15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4429 í B-deild Alþingistíðinda. (4468)

280. mál, stóriðjumál

Frsm. minni hl. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar þessi till. kom til umr. hér fyrir nokkrum dögum lofaði ég því að ég skyldi ekki verða til þess að gangur hennar hér í gegnum þingið tefðist. Ég mun standa við það og ég lofa að flytja miklu styttri ræðu en hv. frsm. meiri hl. sem var að ljúka hér mjög ítarlegri ræðu um einn þátt þessa máls.

Við í minni hl. skiluðum nál. á þskj. 780 og það hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Nefndin varð ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. telur að þar sem ríkisstj. hefur skipað sérstaka orkustefnunefnd, sem vinnur að því verkefni sem till. fjallar um, sé ekki tímabært að kjósa aðra nefnd til sama verks og leggur því til að till. verði vísað til ríkisstj.

Að þessu nál. standa Guðmundur G. Þórarinsson, Guðrún Helgadóttir og ég.

Orkustefnunefnd vinnur ötullega að því verkefni að kanna nýtingarkosti raforku og raunar fleiri starfshópar og nefndir á vegum iðnrn., eins og glögglega hefur komið fram í orkumálaumræðum undanfarinna daga. Það eru mörg járn í eldi þar og við sjáum ekki ástæðu til á þessu stigi að kjósa enn eina nefndina, þ. e. þá sem lagt er til að kjósa í þessari tillögu.

Hvað varðar nýtingu orku til stóriðju ber náttúrlega að hafa það í huga, að þótt mikilsvert sé að nýta orkuna verður að hafa í huga að stóriðjan greiði fyrir rafmagnið það sem kostar að framleiða það á hverjum tíma og helst svolítið meira til þess að hagnaður verði af þessum viðskiptum. Og það verður endilega að búa svo um hnúta að aldrei verði aðrir notendur í landinu fyrir því að þurfa að greiða niður rafmagn, þá raforku sem til stóriðjunnar fer, þannig að orkusölusamningar til stóriðjufyrirtækja verði baggi á landsmönnum í gegnum raforkuverð.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson, frsm. meiri hl., eyddi mjög löngum tíma í ræðu sinni til að verja álsamninginn og þau viðskipti sem við höfum átt við Alusuisse á undanförnum áratug. Þessi ræða mundi hafa sómt sér vel í tímariti þeirra álversmanna, sem mig minnir að heiti ÍSAL-tíðindi, og kannske einhverjir póstar eða hugmyndir úr henni komnar þaðan. Mér fannst sumt nefnilega hraustlega mælt í þessari ræðu og enn þá hraustlegar en hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson mælir venjulega, því að hann er að mínum dómi mjög hógvær maður og sanngjarn í málflutningi sínum dagfarslega. Þetta fyrirtæki hefur tvímælalaust orðið til þess að raforkunotendur á Íslandi hafa undanfarið orðið að greiða hærra verð fyrir raforku en ella, ef álverið væri ekki til. Að sjálfsögðu hefði verið virkjað við Búrfell með einhverri annarri áfangaskiptingu en var. Það er ekki eftirsóknarvert hlutverk að reyna að verja þann orkusölusamning.

Auðvitað verða menn að hafa það í huga að stóriðja er engin allsherjarlausn í atvinnumálum Íslendinga. Hún getur orðið þáttur í þeim, en hún er engin allsherjarlausn, þó ekki væri nema fyrir það að margfalt dýrara er, kannske allt að því hundraðfalt dýrara, að stofnsetja vinnustað fyrir hvern einstakling í þessum iðnaði en t. d. í smáum iðnaði. Við hefðum ekki með nokkru móti fjárhagslegt bolmagn til að búa til þessa 6000 vinnustaði, þessi 6000 atvinnutækifæri sem menn eru að tala um að okkur vanti til aldamóta, ef þau ættu öll að koma í svona iðnaði. Ég er ekki að taka ábyrgð á því, að rétt sé að við þurfum að standa skil á 6000 atvinnutækifærum. Menn hafa verið að leika sér að tölum áður og haft þær meira og minna rangar, og ég á ekki von á að við þurfum að standa frammi fyrir þessu. En það er augljóst að í heimi, þar sem ýmsar orkulindir eru að ganga til þurrðar, er réttmætt að nýta vatnsorku eftir því sem eðlilegt er, og án efa hækkar vatnsorkan í verði á næstu árum og áratugum og því getur verið óhagkvæmt að binda sig í löngum samningum. Ég geri ráð fyrir að svo verði komið kannske á næsta áratug eða um næstu aldamót, að það verði orðið hagkvæmt fjárhagslega að framleiða eldsneyti á hreyfla með rafmagni.

Hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson vildi kenna núv. formanni Framsfl., heyrðist mér, um að þessi samningur var gerður við álverið. (SvH: Því ekki að þakka honum?) Mér finnst að það væri ekki þakkarvert. En ég man nú ekki betur en núv. formaður Framsfl. legðist gegn þessum samningi á lokastigi og skrifaði harða gagnrýni á hann í blöðin. Hann átti ekki sæti á Alþingi þá, en é man gjörla að Framsfl. tók afstöðu gegn samningnum. Ég var á miðstjórnarfundi þar sem þetta mál var rætt og hann tók afstöðu gegn þessum samningi. Við atkvgr. hér á Alþingi held ég að allir þm. Framsfl. nema tveir hafi fylgt miðstjórnarsamþykkt Framsfl. og greitt atkv. gegn samningnum. Þessi samningur samrýmist raunar alls ekki stefnu Framsfl. vegna þess að hún er ekki þannig mörkuð. Ég vildi — með leyfi forseta — fá að lesa litla klausu úr tíðindum frá 17. flokksþingi Framsfl., því síðasta, frá 1978. Þar segir svo í kaflanum um atvinnumál:

„Þingið leggur mikla áherslu á að auka skilning þjóðarinnar á nauðsyn iðnvæðingar til tryggingar varanlegri hagsæld og þjóðarvelferð. Ber að stórauka verkþekkingu og hagnýta betur hugkvæmni manna við framleiðslu sérhæfðs varnings til sölu á alþjóðamarkaði, enda verði iðnvæðingin miðuð við útflutning jafnt sem heimamarkað.

Þingið lýsir sig andvígt þeirri stefnu að hleypa erlendum auðhringum inn í atvinnulíf Íslendinga. Samstarf við erlenda aðila um orkufrekan iðnað komi aðeins til greina í einstökum tilfellum, enda sé þess ætíð gætt að meiri hluti eignaraðildar sé í höndum Íslendinga. Starfsemi slíkra félaga skal háð íslenskum lögum og dómsvaldi, enda njóti þau ekki betri lögkjara en sambærileg íslensk fyrirtæki.

Þingið varar við rekstri þeirrar stóriðju sem kann að vera hættuleg heilsu og umhverfi manna og valda óeðlilegri félagslegri og líffræðilegri röskun. Telur þingið að mengunarvaldandi stóriðja samrýmist ekki íslenskum aðstæðum og sé andstæð óskum fólksins í landinu.

Leggja ber áherslu á að leitað verði eftir hentugum iðnaði fyrir landbúnaðarbyggðir og önnur fámenn byggðarlög í því skyni m. a. að koma í veg fyrir byggðaröskun.“

Lýk ég hér lestri úr flokksþingsályktun Framsfl.

Ég vísa til þess, sem hv. 12. þm. Reykv. sagði í fyrrakvöld í ágætri ræðu um iðnaðarmál og iðnaðaruppbyggingu á Íslandi, þar sem hann talaði um hin raunhæfu yfirráð, þ. e. að hafa hönd í bagga með sölu afurða og þeim viðskiptum sem sköpuðust í kringum svona framleiðslu. En álverssamningurinn passar ekki inn í „prógram“ Framsfl. og samrýmist ekki stefnu hans.

Ég er raunar alveg hissa á að hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson skyldi haga orðum sínum á þann veg sem hann gerði, a. m. k. stundum, í ræðu sinni. T. d. hefði hann alveg getað komist hjá því að fara að mæla bót þeirri mengun sem af álverinu hefði stafað. Hann gat komist hjá því a. m. k. þangað til einhver hefði nefnt hana. Hann ræddi um launakjör í álverinu. Það er alveg satt hjá hv. þm., að allar hrakspár, sem framsóknarmenn höfðu uppi og þeir sem lögðust gegn álverssamningnum á sínum tíma, hafa sem betur fer ekki ræst, en það hefur nóg af þeim ræst fyrir því. Hann ræddi um launakjör starfsmanna í þessu fyrirtæki. Það er alveg satt hjá honum að þarna eru greidd há laun, en þarna er um óholla og hættulega vinnu að ræða. A. m. k. langar mig ekki til að vinna verkamannavinnu á þessum vinnustað. Fyrir óþrifalega og hættulega vinnu verður auðvitað að borga talsvert hátt kaup til að halda góðum mannskap. Þetta hefur orðið m. a. til þess að sprengja upp laun í ríkisverksmiðjunum því að ríkisverksmiðjuverkamenn hafa viljað hafa sama kaup og menn hafa átt kost á í álverinu. Þess vegna er m. a. áburðurinn dýrari en ella hefði getað orðið og þarna er fundinn einn þátturinn í bullandi taprekstri Sementsverksmiðjunnar.

Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira í bili og ítreka það sem ég sagði í upphafi, að minni hl. n. leggur til að þessu máli verði vísað til ríkisstj.