15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4420 í B-deild Alþingistíðinda. (4467)

280. mál, stóriðjumál

Frsm. meiri hl. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir áliti meiri hl. allshn., en hún tók til meðferðar till. til þál. um aukningu orkufreks iðnaðar og stefnumótun í stóriðjumálum sem meiri hl. n. flutti. Aðdragandinn að þeirri till. er sá, að á öndverðu þessu þingi voru fluttar tvær till. til þál. um stóriðjumál. Þm. Alþfl. fluttu till. um aukningu orkufreks iðnaðar og 19 þm. Sjálfstfl. fluttu till. um stefnumótun í stóriðjumálum. Þessar till. voru ræddar á sex fundum n, og til viðræðu um efni þeirra komu ráðuneytisstjóri iðnrn. og verkfræðingur í rn. Umsagnir bárust frá iðnrn., Náttúruverndarráði og Félagi ísl. iðnrekenda. Meiri hl. n. varð sammála um að sameina þessar tvær till. í eina og var hún flutt sem sjálfstæð till. Um hana fara fram tvær umr. Eftir fyrri umr. var þessari till. vísað aftur til allshn. og meiri hl. n., þeir sömu og till. fluttu, mælir með samþykkt till., en minni hl. hefur skilað séráliti.

Þegar tillögur þessar voru fluttar á öndverðu þessu þingi voru ítarlegar framsöguræður fluttar til rökstuðnings þessum till. og um þær urðu allmiklar umr. Engu að síður vil ég nú drepa á nokkur atriði varðandi stóriðjumál og orkufrekan iðnað. Ég mun reyna að forðast endurtekningar á því sem áður hefur verið sagt, en óneitanlega er kveikjan að sumu því, sem ég segi, ýmis ummæli sem féllu í umr. um þessar þáltill. tvær fyrr í vetur.

Rökin fyrir því, hvers vegna Íslendingar eigi að leggja áherslu á stóriðju, hafa oft verið tíunduð. Sjávarútvegur og landbúnaður hafa verið grundvöllur verðmætasköpunar og þar með lífskjara á Íslandi frá upphafi byggðar og fram á vora daga. Þessar auðlindir verða áfram mikilvægur þáttur í okkar lífskjörum, en því miður eru þeim takmörk sett. Stofnstærð nytjafiska setur þeim nýtingarmörk sem ekki má fara yfir, eins og fiskifræðingar okkar hafa rækilega bent á, og almennur skilningur er nú á þessum takmörkunum. Sama má segja um landbúnaðinn. Afkastagetu gróðurmoldarinnar eru takmörk sett og þá sníða markaðsaðstæður þessum atvinnuvegi enn þrengri stakk. Á þessu er einnig almennur skilningur, enda hníga allar umræður um landbúnaðarmál í þessa átt. Augu manna beinast því í vaxandi mæli að iðnaði sem framtíðaratvinnugrein, bæði almennum iðnaði, sem ekki er orkufrekur í þeim skilningi sem við oftast leggjum í það orð, svo og orkufrekum iðnaði eða stóriðju. Hin óbeislaða orka í vatnsföllum landsins og í iðrum jarðar er auðlind sem nýta verður í eins ríkum mæli og mögulegt er til eflingar bættra lífskjara á landi hér. Ég óttast mjög, að ef ekki verður nú þegar hafist handa um að undirbúa myndarlegt átak í þessum efnum muni lífskjör hér á landi dragast aftur úr lífskjörum, sem nágrannaþjóðir okkar muni búa við, og fátt er hættulegra framtíðarbyggð þessa lands en slíkur lífskjaramunur.

Sjálfstfl. er fylgjandi nýjum stórátökum í virkjunarmálum og stóriðju. Þessi þáltill. er ein tilraun til að koma því stefnumáli flokksins fram. Sama má segja um frumvarp sjálfstæðismanna í Ed. um nýjar stórvirkjanir og skipulag orkumála, en það eru tvö mikilvæg lagafrumvörp sem þm. flokksins hafa flutt í Ed.

Megintilgangur með þessari stefnu er að skjóta fleiri styrkum stoðum undir atvinnu- og efnahagslíf landsmanna, að forðast það að vera í of ríkum mæli háður því hvað veiðist á landi hér og hvernig sala á fiskafurðum gengur. Við þekkjum vel sveiflurnar sem af því leiðir að við erum of háðir hinum svipula sjávarafla. Þessi stefna á örugglega vaxandi fylgi að fagna meðal þjóðarinnar.

Það er aðeins rétt að hugleiða hvert er þjóðhagslegt gildi stóriðju. Við höfum nú hér á landi þrjú fyrirtæki sem flokkast undir stóriðju. Þau eru álverksmiðjan í Straumsvík, kísilgúrverksmiðjan við Mývatn og járnblendiverksmiðjan á Grundartanga.

