15.05.1981
Efri deild: 102. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4489 í B-deild Alþingistíðinda. (4527)

301. mál, umferðarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Allshn. hefur fjallað um frv. til l. um breyt. á umferðarlögum og orðið sammála um að mæla með nokkrum brtt. sem eru á þskj. 855. Einn nefndarmanna, Salome Þorkelsdóttir, skrifar undir nál. með fyrirvara, en skylt er að geta þess, að aðrir nefndarmenn áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. sem fram kunna að koma. Þetta vil ég taka fram í upphafi.

Ég mun nú gera stuttlega grein fyrir þeim brtt. sem er að finna hér á þskj. 855.

Það er þá í fyrsta lagi, að lagt er til að inn komi ný grein sem hljóðar svo:

„Í þeim bifreiðum, sem búnar eru öryggisbeltum samkv. þessari grein, skulu og vera hnakkapúðar af viðurkenndri gerð á framsætum. Ákvæði þetta gildir um bifreiðar sem fluttar eru til landsins eftir 1. jan. 1983.“

Viðurkennt er að hnakkapúðar hafa veruleg áhrif til þess að draga úr meiðslum þeirra sem í framsætum sitja ef slys verður. Búið er að lögleiða það að hnakkapúðar skuli vera í bifreiðum í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Það er ekki alveg ljóst, hvort slík lögleiðing hefur átt sér stað í Finnlandi eða ekki.

Samkv. upplýsingum forstöðumanns Bifreiðaeftirlitsins, sem kom á fund allshn., eru langflestar bifreiðar, sem til landsins eru fluttar, búnar slíkum hnakkapúðum, einhverjar fáar tegundir munu ekki vera það. Hér er gefinn alllangur umþóttunartími, þ. e. fram til 1. jan. 1983, þannig að allar þær bifreiðar, sem til landsins koma og eiga að vera búnar öryggisbeltum, skuli þá, eftir rúmlega eitt og hálft ár, vera búnar slíkum hnakkapúðum.

Í öðru lagi leggur nefndin til breytingu á 1. gr. frv., að 2. mgr. orðist svo:

„Heimilt er að aka á reiðhjóli og leiða reiðhjól á gangstígum og gangstéttum ef það er ekki til hættu eða óþæginda fyrir aðra vegfarendur. Hjólreiðamenn, sem fara eftir gangstígum eða gangstéttum, skulu ævinlega víkja og hliðra til fyrir gangandi vegfarendum.“ Þessi síðasti málsliður er nýr. Nefndin leggur til að hann bætist hér inn í. Þá eru tekin af öll tvímæli um það, að gangandi fólk á réttinn á gangstígum og gangstéttum, hjólreiðamönnum ber ævinlega að víkja og hliðra til. Þetta er aðeins til að taka af öll tvímæli.

Í þriðja lagi leggur nefndin til að 64. gr. (a) verði svohljóðandi:

„Hver sá, er situr í framsæti bifreiðar, sem búin er öryggisbelti, skal nota það við akstur á vegum. Eigi er skylt að nota öryggisbelti við akstur aftur á bak. Sama gildir um akstur á bifreiðastæðum, við bensínstöðvar eða við svipaðar aðstæður.

Dómsmrh. getur sett reglur um undanþágur frá notkun öryggisbelta, ef heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður eru taldar gera slíka undanþágu brýna.“

Hér leggur nefndin til að felld verði niður ein málsgr. sem var í frv. dómsmrh., þ. e. að þeir skuli undanþegnir notkun öryggisbelta sem eru lægri en 150 cm eða 15 ára og yngsti og sitja í framsæti. Nefndin leggur til að þetta verði fellt niður og þá verður einfaldlega ekki leyfilegt að unglingar yngri en 15 ára eða þeir sem lægri eru en 150 cm, sitji óbundnir í framsæti bifreiðar, þeir verða þá að sitja í aftursæti. Hins vegar er rýmkað hér nokkuð orðalag varðandi heimild til undanþágu. Dómsmrh. getur sett reglur um undanþágur frá notkun öryggisbelta ef heilsufars- eða læknisfræðilegar ástæður eru taldar gera slíka undanþágu brýna. Þetta er nokkur rýmkun á orðalagi. Enn fremur segir í næstu mgr.:

