16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Friðrik Sophusson:

Herra forseti. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið látin falla um það, að ástæða sé til að harma þá synjun sem kom fram í að vísu óskýrum ummælum forseta í upphafi þessa fundar. Ég hélt satt að segja að dagskrá fundarins í dag væri ekki með þeim hætti, að það væri annað og merkara mál um að fjalla en þetta mál, sem stór hópur manna bíður eftir að heyrist eitthvað um frá ríkisstj. með skýrari hætti en hingað til hefur verið. Þess vegna þykir mér leitt að ekki var hægt að efna til þessara umr. og fá úr því skorið í eitt skipti fyrir öll, hver sé stefna ríkisstj. sameinaðrar í þessum málum.

Það hefur komið fram mjög nýlega, og það var tilefni þess að farið var fram á að þetta mál væri tekið hér til umr. utan dagskrár, að forráðamenn Flugleiða telja að ríkisstj. hafi ekki svarað ákveðnum spurningum sem nauðsynlegt er að svara til þess að ákvörðun stjórnar Flugleiða geti legið fyrir um það að haldið skuti áfram Atlantshafsfluginu. Þetta kemur skýrt fram í blaðaviðtali við forstjóra Flugleiða, Örn Ó. Johnson, bæði í Morgunblaðinu í gær og eins í fimm dálka frétt á forsíðu Tímans, sem er málgagn hæstv. samgrh.

Þess má geta, að einmitt í viðkomandi blaði, málgagni hæstv. samgrh., segir blaðamaðurinn í lok þessa viðtals frá eigin brjósti um þetta mál, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og ráða má af orðum stjórnarformanns Flugleiða hér að framan er sá möguleiki enn ekki úr sögunni, að Flugleiðir taki þann kost að hætta við Norður Atlantshafsflugið þann 1. nóv. n.k. eins og áður hafði verið ákveðið, en gremja mun ríkjandi hjá þeim stjórnarmönnum vegna þess, hve óvissan er nú löng orðin.“

Þetta er tilvitnun eftir fréttamanni dagblaðsins Tímans sem er eða hefur a.m.k. verið hingað til málgagn hæstv. samgrh.

Það þarf ekki að taka fram, það hefur verið gert hér, hve mikilvægt þetta mál er fyrir marga aðila. Þess vegna segi ég aftur, að ég skil ekki hvernig á því stendur, að þetta mál fæst ekki rætt hér og nú.

Þá má geta þess, sem einnig kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs G. Einarssonar, formanns þingflokks Sjálfstfl., að í blaðaviðtali á föstudaginn í síðustu viku við Morgunblaðið sagði hæstv. fjmrh. skýrt og skorinort, að frv. um aðstoð við Flugleiðir yrði lagt fram á Alþ. í þessari viku. Það bólar ekki enn á þessu frv., og þegar nú er komið að síðasta degi þessarar þingviku er ósköp eðlilegt að þingmenn, sem kjörnir eru til þess að ræða og fara með málefni þjóðarinnar, spyrji: Hvað dvelur þetta frv.? Hvað hefur breyst frá því á föstudaginn var? Hvernig stendur á því, að þetta frv. kemur ekki fram? Hvaða skýringar eru fyrir hendi, veit ég ekki, en hitt veit ég, að ýmsir álíta að í ríkisstj. séu árekstrar í þessu máli, sem enn sé verið að reyna að bræða saman þannig að hægt sé að gefa út skýrslu, sem ég fagna vissulega að kemur til þingsins á mánudaginn. Það upplýstist fyrst hér áðan, að hún kemur fram á mánudaginn og á að vera til umr. á þriðjudag, en það var ekki vitað þegar beiðni kom fram um að taka þetta mál til meðferðar hér í Sþ. utan dagskrár.

