15.05.1981
Sameinað þing: 83. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4446 í B-deild Alþingistíðinda. (4506)

388. mál, utanríkismál 1981

Birgir Ísl. Gunnarsson:

Herra forseti. Skýrsla sú, sem hæstv. utanrrh. hefur lagt fram hér á hinu háa Alþingi, var tekin til umr. á mánudaginn var og ýmsir ræðumenn þökkuðu hæstv. forseta fyrir að tekinn skyldi heill þingdagur í þá umr. Vissulega er það þakkarvert. Hins vegar vil ég ekki láta hjá líða að finna að því, að skýrslan er of seint tekin á dagskrá til umr. Hæstv. utanrrh. lagði skýrslu sína fram um mánaðamótin mars-apríl, en umr. fara fram undir þinglok; þegar þingstörf eru með þeim hætti að ekki er hægt að halda uppi eðlilegu og reglubundnu þingstarfi, sbr. að þessi umr. fer nú hér fram, framhald hennar, þegar langt er liðið á kvöld, fáir þm. í salnum og hæstv. utanrrh. eini ráðh. sem hér er mættur.

Sannleikurinn er sá, að utanríkismál eru, eins og allir vita, einhver mikilvægasti málaflokkur hverrar þjóðar. Í þeim málaflokki er öðru fremur fólgin spurningin um fjöregg þjóðarinnar og umr. um utanríkismál eiga því að fá verðugan sess á þjóðþinginu. Ég minnist þess, að á síðasta þingi var umr. slitið í miðju kafi, án þess að allir gætu talað sem höfðu kvatt sér hljóðs, því að komið var að þingslitum. Ég er þeirrar skoðunar, að umr. um utanríkismál eigi ekki að fara fram á þessum mesta annatíma þingsins. Ég er ekki að ásaka einn eða neinn í þessu efni hvorki hæstv. utanrrh.hæstv. forseta Sþ. Ég held að allir, sem hlut eiga að máli, eigi að leggja sig fram um að bæta úr þessu í framtíðinni þannig að þessi málaflokkur geti fengið þann sess í umr. hér á þinginu sem þarf.

Grundvallardeilumálið í íslenskum utanríkismálum er og hefur verið um langa hríð afstaðan til Atlantshafsbandalagsins og varnarsamningurinn við Bandaríkin. IV. kafli í skýrslu hæstv. utanrrh., „Atlantshafsbandalagið og öryggismál Íslands“, fjallar um þetta efni og hæstv. ráðh. tekur mjög af skarið og tekur af allan vafa um stefnu sína í þessum efnum. Ég fagna þeirri ákveðnu stefnu, sem fram kemur í þessum kafla skýrslu hæstv. ráðh., og lýsi mig sammála henni.

Í umræðum um þessi aðaldeilumál eru ákveðnar grundvallarspurningar sem menn verða að svara. Hvaðan er t. d. líklegt að hugsanleg árás verði gerð á land okkar? Er okkur sama um hvaða öfl í heiminum verða ofan á í þeirri stöðugu baráttu sem fram fer? Er okkur t. d. sama um hvort hér verður komið á fót Sovétsósíalisma — þeim sama sósíalisma og t. d. Pólverjar eru nú að reyna að hrista af sér? Með hvaða þjóðum eigum við samstöðu í heiminum? Hvernig verður friður helst varðveittur? Getum við lagt eitthvað af mörkum í þeirri baráttu, sem fram fer, og þá hvernig? Allt eru þetta spurningar sem hver og einn verður að svara í sínum huga og ég mun að einhverju leyti koma inn á í því sem ég segi hér á eftir.

