagnrýni sem haldið er uppi. Og ekki dettur mér í hug að neita því, að ég sé haldinn mannlegri náttúru í ríkum mæli. En það eru örfá atriði sem ég ætlaði að nota tækifærið til þess að leiðrétta af því sem kom fram í máli hv. 9. þm. Reykv.

Gagnrýnin, sem í frammi var höfð hér á hinu háa Alþingi árið 1971, síðla árs, þegar lögin um Framkvæmdastofnun ríkisins voru til umræðu og afgreiðslu, beindist aðallega að tveimur þáttum: Í fyrsta lagi að þeim þætti sem skýrlega og berlega kom fram í lögunum, að þessi stofnun ætti að hafa með alla yfirstjórn fjárfestingarmála í landinu að gera. Þetta var svo tvímælalaust ákvæði að mönnum datt ekki annað í hug en að hér væri verið að setja upp nýtt fjárhagsráð með enn breiðara valdsviði en nokkru sinni fyrr og eftirlit með öllum fjárfestingarlánasjóðum þessa lands, þar með talið bönkum. Þetta geta menn allt saman kynnt sér. Höfuðgagnrýnisefnið var það, að forstöðumenn eða framkvæmdastjórar þeirrar stofnunar voru ekki ábyrgir gagnvart þingkjörinni stjórn stofnunarinnar. Kosin var sjö manna þingkjörin stjórn og hefur alla tíð verið skipuð alþingismönnum einvörðungu. En þessir þrír, sem ráðnir voru og skipaðir samkvæmt lögunum af viðkomandi ríkisstj., báru enga ábyrgð gagnvart þingkjörinni stjórn stofnunarinnar. Og þaðan er „kommissaranafnið“ komið með réttu.

Samkvæmt lögunum gat enginn stjórnarmaður borið upp till. í stofnuninni, og stjórnin gat samkvæmt lögunum ekkert haft um það að segja hvað þeir tóku sér fyrir hendur eða hvaða ákvarðanir þeir í raun og veru tóku. En hin harða gagnrýni á þessa skipan mála varð auðvitað til þess, að stofnunin varð aldrei að því sem menn virtust reiða til höggs með í upphafi, sem betur fór.

En þeir, sem ræða um Framkvæmdastofnun — og ég hef tekið eftir því að þeir hinir sömu flestir hafa aldrei haft fyrir því að leggja lykkju á leið sína að kynna sér þessi mál frá fyrstu hendi, ekkert af þeim, og hafa aldrei sést á þeim vettvangi þar sem helst væri að leita upplýsinga um efni málsins, — þeir hafa ekki veitt því athygli, að þessum lögum var snarbreytt með nýjum lögum frá Alþingi árið 1976. Þeim var snarbreytt á þann veg, að nú voru það ekki lengur viðkomandi ríkisstjórnarflokkar sem skipuðu valdamenn þessarar stofnunar, heldur var það hin þingkjörna stjórn sem réð þá til starfa og síðan með skipun forsrh. eða ríkisstj. Og þessir menn eru fullkomlega ábyrgir gagnvart þeirri stjórn. Það mikla valdsvið, sem þeir höfðu, þó þeir beittu því ekki í upphafi, var af þessum mönnum tekið.

Í öðru lagi er mikill misskilningur að halda því fram, að þessir menn séu æviráðnir. Það var ákveðið við breytinguna 1976 að þessir menn skyldu hafa nákvæmlega sömu starfskjör og réttindi og þjóðbankastjórar, bankastjórar viðskiptabankanna hafa. Það þýðir að starfi þeirra má segja lausu, þeir geta sagt starfi sínu lausu, og það má segja þeim upp með tólf mánaða fyrirvara. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Verði það talið hápólitískt starf, — raunar er það auðvitað pólitískt eins og flest okkar störf og ekki ætla ég að draga úr því að þetta sé það, — þá er það auðvitað auðgert fyrir þá, sem fara með framkvæmdavaldið í landinu, og meiri hluta á Alþingi að breyta þessu og segja starfsmönnum og framkvæmdastjóra og forstjóra upp í þessari stofnun. Það gefur alveg auga leið af því sem það er kosið í stjórn þessarar stofnunar hlutfallskosningu eftir þingkosningar og þar af leiðandi breytist valdahlutfall pólitískt í þessari stjórn sem að líkum lætur eftir hverjar kosningar. Og þá er þetta opin leið. Það má segja kannske að þarna hafi starfskjör verið bætt að því leyti sem hin gamla regla var numin úr gildi, að þessum „kommissörum“ skyldi sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara ef stjórnarskipti yrðu. Og hvers vegna? Vegna þess að það var í verkahring ríkisstj. að skipa þessa menn beint, án aðildar hinnar þingkjörnu stjórnar.

Varðandi vaxtamál sjóðsins vil ég aðeins láta þess getið, án þess að ég muni fara mjög inn á það svið að ræða innanhúsmál eða stjórnarfundamál í Framkvæmdastofnuninni, þá er ekki fyrir það að synja, að það hefur gengið mjög þunglega að ná fram hækkun á vaxtakjörum Byggðasjóðs. Ég minnist þess, að þegar ég hóf störf í þessari stofnun voru vaxtakjörin 6%. Það gekk erfiðlega að ná úrbótum í þessu skyni og lengi var þæft þar til það náðust 8%, það náðust 10%, 14% og síðan 22%. Í des. s. l. var lögð fram tillaga um hækkun í 32%. Á síðasta ári var samþykkt tillaga frá stjórninni um að stofna verðtryggingardeild, og í vaxandi mæli hyggst stjórnin notfæra sér það og hefur t. a. m. núna ákveðið að öll lán til gatnagerðar skuli vera í þessari verðtryggingardeild, en áætlað er að þau muni nema á þessu ári 4 millj. kr. eða 400 millj. gkr. Þótt heilir málaflokkar hafi ekki verið færðir undir þessa deild er samt áformað að nota það form í vaxandi mæli, en þó eftir eðli málsins hverju sinni. Stjórn Framkvæmdastofnunar hyggst í vaxandi mæli slita sjálfvirkni sem því miður hefur gilt um of í ýmsum greinum.

Ég get upplýst hins vegar að stjórnin telur sig, þegar vaxtakjör eru svo langt undir því sem gerist á hinum almenna markaði, hafa til þess vald samkvæmt lögum Framkvæmdastofnunarinnar, að taka ákvörðun um hækkun vaxtanna undir því hámarki sem ákveðið hefur verið almennt af ríkisstj. Hefur hún nú tekið ákvörðun um hækkun vaxta í 28%, en það er samkomulagsmál, hafði áður verið lagt til að þeir hækkuðu í 32%. Þetta er auðvitað mál sem væri hægt að ræða ítarlegar og rétt er það, að í ýmsum tilfellum í lánveitingunum á gjafapólitík alls ekki rétt á sér og stofnunin gagnrýniverð að því leyti.