Beiðni Alþfl. er góð og gild og það er sjálfsagt að ræða málið þegar skýrsla hæstv. ráðh. kemur fram um þetta mál. Áreiðanlega er margt í þeirri skýrslu sem forvitnilegt verður að ræða, sérstaklega um afstöðu ýmissa þm. Alþb. til málsins og sérlegra eftirlitsmanna, sem skipaðir hafa verið, og sérstaklega eins þeirra, sem hefur verið á snærum hæstv. fjmrh. Ég er viss um að þegar sú skýrsla kemur fram gefst tækifæri til að ræða slík mál. En ekki var ætlunin hér utan dagskrár að taka þau sérstaklega til meðferðar, heldur aðeins brýnustu mál sem fólk bíður eftir að fá að vita um frá ríkisstj.

Ég taldi mér skylt, hv. þm. og herra forseti, að gera hér grein fyrir þessari beiðni, vegna þess að það er afar óvenjulegt að þm. sé synjað um að taka mál upp utan dagskrár. Hv. þm. Benedikt Gröndal, 4, þm. Reykv., minntist á það að málið væri til meðferðar í þinginu og þess vegna væri þinglegt að afgreiða þetta mál með þessum hætti. Ég er ekki viss um að allir séu sammála um þessa skýringu á þingsköpunum. Ég tel að varla sé hægt að segja að þetta mál sé á dagskrá þegar beðið er eftir skýrslu, sem enginn vissi í raun og veru hvenær yrði skilað og þegar henni yrði skilað væri ekki heldur ljóst hvenær hún yrði tekin til umr. Það gátu í sjálfu sér liðið mánuðir þar til skýrslan kæmi fram, ef ekki hefði viljað svo til að hæstv. samgrh. kom hér í pontu áðan og lofaði því, að skýrslan kæmi fram á mánudag, og hann ætlaðist til þess að hún yrði til umr. n.k. þriðjudag. En það er í stíl, að ráðh. í þessari hæstv. ríkisstj., sem hér stjórnar um hríð, taki af forsetum þingsins ómakið og segi til um það, hvað eigi að gerast í starfstíma Alþingis.

Mér er kunnugt um það, herra forseti, að í morgun var haldinn fundur þriggja ráðh., hæstv. fjmrh., hæstv. samgrh. og hæstv. dómsmrh., með forstjóra Flugleiða og þar hafi verið rætt um þessi mál. Það er lágmarkskrafa okkar sjálfstæðismanna, að einn þessara ráðh. komi hér í pontu og geri í skýru og stuttu máli grein fyrir því, hvað fram fór á þessum fundi. Það er kominn tími til þess, að þeir sem um þetta mál hafa fjallað, tali ekki út og suður. Það er kominn tími til þess, að hér á hinu háa Alþ. komi einn fram fyrir ríkisstj. í heild og segi hvað það þýðir sem kemur fram í bréfum hæstv. ráðh. Það er sorgarsaga fyrir allt það fólk, sem líður önn út af þessu máli, að einn ráðh. beri öðrum á brýn að hann sé að flækja málið með skrýtnum málatilbúnaði, eins og hæstv. samgrh. hefur gert við hæstv. fjmrh. Það er þess vegna fróm ósk mín að einn þeirra standi nú hér upp, tali fyrir munn þeirra allra og segi hvað hafi gerst á þessum fundi. Ef það fæst ekki fram, sem ég get vel ímyndað mér að þeir hiki við, ef þeir hafa ekki enn brætt sjónarmið sín saman, þá er a.m.k. kominn tími til þess, að hæstv. samgrh. geri Alþ. grein fyrir því, hvort hann sé sammála því bréfi sem hæstv. fjmrh. sendi Flugleiðum og dagsett er 10. okt. s.l. og er af mörgum talið algerlega óskiljanlegt bréf, enda virðist það fremur vera samið að Grettisgötu 3, heldur en í rn. hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að koma hér og ræða um fundarsköp, um þingsköp Alþingis, vegna þess hve sjaldgæft það er að alþingismönnum sé meinað að taka upp mál utan dagskrár, nema dagskrá sé með þeim hætti að á henni séu mjög brýn viðfangsefni. Ég harma þennan úrskurð og óska eftir því, að hæstv. forseti sjái til þess, þegar þessi rök hafa komið fram, að umræður verði leyfðar.