Það er fyrst rétt að hugleiða hvað býr að baki þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu og varnarsamstarfi vestrænna þjóða. Ekkert er eðlilegra manninum en að verja sig. Það er grundvallareðlishvöt nánast allra manna og reyndar dýra einnig og það er ekkert annað lögmál sem gildir um Íslendinga í þessum efnum. Við verðum því eins og allar aðrar þjóðir að sjá fyrir vörnum okkar á sem öruggastan hátt og á þann hátt sem við teljum best. Ég segi „vörnum“ og þá vaknar sú spurning: Getum við átt von á árás? Eigum við einhverja fjandmenn sem ástæða er til að óttast, eða eigum við bandamenn í viðsjárverðri veröld sem við öðrum fremur viljum starfa með og teljum okkur eiga sameiginlega hagsmuni með? Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ótvírætt. Við Íslendingar erum hluti af hinni vestrænu menningarheild þar sem lýðræði er sett í fyrirrúm, frelsi til orða og athafna og kristin trú, — allt er þetta hluti af lífshugsjón okkar sem við viljum vernda og halda í. Við skulum átta okkur á að Vestur-Evrópu og Norður-Ameríka eru lítill hluti af heiminum og það er ekkert sjálfsagt að okkar þjóðskipulag og lífshugsjón sé eilíf eða muni standast í þessari viðsjárverðu veröld. Þvert á móti á þetta þjóðfélagsform, sem við höfum valið okkur, í vök að verjast. Við verðum því sjálf að spyrja okkur: Viljum við leggja eitthvað af mörkum eða viljum við láta arka að auðnu um það, hvar við lendum, hvorum megin hryggjar við verðum?

Þátttaka okkar í varnarsamtökum vestrænna þjóða þjónar þeim tvíþætta tilgangi að stuðla að okkar eigin vörnum og leggja fram okkar skerf til sameiginlegra varna Vestur-Evrópu. Af hálfu Alþb. og annarra herstöðvaandstæðinga, sem eru reyndar orðnir fáir utan þess stjórnmálaflokks, hefur umræðan um varnarmál í vaxandi mæli snúist um ýmis herfræðileg atriði varðandi eðli stöðvarinnar sem hér er. Hæstv. félmrh., sem hér talaði sem aðaltalsmaður Alþb. á mánudaginn var, gerði þennan þátt nokkuð að umtalsefni í síðari hluta ræðu sinnar og reyndi þar, eins og aðrir talsmenn Alþb. í utanríkismálum, að telja mönnum trú um að hér væri fyrst og fremst um árásarstöð að ræða, jafnvel að hér væru geymd kjarnorkuvopn, eins og stundum er látið að liggja, eða alla vega að hér væru skilyrði til þess að þau væru geymd.

Við Íslendingar erum þess vanbúnir að ræða um herfræðileg efni, og það er alveg rétt, sem hæstv. utanrrh. sagði í sinni ræðu þegar hann lagði skýrslu sína fram, að Íslendingar hafa yfirleitt ekki mikinn áhuga á utanríkismálum. Okkur skortir vissulega sérþekkingu í herfræðilegum efnum. Því er vissulega fagnaðarefni að hér skuli hafa verið lögð fram á Alþingi þáltill. um sérstakan ráðunaut í öryggis- og varnarmálum sem hv. 10. þm. Reykv. er 1. flm. að. Við Íslendingar og þá ekki síst þm. verðum að reyna að mynda okkur skoðun á þessum efnum og þá ekki aðeins á herfræði Bandaríkjanna og annarra vestrænna þjóða, eins og talsmenn Alþb. hafa greinilega gert og eru viljugir að reyna að kenna okkur, heldur verðum við líka að átta okkur á herfræði Sovétríkjanna, en allt það varnarkerfi, sem hér hefur verið byggt upp, byggist á að geta varist hugsanlegri árás frá Sovétríkjunum.

