15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4505 í B-deild Alþingistíðinda. (4591)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Frsm. (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál., sem liggur hér frammi á þskj. 815, ásamt brtt. á þskj. 816. Hér er um að ræða mikinn lagabálk sem segja verður að hafi valdið nefndinni tiltölulega litlum ágreiningi. Þetta frv. felur í sér merkar nýjungar og flestar í samræmi við loforð í síðustu kjarasamningum. Nægir þar að nefna aukinn rétt til atvinnuleysisbóta, ákvæði um að tekjur maka skuli ekki tengur hafa áhrif á atvinnuleysisbótarétt, og ég vil persónulega þakka fyrir að þetta ákvæði er komið hér inn, en ég flutti raunar frv. um það efni á síðasta löggjafarþingi. Jafnframt eru breytingar um rýmkaðan bótarétt og fjölmargar aðrar breytingar sem allir eru eflaust sammála um að séu til bóta og til hagsbóta fyrir verkalýðshreyfinguna.

Þær brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 816, eru flestar smávægilegar. Þó ber að geta strax um brtt. nr. 2, en þar varð eini verulegi ágreiningurinn í nefndinni. Við fengum í hendur yfirlýsingu sem undirrituð var í lok síðustu kjarasamninga milli fulltrúa ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins, en þar er 2. atriði orðrétt á þessa leið:

„Gert er ráð fyrir að iðgjald atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs verði óbreytt.“

Við fengum á okkar fund fulltrúa Vinnuveitendasambands Íslands, fulltrúa ASÍ, sáttasemjara ríkisins og fulltrúa ríkisstj., og því var harðlega mótmælt af hluta nm. að saman gæti farið þetta loforð milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstj. og ákvæði í 10. gr. þar sem gert er ráð fyrir að vinnuveitendur greiði 1% af útborguðu vikukaupi fyrir dagvinnu skv. 8. launaflokki A, efsta þrepi. Vinnuveitendur töldu að hér væri brot á samningum og jafnframt nokkrir nm., og eftir töluverð átök í nefndinni var komist að samkomulagi um að koma til móts við kröfur vinnuveitenda að nokkru. Í athugasemdum þeirra gera þeir till. um að iðgjald reiknist af 6. launaflokki, en n. taldi ekki unnt að verða við því þar sem þar er um að ræða launataxta sem er varla lengur notaður. Þetta er launataxti sem lausafólk í sumarvinnu, við garðyrkjustörf og annað slíkt fær, en 8. flokkur er sá launaflokkur sem er sambærilegur þeim launaflokki sem áður var um fólk í fiskvinnu, hafnarvinnu og slíkum störfum. Og við þau störf hefur þessi viðmiðunartaxti ævinlega verið miðaður.

Eftir núgildandi lögum greiddu atvinnurekendur 1% samkv. lægsta taxta Dagsbrúnar, en bótaréttur miðaðist við næstlægsta taxta. Hvað sem bak við þessa yfirlýsingu ríkisstj. og aðila vinnumarkaðarins kann að hafa verið vildu ASÍ- menn halda því fram, að þar hefði í meginatriðum og svo til eingöngu verið um að ræða að prósentutalan hækkaði ekki, en þá var umræða á dagskrá um að þessi prósenta yrði hækkuð upp í 1.5%, og það hefði verið það sem verið var að lofa þegar þetta var undirritað.