Fyrsta stórátak okkar í þessum efnum var bygging álverksmiðjunnar í Straumsvík og í tengslum við hana bygging Búrfellsvirkjunar. Allmikil reynsla er komin á rekstur þess fyrirtækis og áhrif þess á íslenskt atvinnulíf eftir 10 ára starf. Það er því rétt að athuga nokkrar staðreyndir í því sambandi. Ég tek fram að hér er alls ekki um tæmandi úttekt að ræða á þjóðhagslegu gildi þessarar starfsemi, heldur frekar nokkur dæmi.

Starfsemi álversins og reyndar hinna fyrirtækjanna tveggja, sem ég minntist á, hefur breytt allmikið útflutningsmynstri hjá okkur Íslendingum. Árið 1968, síðasta heila árið áður en álverksmiðjan tók til starfa, nam útflutningur iðnaðarvara 1.5% af heildarútflutningi Íslendinga. Árið 1979 var útflutningur áls 13.3% af heildarútflutningi, kísilgúr 0.6%, járnblendi 1.2%, eða stóriðjuvörur samtals 15.2%, en iðnaðarvörur í heild 21.6%. Þetta er mikil breyting á 10 árum og sýnir að nú eru fleiri stoðir undir útflutningi okkar og gjaldeyrisöflun en áður var. Miðað við þær aðgerðir, sem þegar eru í gangi á þessu sviði, er líklegt að hlutdeild orkufreks iðnaðar í útflutningstekjum fari upp í 1/5 hluta.

Gjaldeyristekjur landsins vegna Íslenska álfélagsins eru umtalsverðar. Árið 1979 voru hreinar gjaldeyristekjur 34.4 millj. dollarar og hafa væntanlega numið 42 millj. dollurum árið 1980. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 1980 skiptast gjaldeyristekjurnar sem hér segir: Orka 8 millj. dollarar, skattar 1.3 millj. dollarar, vinnulaun 17.6 millj., annað 9.3 millj., eða samtals vegna rekstrar 36.4 millj. dollarar. Vegna fjárfestingar voru gjaldeyristekjur 5.4 millj. dollarar, þannig að heildargjaldeyristekjurnar eru, eins og áður segir, tæpar 42 millj. dollarar. Þessar upplýsingar eru frá Seðlabanka Íslands.

Við umr. hér á Alþingi fyrr í vetur, þegar rædd var þáltill. þm. Sjálfstfl., hélt hæstv. iðnrh. því fram að engar teljandi gjaldeyristekjur hefðu verið af álverksmiðjunni síðustu 10 ár. Að baki þessari fullyrðingu hæstv. ráðh. lágu furðulegar reikningskúnstir. Hæstv. ráðh. vildi allt í einu fara að tala um nettógjaldeyristekjur og draga þannig frá innflutt aðföng til verksmiðjunnar. Þegar við metum gjaldeyristekjur okkar af útflutningi erum við ekki vön þeim reikningsaðferðum. Þegar við metum t. d. gjaldeyristekjur okkar af sjávarútvegi drögum við ekki fyrst frá erlend aðföng, t. d. olíukaup í fiskibátana eða í fiskmjölsverksmiðjurnar eða annan innflutning í tengslum við rekstur sjávarútvegs okkar. Sama er að segja um annan iðnað og reyndar einnig um landbúnaðinn. Auðvitað væri áhugavert að reikna út eftir aðferðum hæstv. iðnrh. það sem hann kallar nettógjaldeyristekjur af almennum iðnaði, landbúnaði eða sjávarútvegi. Ég veit ekkert hvað út úr því dæmi kynni að koma, en ég veit þó að það dæmi mundi líta út á allt annan veg en þann sem við erum vön að fara þegar við metum gjaldeyristekjur okkar. Það, sem máli skiptir þegar verið er að meta þátt einstakra atvinnuvega í gjaldeyristekjum okkar, er að nota sömu aðferð á allar atvinnugreinar. Allt annað er blekking og það hefur hæstv. iðnrh. því miður gert sig sekan um í þessum umr.

Það er enn fremur fróðlegt að huga að þætti stóriðju í uppbyggingu raforkuvera hér á Íslandi. Samningar um rafmagnskaup álversins hafa verið mikið umræðuefni og hæstv. iðnrh. hefur gagnrýnt þá samninga og sumir hafa jafnvel gegnið svo langt, þ. á m. hæstv. ráðh., að tala um nauðungarsamninga í því efni. Mig langar í því sambandi að vitna í nýjustu greinargerð Landsvirkjunar um þetta efni, en þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, — ég ætla að gera nokkra grein fyrir því m. a. hverjar breytingar voru fólgnar í þeim samningum sem gerðir voru að nýju við álverið á árinu 1976:

Hæstv. iðnrh. gerði og mikið úr því í umfjöllun sinni um gjaldeyristekjurnar að Íslenska álfélagið flytti út, eins og hann orðaði það, „fjármagn í formi allskyns þjónustu, afskrifta og vaxta“. Í því sambandi verðum við að muna að hér er um að ræða afskriftir og vexti af erlendu fjármagni sem fyrirtækið sjálft hefur flutt inn til landsins. Íslenska álfélagið hefur aldrei verið á íslenskum fjármagns- eða lánamarkaði, þannig að 17.6 millj. Bandaríkjadala, sem fyrirtækið greiddi í vinnulaun hér á landi á s. l. ári, eru vinnulaun vegna fjárfestingar sem komið hefur alveg erlendis frá og hefur ekkert tekið frá öðrum atvinnufyrirtækjum á Íslandi sem þurfa á fjármagni að halda. Hvað sem líður tilraunum hæstv. iðnrh. til að reyna að blekkja í þessu máli er ljóst að því takmarki að tryggja meiri stöðugleika í gjaldeyrisöflun íslensku þjóðarinnar hefur verið náð með þeirri stóriðju sem þegar er hér í landi.

„Upphaflega var gert ráð fyrir því í rafmagnssamningi að rafmagnsverðið frá byrjun rafmagnssölu til ÍSALS til þriðja afhendingardags, þ. e. 1. sept. 1975, yrði 3 mills á kwst., upp frá því yrði rafmagnsverðið 2.5 mills á kwst. óbreytt til 1984, en þá skyldi hluti þess endurskoðaður með hliðsjón af breytingum á hreinum rekstrarkostnaði Búrfellsmannvirkja og síðan á sama hátt á 5 ára fresti. Árið 1994 skyldi samningurinn endurskoðaður og ef hann yrði þá framlengdur skyldi rafmagnsverðið breytast og verða hið lægra af tvennu:

Í fyrsta lagi 2.5 mills á kwst. margfaldað með sama hlutfalli og rafmagnsverð til Sör-Norge Aluminium A/S í Husnes í Noregi eykst frá fyrsta afhendingardegi rafmagns 1. júní 1969 til 1. júní 1994.

Í öðru lagi 1% af heimsmarkaðsverði á áli á hvert enskt pund uppgefið í dollurum eins og það verður að vegnu meðaltali á tímabilinu 1. júní 1971 til 1. júní 1994.

Samningi þessum var breytt 1975. Breytingin tók gildi 1976, en umrædd samningsbreyting fól í sér innfærslu á hækkunarákvæði í rafmagnsverði samfara aukningu á raforkusölu til ÍSALS um 20 mw. Hækkunarákvæðið er þannig, að í stað þess að lækka 1. sept. 1975 í 2.5 mills á kwst. var rafmagnsverðið látið haldast 3 mills til 1. jan. 1976, en þá var það hækkað í 3.5 mills þar til 1. júlí 1976. Þá var verðið hækkað í 4 mills þar til 1. júli 1977, en eftir það tók gildi eftirfarandi hækkunarformúla:

a. Meðan heimsmarkaðsverð á áli er 40 cent á lbs. eða minna skal rafmagnsverðið vera 1% af heimsmarkaðsverði á áli, en þó aldrei lægra en 3.5 mills á kwst. b. Meðan heimsmarkaðsverð á áli liggur á bilinu 40-50 cent á lbs. skal rafmagnsverð hækka um 0.85% af álverðsaukningu á umræddu bili. Á sama hátt skal rafmagnsverðið hækka með hækkun álverðs þannig: á bilinu 50–60 cent á lbs. um 0.70%, á bilinu 60–70 cent á lbs. um 0.55%, yfir 70 cent á lbs. um 0.40%. c. Frá 1. júní 1994 skal gilda sama endurskoðun á rafmagnsverði og áður er getið, en þó skal rafmagnsverðið aldrei vera lægra en gildir samkv. ofanskráðri verðbótaformúlu.

Samningurinn um viðbótarorkusölu 20 mw. er með því móti að 12 mw. eru afhent sem ótrygg orka en orkuverðið hið sama og fyrir forgangsorku. Í þessu felst veruleg hækkun á rafmagnsverði forgangsorkunnar vegna viðbótarsölunnar. Í samningnum við Járnblendifélagið er gert ráð fyrir að verðið á ótryggri orku sé 1/4 af verði forgangsorku. Ef þessu hlutfalli er beitt á núverandi rafmagnsverð til ÍSALS, 6.475 mills á kwst., má reikna út að verðið á forgangsorku til viðbótarinnar, þ. e. 20 mw., sé 11.8 mills á kwst. Hækkunarákvæðið gerir það að verkum að nú fæst 6.475 mills á kwst. fyrir orkuna til ÍSALS í stað 2.5 mills á kwst. og nemur því hækkunin á verðinu á hverja kwst. nú um 360% frá upphaflegum samningi. Samtals nemur umrædd breyting á rafmagnsverðinu í hækkuðum tekjum til Landsvirkjunar um 15 millj. dollara á tímabilinu 1. sept. 1975 til ársloka 1980.