Aðaltalsmaður Alþb. hér á mánudaginn var eyddi mjög löngum tíma ræðu sinnar í að lesa upp viðtal úr Þjóðviljanum við norskan hermálafræðing, Anders Hellebust að nafni, þar sem hann ræddi um herfræði og tilgang stöðvarinnar hér. Ég skal strax taka það fram, að Anders Hellebust, sem er vinstri sósíalisti, er ekki maður sem ég tel að við Íslendingar getum lært af eða tekið mark á í utanríkis- og varnarmálum þó að skoðanir hans falli greinilega vel saman við skoðanir Alþb. (ÓRG: Þm. tekur greinilega ekki mark á neinum nema þeim sem eru honum sammála.) Ég tek ekki mark á þessum útsendara sem hér kom og Þjóðviljinn gerði sérstaklega að sínum talsmanni. (ÓRG: Útsendara hvers?) Útsendara vinstri sósíalista í Noregi. Við hlýddum á langt viðtal við hann ekki alls fyrir löngu. (ÓRG: Veit þm. ekki að Anders Hellebust er félagi í norska jafnaðarmannaflokknum?) Norski jafnaðarmannaflokkurinn hefur inni að halda æðimikið af fólki sem jafnvel mundi teljast til vinstri í Alþb., svo að ekki sé meira sagt.

En mig langar í þessu sambandi, vegna þess að Alþb. hefur sérstaklega tekið norskan mann, sem er vissulega sérfræðingur í hermálum, til fyrirmyndar og gert hans málstað að sínum hér, að vitna í annan norskan mann sem hefur nýlega birt rit þar sem hann hefur gert úttekt á hernaðarstefnu Sovétríkjanna. Þessi maður heitir Gullow Gieseth og er forstöðumaður norska herforingjaskólans — þess sama skóla og Hellebust var kennari við. Gieseth hefur nýlega skrifað rit sem mér finnst fróðlegt fyrir okkur að reyna að kynna okkur, ekki síst vegna þess að það rit dregur upp nokkuð aðra mynd af því, hvað er að gerast hér á Norður-Atlantshafi, en Alþb. og talsmenn þess hafa viljað vera láta.

Í riti sínu byrjar hann reyndar á því að rekja nokkuð þá grundvallarhugmynd sem liggur að baki herfræði Sovétríkjanna. Hann rekur hvað stríð og vopnabúnaður sé mikilvægur þáttur í kenningum Marx og Lenins og leiðir til þess, að hernaðarstyrkur þykir eðlilegur og hefur mikilvægan sess í þjóðfélagi Sovétmanna og allri þjóðfélagsumræðu í ríkjum sósíalismans. Hann vitnar í Lenin, sem sagði á einum stað að stríð væri framhald stjórnmálabaráttu og eðlilegur þáttur hennar, aðeins spurning um aðferð. Hernaðarmáttur sé því afgerandi þáttur í því hlutverki sem Sovétríkin sjá sjálf sig í í heiminum. Markmið Sovétríkjanna í stríði sé að sjálfsögðu að sigra, en eftirfarandi aðstæður eigi að leggja grunn að sigrinum að mati herfræðinga Sovétríkjanna: Eyðilegging á hernaðarmætti andstæðinganna, hertaka hernaðarlega mikilvægra staða, að hernema landsvæði andstæðinganna, setja við völd stjórnir, sem Sovétríkin geti ráðið við eða a. m. k. þolað, og hugsjónaleg uppfræðsla íbúa hinna herteknu svæða og að hafa áhrif á fólk. Hann vitnar til þess, að árásarstríð sé það stríðsform sem sé afgerandi í þjálfun sovéska hersins þrátt fyrir að í orði kveðnu segist Sovétmenn aldrei ráðast á aðra, þeir undirbúi aðeins varnir sínar í orði kveðnu, en vörnum verði umsvifalaust snúið í árásarsókn og vígvöllurinn verði landsvæði andstæðingsins. Mikilvægur þáttur í að eyðileggja herstyrk andstæðingsins sé að hernema hernaðarlega mikilvæg landsvæði. Þetta séu staðir sem hafi mikilvægi vegna þess að sá hernaðaraðill, sem ráði yfir þeim eða geti notað þá, hafi betri stöðu eða visst forskot fram yfir hinn að því er hernaðarlega stöðu snertir. — Hér kemur Ísland að sjálfsögðu mjög við sögu. Hernaðarleg staða landsins er fyrir löngu viðurkennd og mikilvægi Íslands vex frekar en hitt. Sovétmenn munu því sækjast eftir aðstöðu hér algerlega óháð því, hvort hér sé nokkur herstöð Atlantshafsbandalagsins eða ekki. Við verðum því að velja og hafna, Íslendingar — þetta er innskot mitt — hvort við viljum reyna að hasla okkur völl með þeim þjóðum sem við helst treystum, með þeim þjóðum sem búa við það þjóðskipulag sem við sjálfir búum við, eða hvort við viljum algerlega láta arka auðnu um það, hvernig mál muni snúast ef til styrjaldar dragi.

