15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4419 í B-deild Alþingistíðinda. (4465)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Félmrh. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég skal ekki taka langan tíma í þessar umr., en ég vil láta það koma hér fram í tilefni af þessum umr., að ég er þeirrar skoðunar að það sé óhjákvæmilegt að endurskoða lagagrundvöll Framkvæmdastofnunar ríkisins og þó fyrr hefði verið, hér eigi í rauninni að vera um að ræða byggðastofnun, sérstaka byggðastofnun, sem fjalli um byggðavandamál, og í raun og veru ekki mikið umfram það. Ég er þeirrar skoðunar, að það sé algjörlega óeðlilegt að alþm. séu að iðka hluta af framkvæmdavaldinu í stofnunum eins og þessari úti í bæ, eins og gerst hefur á undanförnum árum. Með þessu á ég við ýmis atriði sem komið hafa fram að undanförnu. Þó að ég sé sammála því sem Matthías Bjarnason sagði hér áðan, að það er allt of mikið gert að því að hundelta alþm. í sambandi við alls konar störf sem þeir gegna og þar hafa menn gengið allt of langt, einnig alþingismenn í umræðum um þau mál, þá tel ég að Framkvæmdastofnun ríkisins sé öðruvísi stofnun en ýmsar aðrar, sem nefndar eru í þessum samanburði, og þar eigi ekki að vera alþm. í forstjórastörfum.