Þótt ÍSAL nýti ekki alla orkuvinnslugetu Búrfellsstöðvar sýna áætlanir að tekjur af raforkusölu til ÍSALS muni á tímabilinu frá 1969 fram til ársins 1994 borga upp allan stofnkostnað Búrfellsvirkjunar og tilheyrandi mannvirkja, þ, e. Þórisvatnsmiðlunar, tveggja háspennulína frá Búrfelli að Geithálsi og þaðan til Straumsvíkur, spennistöðvarinnar við Geitháls og gasaflsstöðvarinnar í Straumsvík. Einnig standa tekjurnar undir öllum rekstrarkostnaði áðurnefndra mannvirkja á sama tíma. Sá ávinningur hefur einnig fengist með raforkusölusamningi frá ÍSAL, að ráðist var í þá miklu fjárfestingu, sem liggur í ofangreindum mannvirkjum, á mjög hentugum tíma eða fyrir hinar gífurlegu hækkanir olíuverðs og þá miklu verðbólgu sem siglt hefur í kjölfar þeirra.“

Þetta var tilvitnun í grg. frá Landsvirkjun um rafmagnssamninga við ÍSAL.

Fleiri tölur og staðreyndir mætti og nefna í þessu sambandi. Stofnkostnaður Búrfellsvirkjunar, Þórisvatnsmiðlunar, háspennulinunnar frá Búrfelli, spennistöðvar við Geitháls og gasaflsstöðvar í Straumsvík, varð um 70 millj. Bandaríkjadollara, en yrði nú 270 millj. dollara miðað við þá verðbólgu, sem hefur verið hér á landi, og miðað við að þessi kostnaður yrði þá framreiknaður. Miðað við verðbólgu mælda í vísitölu byggingarkostnaðar í Bandaríkjunum svara um 70 millj. dollara árið 1969 til um það bil 180 millj. dollar árið 1980. Mismunur er um 90 millj. dollara og er hreinn hagnaður íslensku þjóðarinnar af að hafa byggt þessi mannvirki á sínum tíma. Það er því ljóst að þessi mannvirki voru byggð á mjög heppilegum tíma, og auðvitað hefðu þau ekki verið byggð nema til hefði komið sá rafmagnssamningur sem ég hef gert að umtalsefni. Við verðum líka að hafa í huga, þegar við metum þessa samninga, að verðbólgan í heiminum vegna kostnaðar á olíu, hækkandi vaxta og reyndar fleiri þátta fór ekki af stað fyrr en eftir að Búrfellsvirkjun lauk.

En það má líka nálgast þetta mál frá fleiri hliðum. Á tímabilinu 1969–1980 var rekstrarkostnaður Búrfells 10.6 millj. dollarar og afborganir og vextir af lánum voru 72.8 millj. dollarar, þ. e. fjármagns- og rekstrarkostnaður samtals 83.4 millj. dollarar. Á sama tímabili voru tekjur af sölu til almenningsrafveitna 28.1 millj. dollarar, en frá Íslenska álfélaginu 46.3 millj. dollarar. Á þessu tímabili hafa tekjur frá ÍSAL numið 56% af öllum rekstrarkostnaði og greiðslum afborgana og vaxta. Á umræddu tímabili hefur ÍSAL notað um það bil 65% af afli Búrfellsvirkjunar. Þessar tölur sýna m. a. að ef álverið hefði ekki verið byggt og ef álverið hefði ekki fengið rafmagn úr Búrfellsstöð hefði rafmagnsverð til almennings þurft að vera meira en tvöfalt hærra til að standa undir kostnaði við Búrfellsstöð.

Á 25 ára tímabili gera tekjur frá ÍSAL meira en greiða upp allan kostnað við Búrfellsstöð og lætur nærri að það mark náist á 19 árum. Fjármagns- og rekstrarkostnaður á 25 ára tímabili verður samtals 181.9 millj. dollarar, tekjur frá ÍSAL verða 285.6 millj. dollarar, en tekjur frá almenningsrafveitum 117.5 millj. dollarar. Tekjur frá ÍSAL munu á þessu tímabili nema um 70% af samanlögðum tekjum, en það er nálægt því að vera það hlutfall sem ÍSAL notar af aflgetu Búrfellsstöðvar. Í þessum útreikningi er miðað við að tekjur frá ÍSAL og almenningi hækki um 8% og rekstrarkostnaður einnig um sömu prósentu, en að sjálfsögðu mun þetta breytast til hagsbóta ef samið er um frekari hækkun, eins og sjálfsagt er að leita eftir. Hér er miðað við 25 ára tímabil. Þó vita allir að ending slíkra stöðva er mun meiri. Það er talið að Búrfellsstöð og miðlunarmannvirki í Þórisvatni muni endast í um 80 ár. Tökum sem dæmi Ljósafossstöð sem hefur þegar starfað í 40 ár. Ekkert lát er á þeirri stöð og hún malar okkur gull nú þegar. Eftir 25 ára tímabil og reyndar skemur, eftir 19 ára tímabil, eins og ég gat um áður, eigum við þessar stöðvar skuldlausar og þær koma því til með að mala okkur Íslendingum áfram gull í þágu lands og þjóðar.