Það er mikil spurning í öllum þessum umræðum hvort kjarnorkuvopn muni verða notuð í stríði eða ekki. Um það veit að sjálfsögðu enginn, en hitt er staðreynd, að Sovétmenn hafa á síðustu árum lagt mjög mikla áherslu á venjulegan vopnabúnað og á þann hátt sýnt að þeir trúa því, að staðbundin stríð geti orðið háð án kjarnorkuvopna. Sovétmenn hafa líka á s. l. 20 árum lagt mikla áherslu á sjóhernað og þeir hafa lagt mikla áherslu á tvo nýja þætti: í fyrsta lagi kjarnorkuknúða kafbáta með kjarnaeldflaugum, sem unnt er að skjóta á fjarlæg mörk, og í öðru lagi viðbúnað til að mæta flota Atlantshafsbandalagsins á opnu hafi. Kjarnorkukafbátarnir eru að 70% staðsettir á Murmansk-svæðinu og þeir eiga verulegan þátt í möguleikum Sovétmanna á þessu svæði. Stór hluti af flota Sovétmanna hefur það hlutverk að styðja og vernda þessa kafbáta.

Það er talið mjög mikilvægt verkefni Sovétmanna í ófriði að rjúfa samband Atlantshafsbandalagsríkjanna þvert yfir Atlantshafið, þ. e. að rjúfa línuna sem liggur um Grænland, Ísland og Noreg. Landfræðileg lega höfuðstöðva Sovétflotans, þ. e. á Kólaskaganum, á Murmansk, er Sovétríkjunum mikill fjötur um fót og sennilega stærsti veikleiki Sovétflotans. Það er því eitt mikilvægasta markmið Sovétmanna í hugsanlegu stríði að ná fótfestu úti á Atlantshafinu. Helst mundu þeir kjósa að geta gert það án hættu á allsherjarstríði á svokölluðum friðartímum, eins og t. d. gerðist á Kúbu. — Ég held því að það sé ákaflega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að huga að slíkum málum og gera það upp við okkur hvorum megin hryggjar við viljum liggja og hvort við viljum taka þá áhættu að geta orðið á einni nóttu fórnarlömb hins herskáa Sovétveldis.

Niðurstaða þessa norska herfræðings er í stuttu máli á þá leið í fyrsta lagi, að hernaður og vopnavald sé mjög mikilvægur þáttur í stjórnmálaaðferðum Sovétmanna. Á Vesturlöndum er vígbúnaður talinn slæm nauðsyn og að grípa til vopna er yfirleitt erfið pólitísk ákvörðun. En í Sovétríkjunum er þessu öðruvísi farið. Sovétríkin gripa til vopna undir kringumstæðum sem Vesturlandabúum fyndist það óþarfi og nánast óskiljanlegt, eins og dæmi t. d. í Tékkóslóvakíu og Afganistan sanna. (ÓRG: En Víetnamstríðið? Voru ekki einhverjir Vesturlandaherir þar? Er þm. búinn að gleyma því?) Þar voru vissulega herir Vesturlanda, en þar voru ekki síður herir kommúnistaríkjanna, eins og hv. þm. er kunnugt um, og við vitum vel hvernig stóð á því, að Víetnamstríðið hófst. (Gripið fram í.) Við vitum líka hvað hefur gerst í Víetnam eftir að lýðræðisþjóðir drógu sig til baka. Þar hafa Sovétríkin egnt til ófriðar og það ríki hefur ekki borið sitt barr eftir að hernaður af hálfu Bandaríkjanna hætti þar.

