15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4502 í B-deild Alþingistíðinda. (4560)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal aðeins enn einu sinni segja mína skoðun á þessu.

Það kemur skýrt fram í lögunum, að þessi ákvæði eiga einnig við um hlutaráðna landmenn, og það var ekki hugmyndin að þessi lög breyttu í neinu þeim lögum og reglum sem áður voru. Mér er vel kunnugt um að hlutaráðnir menn á netabátum, svo sem algengt er í ýmsum verstöðvum, hafa notið þessara réttinda. Það er nú svo að þessir menn fara líka oft á sjó. Menn skiptast á um að vera í netum. Þetta eru menn sem eru ráðnir upp á hlut á bátana og jafnvel allt árið. Það kemur ekkert fram í lögunum um að hér sé um hlutaráðna beitningarmenn að ræða. Ég hef alltaf skilið það svo að hér væri bæði átt við hlutaráðna beitningamenn og netamenn væru þeir hlutaráðnir.

Þetta er nokkuð skýrt í lögunum. Ef það er einhver misskilningur um þetta eða menn hafa annan skilning, þá verður á það að reyna fyrir ríkisskattanefnd. Og ef niðurstaða ríkisskattanefndar er með þeim hætti, að menn telja það vera andstætt upphaflegum tilgangi laganna, þá hljóta menn að taka það til endurskoðunar að því loknu.