Ég gat um það áðan að rétt væri og sjálfsagt að leita eftir frekari hækkunum miðað við breyttar aðstæður. Það breytir hins vegar ekki því, að miðað við allar aðstæður var rafmagnssamningurinn við ÍSAL hagstæður á sínum tíma, miðað við þær forsendur sem þá voru fyrir hendi. Ég hjó t. d. sérstaklega eftir því, að hv. 12. þm. Reykv., Guðmundur G. Þórarinsson, gerði þetta nokkuð að umtalsefni í ræðu sinni í fyrrakvöld þegar rætt var um raforkuverin, og hann gat um að það væri sjálfsagt og nauðsynlegt að leita eftir endurskoðun á þessum samningum, en tók fram að hann vildi ekki álasa þeim sem fyrir þessum samningum stóðu á sínum tíma, enda skil ég það vegna þess að núv. hæstv. sjútvrh., formaður Framsfl., tók mjög mikinn þátt í þessu á sínum tíma í svokallaðri stóriðjunefnd og vann mjög ötullega og vann gott starf í því að koma þessum samningum á þegar þeir voru gerðir.

Hins vegar er það algerlega út í hött, eins og hæstv. iðnrh. er að gera, þegar hann er að bera þetta saman við orkuverðið eins og er eða byggingarverð nýrrar virkjunar. Auðvitað munum við Íslendingar þegar leitað verður eftir nýjum samningum við erlenda aðila, sem ég óttast mjög að verði ekki gert í tíð núv. hæstv. iðnrh., en þegar hans stefna verður ekki lengur ofan á í iðnaðar- og orkumálum á Íslandi, þá hljóta menn í nýjum samningum að sjálfsögðu að taka mið af kostnaðarverði nýrra virkjana en auðvitað er ekki hægt að ætlast til þess að það sé ert i gömlum samningum.

Í sínum ræðum hér í vetur vitnaði hæstv. iðnrh. til umræðna sem átt hafa sér stað í Noregi um þessi mál, og víst er það, að þar hafa komið upp hugmyndir um að endurskoða allt raforkuverð og miða það verð við byggingarkostnað nýrra virkjana. Hins vegar sýnist mér af þeim fréttum, sem ég hef frá Noregi, að vafamál sé að sú verði niðurstaðan, enda er mjög erfitt að fá þá reglu samþykkta í viðskiptum og hæstv. iðnrh. er allra manna síðastur til að viðurkenna þá meginreglu í öðrum viðskiptum þó að hann standi hér á hv. Alþingi og telji sig vilja gera það í rafmagnsviðskiptum. Eða hvenær hefur hæstv. iðnrh. eða Alþb. yfirleitt viðurkennt að kaupmaður eigi að fá að verðleggja vöru sína í samræmi við það sem búast megi við að næstu sendingar kosti? Ég held að það sé meginregla sem hæstv. iðnrh. vilji ekki viðurkenna í nokkrum viðskiptum nema þá í rafmagnsviðskiptum.

Hæstv. iðnrh. hefur borið rafmagnsverðið til ÍSALS saman við hækkun þá, sem orðið hefur á olíu á þessu tímabili, og lagði fram hér á hv. Alþingi ítarlega útreikninga um hvað, Íslendingar hefðu tapað miklu á þessum rafmagnssamningi, miðaði þá við hækkun á olíuverði í heiminum. Auðvitað er algerlega út í hött að bera þetta saman. Því bar hann ekki saman aðra orkugjafa? Hvað hafa t. d. kol hækkað í heiminum á þessu tímabili eða rafmagnsverð almennt? Það er alveg ljóst og það vita allir sem vilja vita, rafmagnsverð hefur engan veginn fylgt olíuverði á almennum rafmagnsmarkaði.

Mönnum verður líka tíðrætt um samanburð á orkuverði til almennings, þ. e. því orkuverði sem almenningsveiturnar selja sína orku á. Það er líka mjög óeðlilegt að bera slíkt saman. Álverksmiðjan skuldbindur sig á samningstímabilinu til að kaupa ákveðið magn alltaf, allan sólarhringinn, og greiðir fyrir það hvort sem það rafmagn er notað eða ekki. Álverið kaupir beint. Rafmagnið fer ekki í gegnum dreifikerfi almenningsveitna, en við vitum að langstærsti hlutinn af rafmagnsverði hér á landi er ekki heildsöluverðið, heldur verðið vegna dreifingarinnar, því að dreifingin hér er mjög kostnaðarsöm. Þá vitum við einnig að sérstakur skattur er lagður á rafmagn til almennings, bæði söluskattur og verðjöfnunargjald, sem nemur nú meira en 1/3 af rafmagnsverðinu, og auðvitað eru þeir skattar of háir og þekkjast raunar hvergi í nágrannalöndum okkar svo háir skattar á rafmagnsverð eins og hér gilda. Á það auðvitað sinn þátt í því að iðnaður hér á landi er ekki eins samkeppnisfær og iðnaður annarra landa.