Sovétríkin munu grípa til hernaðaraðgerða eins fljótt og þau mögulega geta á hernaðarlega mikilvægum svæðum og það verður reynt að gera með snöggum, óvæntum aðgerðum með það að markmiði að Vesturveldin gefi eftir slík svæði og hætti ekki á heimsstyrjöld þeirra vegna. Þrátt fyrir allar kenningar og áætlanir, sem verða til á friðartímum, verða menn að hafa í huga að í hita stríðsleiksins verða það hinar raunverulegu kringumstæður á hverjum stað sem í raun munu hafa mest áhrif á atburðarásina. Ef einhvers staðar er veikur hlekkur mun hann bresta, hvort sem mönnum líkar betur eða verr og hvað sem öllum kenningum líður. Mikilvægi Íslands frá hernaðarlegu sjónarmiði verður þá afgerandi þáttur í aðgerðum Sovétmanna, en ekki hvort hér séu varnir eða ekki.

Mér þótti ástæða til að rekja nokkuð það sem þessi norski herfræðingur hefur sagt í mjög stórum dráttum vegna þess að annar landi hans hefur verið leiddur hér sem vitni upp í þennan ræðustól ekki alls fyrir löngu.

Í skýrslu hæstv. utanrrh. er nokkuð rætt um slökunarstefnu og hæstv, utanrrh. tekur fram að hann hafi þá óbifanlegu skoðun að áfram verði að feta sig á þeirri braut. Ég er fyllilega sammála honum að því leyti. Hins vegar er það ljóst, og það hefur reynsla síðustu ára sýnt, að sú stefna er mjög vandmeðfarin. Afvopnun á sviði venjulegs vopnabúnaðar og kjarnorkuvopna verður að hafa þann tilgang að tryggja friðinn og má ekki leiða til þess, að líkur á ófriði aukist. Þess vegna verður, hvort sem okkur líkar betur eða verr og jafnvel þó að menn tali oft um jafnvægi óttans í því sambandi, að ríkja jafnvægi milli austurs og vesturs og þessu jafnvægi verður að halda í þeim minnsta styrkleika sem hægt er. Í afvopnunarstarfi má ekki verða það jafnvægisleysi sem undir vissum kringumstæðum getur freistað annars aðilans til að trúa því, að hægt sé að ná pólitískum markmiðum með hervaldi. Á hinn bóginn er ljóst að það er ekki hægt að láta sér nægja að setjast rólegur niður og segja, að nú sé komið á jafnvægi, og takmarka starfið við að gæta þess jafnvægis. Það er stöðugt þörf á umræðum og nýjum hugmyndum.

Hugmyndirnar um kjarnorkuvopnalaus svæði eru vissulega þáttur í þeim hugmyndum sem rétt er að gefa gaum, en kjarnorkuvopnalaus svæði verða þá að stuðla að auknu öryggi. Einhliða yfirlýsingar, eins og fram hafa komið tillögur um frá Alþb., eru hættulegar í þessu efni.

