15.05.1981
Neðri deild: 95. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4494 í B-deild Alþingistíðinda. (4544)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Steinþór Gestsson:

Herra forseti. Við þessa atkvgr. þykir mér rétt að minna á afstöðu mína til þessarar greinar hér á Alþingi fyrr á þessum vetri, þegar ég lagði til brottfall 59. gr. úr skattalögunum, en ákvæði hennar hnigu að því að skattstjóra væri skylt að reikna mönnum skatt af tekjum enda þótt þær hefðu aldrei myndast. Með þeirri brtt., sem nú eru greidd atkv. um, er horfið frá því vanhugsaða ákvæði. Önnur atriði, sem komin voru inn í frv. ríkisstj. eins og það var lagt fyrir Alþingi, hafa verið leiðrétt, svo sem 10% frádráttarreglan sem notast nú einstaklingum sem starfa við sjálfstæða starfsemi, ákvæðið um skertar fyrningar er fellt brott og ef skattstjóri ákvarðar elli- eða örorkulífeyrisþega laun skal þess gætt að tap myndist ekki við það á rekstri hans, og gagnvart öðrum sjálfstæðum smáatvinnurekendum má slík launafærsla ekki mynda tap sem er meira en nemur samanlögðum almennum fyrningum samkv. 38. gr. og gjaldfærslu samkv. 53. gr.

Þótt ekki hafi fengist fram breytingar svo sem ég hefði kosið og gert till. um gengur þessi endurskoðun þó í rétta átt og ákvæði 59. gr., eins og hún er nú ákveðin, munu ekki ganga svo í berhögg við réttlætiskennd skattaðila sem fyrri ákvæði greinarinnar gerðu. En ekki hefur fengist fram full leiðrétting, það er víst og rétt. En með því að nokkuð hefur áunnist að þessu sinni og ætla má að síðar megi taka málið upp til frekari leiðréttingar mun ég ekki spilla þeim árangri, sem fengist hefur, með neikvæðri afstöðu minni. Ég greiði ekki atkvæði.