„Eigi er skylt að nota öryggisbelti í leigubifreiðum til mannflutninga.“ – Það er eins og er í frv. — „Dómsmrh. getur sett reglur um undanþágu frá notkun öryggisbelta við annan sérstakan akstur“ — Þetta er sömuleiðis eins og er í frv. Síðan kemur viðbót sem nefndin leggur til: „eða við erfið og hættuleg skilyrði utan þéttbýlis, svo sem í mikilli ófærð eða þar sem hætta getur verið á skriðuföllum eða snjóflóðum.“

Ég held að með þessu sé komið nokkuð til móts við sjónarmið þeirra sem bent hafa á að á sérstökum tilteknum leiðum hér, þar sem mikil hætta geti verið á skriðuföllum eða snjóflóðum, sé ástæða til að veita undanþágu frá notkun öryggisbelta. Er hér komið til móts við það sjónarmið.

Í fjórða lagi leggur nefndin til að til viðbótar þeim aðilum, sem tilgreindir eru í umferðarlögunum og eiga sæti í Umferðarráði, komi Öryrkjabandalag Íslands, fulltrúi frá því eigi einnig sæti í Umferðarráði. Um þetta var algjör samstaða í nefndinni og raunar sjálfsagt mál.

5. og síðasta brtt. nefndarinnar er sú, að alllangur tími skuli líða þar til beitt verði viðurlögum, sektum, gegn broti á þeirri grein umferðarlaganna, þ. e. að nota ekki bílbelti eða öryggisbelti. Nefndin leggur til að fyrir brot gegn 3. gr. laganna skuli ekki refsað fyrr en lokið er þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga sem hófst í september 1980. Sjálfsagt getur töluverður tími liðið þangað til, en nefndarmönnum þótti ástæða til að tengja þetta saman, að það sem sagt verði ekki beitt viðurlögum við brot á þessari grein umferðarlaganna fyrr en lokið er þessari heildarendurskoðun sem nú stendur yfir. Það er sérstök nefnd, sem dómsmrh. skipaði, sem fjallar um þá endurskoðun.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að fara að þessu sinni fleiri orðum um þetta, en legg til, að þessar brtt. verði samþykktar, og ítreka það, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja brtt.

Aðeins að lokum mætti geta þess, að nefndin hefur fengið til viðræðna við sig bæði lækna, löggæslumenn, formann Félags ísl. bifreiðaeigenda, sem jafnframt er talsmaður sérstakrar ráðgjafarnefndar lækna sem hefur starfað fyrir umferðarlaganefndina sem er að endurskoða umferðarlögin, svo og fulltrúa dómsmrn. Síðast í morgun kom landlæknir, Ólafur Ólafsson, á fund nefndarinnar og lagði áherslu á að hér væri í rauninni ekki um umferðarmál að ræða, hér væri um heilbrigðismál að ræða, og hann sagði við nefndina: „Ef hér væri á ferðinni sjúkdómsfaraldur, sem ylli jafnmiklu tjóni og bifreiðaslysin valda, og landlæknisembættið gerði ekkert til að koma í veg fyrir eða draga úr þeim faraldri, þá væri mér ekki sætt sem landlækni.“ — Í þessu sambandi er rétt að minna á það, að landlæknisembættið hefur gefið út tvær afar fróðlegar skýrslur um bílbelti og hvers vegna notkun þeirra sé nauðsynleg, og ég vil hvetja hv. þm. til þess að kynna sér þau rit landlæknisembættisins. Þar er að finna hin veigamestu rök fyrir framgangi þessa máls sem ég hef séð.