15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4419 í B-deild Alþingistíðinda. (4466)

Skýrsla forsætisráðherra um Framkvæmdastofnun ríkisins

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. þm. Vilmundur Gylfason beindi til mín fsp. sem mér er skylt að svara. Ég vil fyrst taka skýrt fram að ég hef jafnan viljað og vil gera greinarmun sem svokölluðum raunvaxta- eða hávaxtamönnum sést oft yfir eða hafa ekki áhuga á að gera, og það er greinarmunur á verðtryggingu og vöxtum. Það er ljóst að í mörgum tilvikum er hér mikill munur á, þar sem verðtrygging bæði inn- og útlána er fyrst og fremst í því fólgin að menn fái aftur eða endurgreiði sama eða svipað verðmæti og þegar til innlána eða útlána var stofnað. Ríkisstj. hefur ætíð verið því fylgjandi að stefna að verðtryggingu og um leið þá að lengingu útlána. Vextir eru að því leyti með öðrum hætti, að yfirleitt þarf að greiða þá jafnóðum, annaðhvort fyrirfram forvexti, eins og er um víxla, eða þá að greiða þá eftir á, kannske hálfsárslega eða árlega. Þannig verka verðtrygging og háir vextir oft ekki á sama veg. Þetta er nauðsynlegt að taka hér enn einu sinni fram vegna þess hvað oft þessu er blandað saman eins og hér sé um eitt og hið sama að ræða.

Varðandi vexti Byggðasjóðs, þá hafa þeir verið 22% síðan á árinu 1979. Núv. ríkisstj. hafði verið að störfum í um meira en eitt ár án þess að stjórn Framkvæmdastofnunar léti nokkuð frá sér heyra um að hún vildi breyta þeim vöxtum. Síðan gerist það, að ég ætla í marsmánuði, að það spyrst að nú vilji stjórn Framkvæmdastofnunar hækka þessa 22% vexti Byggðasjóðs mjög verulega. Mál stóðu þannig að ákveðið hafði verið strangt verðlagseftirlit í fjóra mánuði ársins og enn fremur að ríkisstj. hafði beitt sér fyrir nokkurri vaxtalækkun 1. mars. Ríkisstj. þótti ekki eðlilegt að Framkvæmdastofnun eða Byggðasjóður tæki sig út úr og færi að hækka verulega vexti á þessum tíma. Ríkisstj. beindi því til stjórnar Framkvæmdastofnunar, að hún tæki ekki ákvörðun um að hækka vexti og um leið að kannað yrði hvort ekki væri rétt að Byggðasjóður tæki að einhverju leyti upp verðtryggingu eins og fjölmargir aðrir sjóðir. Við vitum að á undanförnum árum hafa margir sjóðir tekið upp blandað kerfi, verðtryggingu að einhverju leyti og vexti að einhverju leyti.

Þetta er það sem ríkisstj. hefur aðhafst í þessu máli. Ákvörðun Framkvæmdastofnunar um hækkun á vöxtum Byggðasjóðs úr 22% var frestað þá og þessi málaleitun eða þessi afgreiðsla, ef maður kallar það svo, var samþykkt af ríkisstj., að það yrði kannað hvort ekki væri rétt að fara að einhverju leyti inn á verðtryggingu.