En mönnum kom saman um að þarna væri um túlkunaratriði að ræða og hafi þetta átt að þýða eingöngu það atriði að prósentan hækkaði ekki, þá verður að viðurkenna að frá þessu er gengið ákaflega losaralega. Ég vænti að hv. þm. Halldór Blöndal sé í salnum, — já, hann er það. Ég vil aðeins ítreka það, að ég hef hingað til reynt að hafa samninga í gildi, hvort sem það er við vinnuveitendur eða aðra, og þess vegna þótti mér ekki stætt á því að koma þarna ekki nokkuð til móts við þessar kröfur. Samkomulag varð í n. um að breyta þessu ákvæði — gera till. um breytingu á frv. í þá veru, að í stað þess, að vinnuveitendur greiddu 1% af útborguðu vikukaupi í 8. launaflokki efsta þrepi, færði n. sig niður í neðsta þrep. Þetta munar um 45 kr. á vikukaupi og mun í peningum þýða að vinnuveitendur losna þarna við greiðslu sem nemur um 91 gamalli milljón, sem þá jafnframt þýðir að sjóðurinn missir þarna óneitanlega 360 millj., þ. e. annað prósent frá sveitarfélögunum og tvö prósentin frá ríkinu.

Ég vil lýsa því yfir hér, að mér var mjög á móti skapi að gera þessa brtt., en í viðtölum við talsmenn ASÍ varð okkur ljóst að þeir mundu meta mest að þetta frv. yrði að lögum á þessu þingi, og þeir orðuðu það svo að það væri hreint hneyksli ef það gerðist ekki. Þrátt fyrir það að þeir væru óánægðir með þessa breytingu lögðu þeir þyngst mat á það að lögin næðu fram að ganga. Nefndin sá ekki möguleika á því að óbreyttu og varð því sammála um að gera þessa brtt.

Það hefur komið nokkuð á óvart eftir það samkomulag sem n. taldi sig gera, og skal þá tekið fram að þeir nm. eru til sem eru jafnóánægðir á hinn veginn, fyrir hönd atvinnurekenda, og telja að þarna sé ekki gengið til fulls til móts við þetta samkomulag, en eftir að n. náði þessu samkomulagi hefur þrátt fyrir það komið fram brtt, frá tveim hv. þm., Karvel Pálmasyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Ég vil gera örlitla formlega athugasemd við þessa till. vegna þess að það kemur mér nokkuð á óvart að hún skuli vera borin fram sem brtt. við brtt., vegna þess að það sýnist nægja að fella brtt., þá er greinin óbreytt í frv. En vera má að þetta sé kunnáttuleysi mitt, en ég sé ekki ástæðu fyrir þessari brtt. En burt séð frá því liggur hún hér fyrir og þó að ég sé efnislega sammála henni og hefði mjög svo kosið að frvgr. hefði verið óbreytt mun ég að sjálfsögðu standa við það samkomulag, sem varð í n., og treysti því, að nm. haldi það samkomulag. Annars sé ég ekki til hvers er verið að komast að slíku samkomulagi.

Aðrar brtt. eru hér — mestan part smávægilegar — og ég hirði tæplega um að rekja þær. Þær geta verið hverjum til lesningar hér á þskj. 816. Þó vil ég taka fram að 6. brtt. er fólgin í því, að inn í þennan lagabálk er tekið frv. til l. sem lá fyrir Ed. frá hv. þm. Lárusi Jónssyni og o. fl. og er svo til orðrétt tekið þar inn. Brtt. fjallar um að komi til víðtæks atvinnuleysis af völdum náttúruhamfara sem valdi verulegu atvinnuleysi á stóru landsvæði sé stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs heimilt að greiða í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir aukakostnað við að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Nefndinni þótti sjálfsagt og rétt að taka þetta heimildarákvæði inn. Stjórnin sjálf skal síðan meta hvenær til slíks skuli koma. Annað tel ég ekki að þurfi að skýra hér. En ég vil leggja á það mikla áherslu, að ég lít á það sem alvarlegan hnekki fyrir Alþingi ef þetta frv. nær ekki fram að ganga nú á þessu þingi. Hér er um loforð að ræða sem mikil áhersla var lögð á í síðustu kjarasamningum, og liggur fyrir í undirskrifuðu samkomulagi að þetta frv, skuli leggja fram á þessu þingi og afgreiða það með þeim réttindabótum sem í frv. eru.