15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4498 í B-deild Alþingistíðinda. (4557)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Þetta spursmál um sjómannafrádráttinn ætlar að verða alllöng framhaldssaga. Ég vil upplýsa það hér, að reglugerð þessi, nr. 310 frá 1980, var undirbúin hjá ríkisskattstjóraembættinu á s. l. vori og að því er mér er tjáð voru þessar reglur byggðar á gildandi kjarasamningum sjómanna, byggt á því í hvaða tilvikum væri samið um hlutaskipti og hvenær ekki. Sjómannafrádrátturinn er auðvitað hugsaður til handa þeim sem fara á sjó og hætta lífi sínu með þeim hætti að afla björg í bú fyrir þjóðina alla, Hitt heyrir til algjörra undantekninga vonandi að menn, sem í landi eru, njóti hins sama. Þó hefur verið litið svo á um langt skeið að rétt væri að beitingamenn á línubátum, sem ráðnir hafa verið sem hlutaráðnir landmenn, nytu þessa réttar til jafns við sjómennina, en ekki aðrir. Eftir því sem mér er tjáð hefur þetta verið framkvæmt á þennan veg, að það hefur einungis verið gerð undantekning varðandi beitingamenn á línubátum. Þeir hafa verið taldir til hlutaráðinna landmanna, en aðrir ekki. Breytir þá engu þó að útgerð og viðkomandi sjómenn semji um eitthvað annað sín í milli. Þessi meginregla hefur verið látin gilda.

Nú veit ég að sjálfsögðu ekki hvort einhver dæmi eru þess, að menn hafi samt sem áður notið fiskimannafrádráttar, þó ekki væri um að ræða beitingamenn á línubátum. En mér er tjáð að það hafi þá verið mistök ef svo hafi verið í einhverju skattumdæmi, þessi meginregla hafi gilt um allt land og séu þess dæmi einhvern tíma frá fyrri tíð, að netamenn við Eyjafjörð hafi notið þessa réttar, hljóti það á sínum tíma að hafa verið á misskilningi byggt.

Ég kallaði mér til ráðuneytis í gær tvo ágæta menn, annan úr fjmrn. sem hefur mjög um þessi mál fjallað og undirbjó þessa reglugerð, Árna Kolbeinsson deildarstjóra tekjudeildar fjmrn., og einnig fulltrúa frá ríkisskattstjóraembættinu, og voru hér í gangi viðræður um þetta mál milli þeirra annars vegar og hv. þm. Halldórs Blöndals um langt skeið þar sem þeir gerðu tilraun til þess að sýna þm. fram á að málflutningur hans væri á misskilningi byggður og mál yrðu að vera á þann veg sem hér hefur verið miðað við. En ekki bar nú sú viðræða árangur.

Ég veit sem sagt ekki annað en að framkvæmd þessa ákvæðis hafi verið með nákvæmlega sama hætti á s. l. ári og á mörgum undanförnum árum. Mér er tjáð það, hvað svo sem líður frásögnum þm. af hugsanlegum undantekningum í þessum efnum í Eyjafirði, sem ég get auðvitað ekkert dæmt um, hafi þetta verið skilið á þennan veg, „hlutaráðnir landmenn“, að það hafi gilt fyrst og fremst um beitingamenn á línubátum, en ekki um aðra þá sem hafa starfað í landi í þágu útgerðar. Og ég vil satt að segja biðja menn að vara sig á þessari till. og þessu ákvæði sem hér er verið að gera að umræðuefni, vegna þess að auðvitað segir það sig sjálft að þarna verður að draga einhver skýr mörk. Ekki ætlumst við til að sjómannafrádrátturinn verði tekinn upp í vaxandi mæli meðal fólks sem alls ekki fer á sjó. Auðvitað verður að draga þarna einhvers staðar mörkin, og við eigum að sjálfsögðu á hættu að vegna samninga útgerðarmanna og starfsmanna útgerðarfyrirtækja verði í vaxandi mæli komnir með sjómannafrádrátt menn sem aldrei fara á sjó. Ég held, að slíkt sé afar hæpin þróun, og tel því eðlilegt að frádrátturinn sé takmarkaður með nákvæmlega sama hætti áframhaldandi eins og mér er sagt að verið hafi.