15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4438 í B-deild Alþingistíðinda. (4486)

108. mál, samkeppnisstaða íslendinga

Frsm. (Garðar Sigurðsson):

Herra forseti. Ég bið hæstv. forseta að afsaka að ég þurfti að eyða nokkrum tíma í að semja nýja ræðu vegna þess að menn óskuðu eftir upplýsingum í þessum efnum.

Mér er bæði ljúft og skylt að veita hverjar upplýsingar sem er varðandi þessi efni þó að ég hefði haldið að hv. þm. Albert Guðmundsson væri betur að sér í milliríkjaverslun en ég. Það er því miður staðreynd, sem hv. þm. Albert Guðmundsson, hv. 3. þm. Reykv., nefndi hér, að Íslendingum hefur orðið það á að selja Norðmönnum lítt verkaðan saltfisk, blautan saltfisk, svo að þeir gætu staðið við sína samninga. (Gripið fram í.) Já, eitthvað í skreið. Það er ekki eins alvarlegt og mikið og ekki eins langvarandi og hitt.

Þetta er auðvitað afleitt. Ég veit ekki hvernig stóð á þessu þegar það var gert. Það er alllangt liðið frá því að ég heyrði um þetta, og ég hef að vísu ekki neinar staðfestar sannanir fyrir því, en ég trúi því varla að þær upplýsingar, sem ég hef, séu ekki réttar. Ég vil þó leyfa mér að hafa fyrirvara á því ef það reynist ekki rétt. En þetta er eitt af því sem er talað um að sé opinbert leyndarmál. Ég held að það sé samt tilfellið að þetta hefur átt sér stað.

Líklega hefði fáum dottið það í hug fram undir þetta að ég ætti eftir að koma upp í þennan ræðustól til að verja Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna eða Samband ísl. fiskframleiðenda og Samband Seafood, herra forseti, ekki ætlaði ég að gleyma þeim. En það er nú svo, að þótt ýmislegt megi og hafi lengi mátt að þessum aðilum finna og það sé að ýmsu leyti óheppilegt, að svo mikill útflutningur sé á svo fárra aðila höndum, og þrátt fyrir augsýnilega annmarka á því, að einstaklingar hafa getað farið í útflutningssamkeppni við þessa aðila, tel ég samt sem áður að kostirnir á sameinuðum framleiðendum sem söluaðila séu miklu meiri þegar allt er skoðað. Við vitum að það hefur verið viss tregða þessara aðila að vera með nægilega breytilega vöru í vinnslu og sölu, og þeir hafa, þessir stóru og sterku aðilar, kannske staðið í vegi fyrir því, að það hefði sprottið hér upp mjög fjölskrúðugur hópur til að selja okkar afurðir. Þó höfum við reynslu af einstaka aðila sem hefur prófað þetta, og því miður er óhætt að segja að það einstaklingsframtak hefur stundum brugðist hrapallega og farið afar illa. Ég vil ekki vera að nefna nein nöfn hérna, en Vestmanneyingar, grásleppukarlar og ýmsir aðrir, fóru afar illa í viðskiptum við einn aðila. Þetta er nafn sem ég man ekki í augnablikinu. (Gripið fram í.) En við eigum sannarlega í vandræðum með okkur sjálf hér heima, hv. þm. Albert Guðmundsson, það er rétt, og ekki ætlaði ég að eyða löngum ræðutíma í að tala um það, enda er það ekki á dagskrá, en fyrst tilefni er gefið til þess má gjarnan spyrja ósköp einfaldlega, vegna þess að hér opnar varla nokkur maður svo munninn að það streymi ekki upp úr honum einhver rulla um orkumál eða iðnaðarmál og hver sá vandi sé sem steðjar mest að íslenskum iðnaði, og nú kemur spurningin. (Gripið fram í.) Hann er auðvitað margbreytilegur og of langt mál að fara að rekja það í smáatriðum. Menn hafa hlustað á það langar ræður hér í vetur um þau efni að ekki ætti svo sem að þurfa að bæta við þá súpu alla saman. — En ætli mesti vandinn, sem steðjar að okkur í íslenskum framleiðsluiðnaði, sé ekki sá, að nokkrir einstaklingar í landinu, svokallaðir innflytjendur, taka sig fram um að flytja hér inn ógrynni af alls kyns vörum frá útlöndum í samkeppni við íslenskan iðnað sem býr við svo vonda stöðu og slæma aðstöðu sem öllum er kunnugt, bæði varðandi verðbólguna, vextina og svo fjölmargt annað, að þeir þola ekki þessa samkeppni. Ef við hefðum haft úrræði til að geta eitthvað staðið þar á bremsunum, eins og tíska er að orða það núna, og komið í veg fyrir að allur þessi erlendi iðnaðarvarningur flæddi hér inn hömlulaust, oft niðurgreiddur, þá stæði íslenskur iðnaður betur. Það er gróðahyggja þessara örfáu Íslendinga sem hefur gert mörg hundruð íslenska iðnaðarmenn atvinnulausa á undanförnum árum. Það er hörmuleg staðreynd. Viðskiptafrelsi kostar peninga líka.

Herra forseti. Ég ætla ekki að halda hér langa ræðu og allra síst að segja meira í þessa átt. Það gæti dregið upp í ræðustólinn allt of marga og allt of langorða menn. Ég er vanur því að vera stuttorður og vil halda þeim hætti nú.