11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (456)

347. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að nota ekki einu sinni þær tvær mínútur sem mönnum eru hér skammtaðar. Ég ætla aðeins að lýsa yfir fögnuði mínum yfir því, að hæstv. utanrrh. hefur unnið hér fullan sigur í þessari umr. Áðan sagði hæstv. fjmrh.: Að sjálfsögðu verður engin ákvörðun tekin án samþykkis ríkisstj. og Alþingis um olíugeymana. (Gripið fram í: Það er rétt.) Er það núna orðið rétt aftur? Svo kemur hann áðan og segir að hann hafi enga trú á því, að þetta muni verða gert. (Gripið fram í: Það er líka rétt.) Það er varla hægt orðið að tala við hæstv. ráðh., þeir vita ekki orðið sitt rjúkandi ráð, hvorki í þessu máli né neinu öðru. En sem sagt, hann hefur beðið fullan ósigur. En sá ráðh., sem betur er að því kominn og er meira trausts verður, hefur sigrað í þessari orrahríð, og ég vona að honum vegni betur en hinum, sem undir hefur orðið.