Ég held að það fari ekkert milli mála, að af hálfu Sovétríkjanna hefur verið lögð mikil áhersla á vopnabúnað í norðri og þar er mikill hernaðarstyrkur á alþjóðlegan mælikvarða. Mikill hluti af kjarnorkuvopnabúnaði Sovétríkjanna er um borð í kafbátum og að auki eru þar staðsett annars konar vopn til sjóhernaðar: herskip, árásarkafbátar og alls kyns hjálparskip, enn fremur mikill flugvélafloti, langfleygar sprengjuflugvélar, eftirlitsvélar og árásarvélar og þyrlur. Tæki og mannafli til landhernaðar eru ekki jafnumfangsmikil, en geta komið á vettvang fljótlega frá stöðvum sem eru lengra í suðri. Sovétríkin leggja því — og hafa gert á síðustu 10–15 árum — geysimikla áherslu á vopnabúnað á norðurslóðum. Það eykur líkur á því að Sovétmenn gætu skorið Ísland og Grænland alveg frá, gætu skorið á línuna um Norður-Atlantshafið ef til styrjaldar kæmi. Það er talið að um 130 kjarnorkuárásarkafbátar séu á Kólaskaga og um 70 herskip og um 70%, eins og ég gat um áðan, af kjarnorkueldflaugakafbátum Sovétríkjanna séu þar staðsett. Þessar tölur og upplýsingar sýna að það er alls ekki rétt að einangra umræðu um samdrátt við Norðurlöndin ein. Herfræðilega séð er Kólaskaginn hluti af Norðurlöndum og því verður að líta á allt þetta svæði í heild og þess vegna yrðu þær hugmyndir, sem fram hafa. verið settar af hálfu kommúnista, hættulegar öryggi okkar og Norðurlanda.

Alþb. verður mjög tíðrætt um nýjar hugmyndir í umræðum um utanríkismál og vissulega eru þær nauðsynlegar. Hins vegar verð ég að viðurkenna að mér fannst ekki margar nýjar hugmyndir í þeirri ræðu sem hæstv. félmrh. flutti sem aðaltalsmaður Alþb. á mánudaginn var. Þessar nýju hugmyndir birtust í viðtalinu við Anders Hellebust, sem ég gat um áðan, en að öðru leyti gekk umr. að mestu leyti út á það sem gerðist hér fyrir 30 árum og afstöðu Alþb. á þeim tíma- á þeim sama tíma þegar Stalín var „mannsins besti vin,“ eins og forustumenn Alþb. orðuðu það oft í umræðum um utanríkismál. Hins vegar verður að viðurkenna að hinar nýju hugmyndir Alþb. takast þó ekki betur en það, að þær eru á hverjum tíma í fullkomnu samræmi við hugmyndir, skoðanir og hagsmuni Sovétríkjanna. Og það er engin tilviljun að Sovétmenn skuli sjá sérstaka ástæðu til að hrósa hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir afstöðu hans í utanríkismálum, eins og fram kom í blaðinu Sovietskaja Rossia ekki alls fyrir löngu.

En þegar Alþb. talar um nýjar hugmyndir í utanríkismálum eru það ekki einungis nýjar hugmyndir sem þeir reyna að mynda sér varðandi herfræði hér á norðurslóðum. Það koma einnig fram nýjar hugmyndir frá öðrum sem mér finnst vissulega ástæða til að hafa í huga, og í þeim hópi eru t. d. sovésku andófsmennirnir sem flýja nú frá Sovétríkjunum hver um annan þveran og flytja okkur Vesturlandabúum aðvörunarorð. Um það eru mörg dæmi, en ég skal tilnefna nýjasta dæmið, sem flestir hafa vafalaust lesið um. Það er dæmið um skákmeistarann Korsnoj, sem átti viðtal við Morgunblaðið ekki alls fyrir löngu eða 26. apríl s. l. Af því að hæstv. félmrh. vitnaði svo lengi í Þjóðviljann held ég að mér leyfist að vitna örlítið í Morgunblaðið í þessu skyni einnig, en Korsnoj segir á þessa leið:

„Ég er lýðræðissinni. Þess vegna óttast ég kæruleysi þeirra sem við lýðræði búa. Lýðræðið er viðkvæmt og þegar að því er sótt verður að verja það. Reynslan sýnir að þegar fjandsamleg öfl sækja að lýðræðinu fær ekkert staðist eitt sér. Það er hryllilegur her sem á lýðræðið sækir af stöðugt auknum krafti, og það dugar ekki bara að sitja með hendur í skauti undir slíkum kringumstæðum. Það verður að styrkja lýðræðið. Það verður að slá öll vopn úr höndum Sovétríkjanna og koma í veg fyrir að þau geti beint athyglinni frá sér að einræði í Suður- og Mið-Ameríku. Það verður að koma á lýðræði í þessum löndum, styrkja lýðræðið svo að Sovétríkin standi berskjölduð. Það verður að veita viðnám og sækja á núna strax, því að það verður of seint þegar heimskortið er allt orðið grátt, þegar Moskva er Moskva og gúlagið allt um kring.“

Þetta eru aðvörunarorð eins andófsmannsins. Það einkennir málflutning þeirra að þeir óttast andvaraleysi vestrænna þjóða. Þeir þekkja sitt heimafólk. Þeir eru margir hverjir úr innstu kjörnum þeirra hópa sem þekkja valdakerfið í Sovétríkjunum og hugsunarhátt manna þar. Þeir óttast það andvaraleysi sem Alþb. boðar í utanríkismálum hér á Íslandi.

Ég minntist áðan á það, að einhvern veginn hafa Alþb.-menn lag á því að láta skoðanir sínar í utanríkisog varnarmálum falla saman við skoðanir Sovétmanna. Kannske finnst þeim hrósið gott sem á þá er borið. En ég minnist eins síðasta dæmisins um þetta, þ. e. bókar Einars Olgeirssonar sem kom út núna fyrir jólin: „Ísland í skugga heimsvaldastefnu,“ en þar fjallar þessi gamla þingkempa íslenskra kommúnista aðallega um utanríkismál. Í bókinni sést glögglega hversu utanríkisstefna Alþb. hefur ávallt verið nákvæmlega eftir því, hvernig vindurinn hefur blásið að austan hverju sinni. Í rauninni ætti þessi bók að vera skyldulesning fyrir alla því að hún er hreinskilin og hún sýnir að þessi gamli þingskörungur hefur ekkert lært á allri sinni ævi. (ÓRG: Hefur þm. eitthvað lært síðan hann var á námskeiði hjá Heimdalli í menntaskólanum? Þetta eru nákvæmlega sömu ræðurnar og þm. flutti þá.) Ég held að hv. þm. ætti nú að læra betur sjálfur. Hvernig stendur á því, að Sovétmenn hrósa sérstaklega hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir stefnu hans í utanríkismálum? (Gripið fram í.) Á mínum ágætu Heimdallarárum hrósuðu Sovétmenn vissulega Einari Olgeirssyni, en að þeir skuli enn þá gera það í dag og yfirfæra hrósið á hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson sýnir að grundvallaratriðið í íslenskum utanríkismálum og íslenskri pólitík, grundvallardeiluefnið, sem við deilum um, er nákvæmlega það sama og það var þá.

Sannleikurinn er sá, að grundvöllur utanríkisstefnu okkar hlýtur að vera að tryggja sjálfstæði þjóðarinnar og leggja okkar skerf af mörkum í samfélagi þjóðanna til að tryggja frið og öryggi í heiminum. Samstarf vestrænna þjóða hefur tryggt frið og öryggi í okkar heimshluta. Það er vissulega ávinningur þótt við hljótum að harma ófrið og að stöðugt sé hætta á ófriði í öðrum heimshlutum. Stefna okkar í utanríkismálum og öryggis- og varnarmálum hefur reynst vel og þessi reynsla hvetur okkur til að halda áfram á sömu braut og halda þá sömu grundvallarstefnu sem við höfum haft í utanríkismálum og hæstv. utanrrh. gerir að meginmáli í skýrslu sinni.