15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4441 í B-deild Alþingistíðinda. (4493)

167. mál, iðnaður á Vestfjörðum

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Það er bæði rétt og rangt að tileinka mér framsögu í þessu máli. Ég reyni aðeins af veikum mætti að koma í staðinn fyrir hv. formann n., Eggert Haukdal, sem hefur ekki átt þess kost að vera á þessum fundi í kvöld sökum anna, og þess vegna mun sú ræða, sem ég mun flytja af þessu tilefni, verða miklu styttri og sjálfsagt ekki nálægt því eins greinargóð og ræða formannsins hefði orðið.

Þessi till. til þál. er ein af tillögum sem fluttar eru af mönnum úr kjördæmunum og fjalla um að fela hæstv. ríkisstj. að beita sér fyrir því, að áætlanir séu gerðar um að efla þetta eða hitt, í þessu tilfelli á að efla iðnað og þjónustu á Vestfjörðum. Önnur næstum því sams konar till., sem hv. atvmn. fjallaði um og samþykkti, var um það sama varðandi Vesturland. Ég vil alls ekki gera lítið úr því, að þörf sé á að athuga þetta. Um Vestfirði gildir það í þessum efnum, að þar er atvinnuskipting nokkuð sérstæð hvað þetta varðar vegna þess að hlutdeild Vestfirðinga í iðnaði miðað við mannafla var aðeins um rúm 2%, ef fiskiðnaður er ekki talinn með, þannig að þarna er um að ræða afar fátt fólk sem vinnur iðnaðarstörf. Um verslun má segja svipað eða næstum því sama. Mannafli í þeirri grein er ákaflega lítill, innan við 3% og það getur hver maður séð hversu mikið vantar, þegar svo fátt fólk vinnur við þessa atvinnuvegi, og hversu mikil verslunin er þá út fyrir kjördæmið eða út fyrir landsfjórðunginn.

Það væri auðvitað afar æskilegt ef menn gætu gert sér grein fyrir því, um hvers konar iðnað gæti verið að ræða úti í hinum dreifðu byggðum, þá ekki síður á Vestfjörðum en annars staðar. Sannleikurinn er sá, að ef við hefðum gripið til þess að reyna að finna einhver sæmileg úrræði í þessum efnum t. d. eins og 20 árum fyrr, þó ekki væri nema eins og áratug fyrr, gæti staðan verið allt önnur.

Við vitum að fólk á Vestfjörðum framleiðir gífurlega mikil verðmæti með því að sækja afla í sjó og vinna úr honum í landi, meiri verðmæti en þekkist um svo fátt fólk annars staðar á landinu. Vestfirðingar hafa gífurlega mikinn hluta af framleiðslu landsmanna á sinni könnu. Það er einmitt í tengslum við útgerð og fiskvinnslu sem möguleikar hefðu getað verið á iðnaðarframleiðslu án þess að unnið sé úr fiskafla. Það hafa komið upp iðngreinar í tengslum við sjávarútveg og fiskvinnslu annars staðar á landinu, en það hefði að mínum dómi alveg eins getað orðið á Vestfjörðum ef nógu snemma hefði verið gripið til þess. Ég efast ekki um ef lögð er alúð við þessi viðfangsefni á Vestfjörðum megi finna þar möguleika til að koma upp iðnaði sem gæti skapað veruleg verðmæti og atvinnu.

Herra forseti. Atvmn. Sþ. varð sammála við afgreiðslu þessa máls um að leggja til við ríkisstj. að hún beitti sér fyrir að áætlun yrði gerð um eflingu iðnaðar og þjónustu á Vestfjörðum. Ég vil segja fyrir mitt leyti, að ég vonast til þess, að slík áætlun verði ekki pappírsgagnið eitt, heldur verði reynt að grípa þarna til eins raunhæfra lausna og kostur er.