15.05.1981
Efri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4488 í B-deild Alþingistíðinda. (4524)

262. mál, lagmetisiðnaður

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að setja hér á einhverjar rökræður við hv. þm. Kjartan Jóhannsson, formann Alþfl., um hvað Sjálfstfl. vill í þessum efnum eða hvað sé grundvallarstefna Sjálfstfl. En ég vek athygli hans á því, að bæði Sjálfstfl. og Alþfl. hafa talið eðlilegt að sérstök lög giltu um síldarútvegsnefnd og hún ein hefði rétt til þess að flytja út saltsíld á alla markaði, ekki bara á þá markaði þar sem ein ríkisstofnun er kaupandi. Það, sem einvörðungu vakir fyrir mér, er að þarna sé hagsmuna Íslendinga gætt og það markaðsstarf sé ekki truflað eins og ég hef reynslu af og ég hef áður sagt hér frá að hefur gerst, jafnvel þó að þessi einkaréttur sé nokkuð fortakslaus í lögum.

Ég held að við getum verið sammála um það, að þó að við séum frjálshyggjumenn að því leyti til, að við viljum að íslenskir neytendur njóti þess, að það sé full samkeppni á innlendum markaði, og ég vona að hv. þm. sé mér alveg sammála um það, þannig að neytendur njóti góðs af samkeppni sem er alla vega í lágmarki, þá sé það dálítið annað mál en þegar verið er að fjalla um viðskipti við aðila þar sem er við einn að ræða og einn aðili ræður innkaupastefnu heils stórveldis t. d. Það er nokkuð annað, og ég held að við þurfum ekki að setja á neinar sérstakar rökræður í þessum efnum. Ég tek undir það, að þessi grein, eins og hún er orðuð núna í frv., leggur áherslu á að aðalreglan sé réttur sölustofnunarinnar til þess að selja á þessa markaði. Mér finnst hún hins vegar ekki nægilega fortakslaus til þess að ekki geti endurtekið sig sú reynsla, að þetta markaðsstarf verði truflað.