Það er líka fróðlegt i þessu sambandi að huga að því, hvernig samninga aðrir gerðu á þeim sama tíma sem álsamningarnir voru gerðir. Vafalaust eru þeir samningar mjög mismunandi. Ég vil sérstaklega nefna dæmi frá Kanada, en nýlega hafa farið fram þar opinberlega umræður um eldri rafmagnssamninga sem gerðir voru í Kanada um svipað leyti og jafnvel seinna en við gerðum okkar samninga við álverið. 1969 t. d. samdi fyrirtækið Hydro Quebec um kaup á allri orku frá raforkuveri sem heitir Churchill Falls og er í Labrador. Sá samningur var til 40 ára og endurnýjunarmöguleikar á þeim samningi til 25 ára í viðbót. Það var fast verð, rétt undir 3 mills á kwst., en lækkar í rúmlega 2.5 mills eftir 25 ár. Í þeim samningi eru engin endurskoðunarákvæði. Þetta finnst mönnum lágt þar í landi og þar fer fram nú mikil umræða um forsendur þær sem ríktu þegar þessi samningur var gerður. Er fróðlegt fyrir okkur að kynna okkur það. Í þeim umræðum hafa menn rifjað upp hið lága verð á hráolíu sem enginn sá fyrir að mundi hækka. Í þessum umræðum hefur það einnig verið rifjað upp, að samið var um fast verð til langs tíma til að forðast samkeppni frá öðrum og að því er menn töldu þá miklu ódýrari orkuöflunarmöguleikum sem yfir vofðu. Þá var kjarnorkan mjög á dagskrá og í þessum umræðum í Kanada hafa menn rifjað upp, að 1967 slitnaði upp úr samningaviðræðum milli Hydro Quebec og orkufyrirtækis í Vermont sem vildi fá 4.3 mills fyrir kwst., en þá höfðu fyrirtækin Westinghouse og General Electric lýst yfir að rafmagnsverð úr kjarnorkuverum mundi verða um 4 mills. Þannig hugsuðu menn raunverulega í þá daga og í þeirra spor verðum við að setja okkur nú.

Niðurstaða mín um orkuverðið til ÍSALS er því sú, að þetta hafi verið hagstæðir samningar á þeim tíma sem þeir voru gerðir, miðað við þær forsendur, sem við höfðum við að styðjast á þeim tíma, og ekki síst þegar haft er í huga að það var forsenda Búrfellsvirkjunar, þessarar fyrstu raunverulegu stórvirkjunar á Íslandi, að þessi samningur var gerður. Það er ljóst að við ættum ekki þá virkjun núna ef þessi samningur hefði ekki verið gerður og rafmagnsverð til almennings væri mun hærra ef við hefðum farið aðra leið í virkjunarmálum, t. d. smávirkjunarleiðina sem Alþb. barðist mjög fyrir á sínum tíma.

En fleiri atriði koma hér og til þegar rætt er um gildi stóriðju á Íslandi. Við skulum aðeins átta okkur á þeim skatttekjum sem við höfum haft af stóriðjunni. Álverið greiðir sérstakt framleiðslugjald. Til að glögg og skiljanleg mynd fáist af því, hvað þetta framleiðslugjald hefur verið, er nauðsynlegt að reikna það til núvirðis, en samtals á verðlagi hvers árs 1969–1979 er þetta um 2.2 mill jarðar kr. eða 12.5 millj. dollara. Ef við færum það til núvirðis er þetta tæplega 11 milljarðar gkr., sem þýðir að á hvern íbúa landsins höfum við fengið á þessum árum um 50 650 kr., og geri önnur fyrirtæki betur í skattgreiðslum til hins opinbera.

Byggðasjóður hefur notið góðs af þessum tekjum. Ákveðið hlutfall af tekjum af álverinu hefur runnið til Byggðasjóðs og þar með til uppbyggingar atvinnufyrirtækja úti um hinar dreifðu byggðir, og Hafnarfjörður, það sveitarfélag, sem þessi verksmiðja er í, hefur notið mjög mikils góðs af þessu. Það hefur reynst mikil lyftistöng fyrir Hafnarfjörð, fært bæjarfélaginu miklar tekjur. Straumsvíkurhöfn er t. d. byggð af álfélaginu gegn því að álfélagið hafi afnotarétt af henni í 25 ár án þess að þurfa að greiða vörugjald, en höfnin fær hins vegar tekjur af skipagjöldum, sem eru allmiklar, og eftir 25 ár fær hún fullar vörugjaldstekjur einnig.

