15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4445 í B-deild Alþingistíðinda. (4502)

272. mál, flugrekstur ríkisins

Frsm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um till. á þskj. 548 um flugrekstur ríkisins og orðið sammála um afgreiðslu hennar með brtt. sem flutt er á þskj. 801. Allshn. leitaði umsagnar frá Slysavarnafélagi Íslands, Landmælingum, Landgræðslu ríkisins, Landhelgisgæslu og Flugmálastjórn. Ýmsar aths. komu fram í þessum umsögnum og var m. a. lagst gegn því í umsögn frá Flugmálastjórn að flugrekstur ríkisins verði sameinaður undir yfirstjórn Landhelgisgæslunnar. Í bréfi, sem undirritað er af framkvæmdastjóra flugöryggisþjónustunnar, er lagt til að athugun fari fram á yfirtöku Flugmálastjórnar á flugrekstri Landhelgisgæslunnar.

Nefndarmenn allshn. voru sammála um að nauðsynlegt væri að kannaðar verði þær leiðir sem stuðlað gætu að aukinni hagræðingu og sparnaði í flugrekstri ríkisins, m. a: að því er varðar að ná fram hagkvæmari viðhaldsþjónustu og betri nýtingu þeirra véla er ríkið á. Nefndin telur þó að miðað við þær umsagnir, sem fram komu um málið í n., og þær athuganir, sem þegar hafa verið gerðar, sé ekki tímabært að slá því föstu, eins og fram kemur í þáltill., undir hverra yfirstjórn flugrekstur ríkisins á að vera: Telur n. að áður þurfi að liggja fyrir nákvæmari úttekt og könnun á því, með hvaða hætti best sé að ná fram hagkvæmni á í flugrekstri ríkisins. Allshn. flytur því brtt. á þskj. 801 og mælir með að tillgr. orðist svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta kanna hagkvæmni þess að sameina allan flugrekstur ríkisins.“ Nefndin mælir samhljóða með því, að þáltill. verði samþykkt með þessari brtt.