Það má einnig nefna í þessu sambandi, að íslensk skipafélög njóta mjög góðs af þessum rekstri. Þau flytja varning frá álverinu, frá kísilgúrverksmiðjunni og frá Járnblendifélaginu. Enginn vafi er á að það hefur orðið til þess að efla og renna styrkari stoðum undir rekstur skipafélaga okkar.

Í framsögu fyrir báðum þessum tillögum, sem hér hafa verið sameinaðar, var gerð grein fyrir ýmsum öðrum þáttum, sem ég skal ekki fara nánar út í hér, og þar sýnt fram á að þær miklu hrakspár, sem fluttar voru þegar verið var að samþykkja m. a. hér á hv. Alþingi þennan rekstur, hafi verið algerlega út í hött: spár um pólitísk áhrif álversins og eigenda þess, spár um láglaunasvæði, spár um mengun, félagsleg áhrif og þar fram eftir götunum. Allt hefur þetta reynst rangt og augljóst að skrattinn var málaður á vegginn af ásettu ráði.

Ég ætla ekki að fara nákvæmlega út í það, en ég vil þó aðeins gera örfá atriði að umtalsefni áður en ég lýk máli mínu í þessu sambandi, t. d. mengunina sem hæstv. iðnrh. gerði nokkuð að umtalsefni fyrr í vetur og reyndi að gera mikið úr.

Auðvitað er sjálfsagt að gera strangar kröfur og hafa allan vara á. Hæstv. ráðh. minnti á að 7 millj. kg, eins og hann orðaði það sjálfur, af flúor hefðu farið út í andrúmsloftið, hvorki meira né minna. Venjulega mundi maður tala um 7 þús. tonn í þessu sambandi, en sennilega hefur hæstv. ráðh. talið að 7 millj, kg væri áhrifaríkari tala þegar verið er að draga upp mynd af þessum ósköpum. Þó ber að hafa í huga að þetta var á 10 árum. En það er fróðlegt í þessu sambandi að bera t. d. saman það flúormagn sem kemur upp í Heklugosum. Það hafa ýmsir íslenskir fræðimenn gert. Í Heklugosinu, sem hófst 1. maí 1970, er talið að um 60 þús. tonn af flúor hafi komið upp með gosinu, þar af um 30 þús. tonn af vatnsleysanlegum flúor í öskunni, en hitt þá í gaskenndu formi. 17. ágúst s. l. hófst Heklugos og því lauk á fimmta degi eða 21. ágúst. Heildarflúormagn í því gosi er talið hafa verið 15 þús. til 20 þús. tonn, þar af í öskunni 8–9 þús. tonn. Bæði þessi gos voru þó lítil.

Ég nefni þetta ekki til að draga úr nauðsyn þess að hinar ströngustu kröfur séu gerðar um hreinsibúnað, heldur til þess að menn geti áttað sig á að það er óþarfi að mála skrattann sérstaklega á vegginn í þessum efnum. Við þurfum að gera strangar kröfur til hreinsibúnaðar og það hefur verið gert. Það er talið að hreinsitækin í álverinu muni hreinsa að því marki að álverið muni á 200 árum gefa frá sér svipað flúormagn og 5 daga gosið 1980. Slíkar tölur er því fróðlegt að hafa til samanburðar þó að þær segi auðvitað ekki allan sannleikann í slíkum efnum.

Í upphafi var því spáð að álverksmiðjan yrði láglaunaverksmiðja og í kringum hana mundi myndast láglaunasvæði. Hver er reynslan af því? Tímaritið Frjáls verslun birti í des. s. l. skrá um 100 stærstu fyrirtæki landsins. Þessari skrá fylgdu ýmsar upplýsingar um fyrirtækin, þ. á m. um meðalárslaun starfsmanna. Þetta var mjög fróðleg skrá. Stærð fyrirtækja var þar metin eftir heildarveltu og Íslenska álfélagið var nr. 6 í röðinni. Meðalfjöldi starfsmanna þar var 701, en fyrirtæki þar á undan, og nú get ég jafnframt um meðalárslaun starfsmanna, er Samband ísl. samvinnufélaga, sem varð nr. 1, en meðalárslaun starfsmanna þar voru 4.9 millj, kr. Nr. 2 var Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna með 4.8 millj. kr., þriðja var Flugleiðir hf. með 5.7 millj. kr., nr. 4 Landsbanki Íslands með 4.6 millj. kr., Olíufélagið hf. fimmta með 5.1 millj. kr. og sjötta stærsta fyrirtækið á Íslandi var Íslenska álfélagið með meðallaunin 6.7 millj. kr. Þessi meðallaun eru með því hæsta sem þekkist í fyrirtækjum hér á landi. Það eru örfá fyrirtæki hærri, en það eru aðallega fyrirtæki sem tengjast útgerð og fiskvinnslu sem reyndust vera með hærri meðallaun. Rétt er að geta þess, að járnblendiverksmiðjan var þó með enn hærri meðallaun en álverksmiðjan eða um 8.2 millj. kr. og meðalfjöldi starfsmanna þar var um 97, þannig að þessi tvö stóriðjufyrirtæki hér á Íslandi skera sig alveg úr að því er laun snertir.

Herra forseti. Ég hef talið nauðsynlegt í sambandi við þessa till. að gera ítarlega grein fyrir reynslu okkar Íslendinga af stóriðju, ekki síst vegna þess að það eru æðimargir hér á landi sem hafa það stöðugt fyrir iðju að afflytja staðreyndir í þessu máli og reyna að gera slíka starfsemi tortryggilega hér á landi. Auðvitað er álverið fyrirferðarmest í þeirri umræðu vegna þess að það fyrirtæki er stærst og við höfum lengsta reynslu af því. Við höfum ekki eins mikla reynslu af rekstri járnblendiverksmiðjunnar. Sú reynsla er þó góð í stórum dráttum. Auðvitað hefur sú verksmiðja þurft að ganga í gegnum vissa eldskírn, byrjunarörðugleika, eins og gengur, en samt spáir reksturinn góðu.

þáltill., sem hér er til meðferðar, fjallar um mikilvæg mál og held ég að stóriðjumálin séu með mikilvægustu málum þessa þings. Við horfum með undrun og vaxandi áhyggjum á aðgerðaleysi hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Við höfum rætt hér nú þegar við 1. umr. í hv. Nd. frv. um raforkuver. Þær umr. benda til þess, að sú stóriðjustefna, sem mörkuð var hér á sínum tíma, verði lögð til hliðar. Það gengur seint og erfiðlega að taka ákvarðanir um nýjar virkjanir og við verðum vitni að því, að þrátt fyrir ýmsar hugleiðingar, þykkar skýrslur og fögur orð er ekkert farið að gera í því t. d. að afla markaða fyrir orku okkar. M. ö. o.: engin ákveðin stefna er mótuð í stóriðjumálum. Við stjórnarandstöðuþm. höfum ekki orðið varir við að neinar viðræður eigi sér stað við nokkurn erlendan aðila um samvinnu, hvorki á sviði eignarréttar, markaðshlutdeildar né nokkurra annarra þátta þar sem samvinna við erlenda aðila kemur til greina. Reynslan sýnir að slíkir samningar geta tekið langan tíma, eru oft flóknir og erfiðir og taka oft ekki styttri tíma en undirbúningur og bygging virkjana. Það kenndi reynslan okkur bæði að því er snertir álverksmiðjuna og einnig að því er snertir járnblendiverksmiðjuna.

Auðvitað ættu hugmyndir eða ákveðin stefna í stóriðjumálum að liggja fyrir um leið og tekin er ákvörðun um stórvirkjanir hér á landi. Okkur er að vísu tjáð að á vegum hæstv. iðnrh. sé starfandi einhver pukursnefnd sem ríkisstj. hafi sett upp, en frá þeirri nefnd fáum við stjórnarandstöðuþm. ekkert að heyra. Þessi miklu hagsmunamál þjóðarinnar eru þannig að það er brýn nauðsyn að um þau takist sem víðtækust samvinna hér á hv. Alþingi. Þannig var staðið að því hér á árum áður þegar verið var að undirbúa síðasta átakið sem við gerðum í stóriðjumálum hér á Íslandi, og þannig á að vinna að þessum málum nú.

Viðbrögð hæstv. ríkisstj. og hv. þm. stjórnarliðsins við þessari till., sem hér er flutt af þm. Sjálfstfl. öðrum en ráðh. og af þm. Alþfl., er prófsteinn á vilja hæstv. ríkisstj. og hv. þm. stjórnarinnar til samvinnu við stjórnarandstöðuna um þetta mikilvæga mál. Verði till. þessi felld eða henni vísað til ríkisstj. er það auðvitað það sama og að drepa till. og þá liggur það ljóst fyrir að hæstv. ríkisstj. vill enga samvinnu hafa við stjórnarandstöðuna um þetta mikla hagsmunamál þjóðarinnar. Ef hæstv. ríkisstj. og hv. stjórnarþm. treysta sér ekki til að gefa jafnskýlausar og ákveðnar yfirlýsingar um stóriðjustefnu og þessi till. ber með sér mun það verða lýðum ljóst að stefna Alþb. verður áfram látin ráða ferðinni í þessu máli — stefna aðgerðaleysis og andstöðu við stóriðjuframkvæmdir.