15.05.1981
Neðri deild: 96. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4513 í B-deild Alþingistíðinda. (4600)

275. mál, atvinnuleysistryggingar

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Mér sýnist nú þetta komið allt í hin mestu vandræði og illa með þetta mál farið. Vissulega er það rétt sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir segir, að höfuðatriði þessa máls er að frv. nái fram að ganga. Í því felast það miklar réttindabætur að það hlýtur að vera nr. 1, 2, og 3.

Hins vegar virðist nefndin eftir þeim skýringum, sem formaður hennar hefur gefið, orðið að ná einhverju samkomulagi til að tryggja framgang málsins og sýnist mér þar hafa á brostið samvinnu stjórnarflokka.

Ég skal ekki fara hér með langt mál. En lítum aðeins á forsögu. Af hverju er þarna komið með 3. taxta eftir 4 ára starf, en ekki 6. taxta?

Þegar samið var um þessi lög eftir langt og hart verkfall 1955 og þótti þá að sjálfsögðu hið mesta gerræði varð það að samkomulagi að atvinnurekandi skyldi greiða eftir 1. taxta. Þá var um eða yfir 80% af öllu verkafólki á 1. taxta. Þetta var árið 1955. Síðan hefur töluvert vatn runnið til sjávar og ef ætti að halda í túlkun Vinnuveitendasambandsins væri þetta 6. taxti sem er hliðstæður 1. taxta. Í þessum 6. taxta er fyrst og fremst létt sumarvinna við garðyrkjustörf. En ef 3. taxti er lagður til grundvallar eftir 4 ára starf eru fleiri fyrir ofan hann í dag heldur en voru fyrir ofan 1. taxta 1955. Þessi taxti er því raunverulega mjög lágur. Það má geta þess, að svo langt er gengið hér að reiknitala t. d. í allri bónusvinnu er 8. taxti eftir eitt ár. Munurinn á 8. taxta eftir eitt ár er 1.75%, eftir þrjú ár er 5%, miðað við byrjunarlaun 8. taxta.

Ef færa á lögin til samræmis við það sem gilti þegar lögin voru sett á sínum tíma, þá var t. d. öll fiskvinna í 1. taxta 1955, öll hafnarvinna, öll byggingarvinna, öll almenn vinna var í þessum 1. taxta. Síðan frá 1965 hafa komið inn ákveðnar aldurshækkanir. Það var aldrei deila milli verkalýðsfélaganna og ríkisstj. um þetta. Það, sem deilt var um, var að verkalýðsfélögin fóru fram á hækkun á prósentu, að það yrði meira en 1%. Því var umsvifalaust og mjög skilmerkilega hafnað af ríkisstj. Þegar þessi ágæta nefnd, sem í eru sómakærir heiðursmenn, gefur þessa yfirlýsingu, þá hygg ég að hún hafi fyrst og fremst haft í huga að iðgjaldaprósentan skuli ekki hækkuð, að hún skuli ekki vera 1.25. En að það skuli ekki vera fært til samræmis við þá taxta og þá taxtaþróun, sem orðið hefur síðan 1955, er aldeilis fráleitt. Þessi túlkun Vinnuveitendasambandsins, að lýsa yfir að allt sé svik við Vinnuveitendasambandið nema greitt sé eftir taxta sem fyrst og fremst er bundinn við létt garðyrkjustörf að sumarlagi, það skuli vera grundvöllurinn undir þann taxta sem greiða á atvinnuleysistryggingar eftir eða stofninn, það er náttúrlega ekki í neinu samræmi. Mér sýnist að þarna hafi vakað fyrir nefndinni að koma þessu frv. í gegn, og vissulega er það númer eitt, tvö og þrjú.

Ég vil geta þess, að aldurshækkanir hjá almennu verkafólki eru miklu, miklu lægri en tíðkast yfirleitt hjá öðrum stéttum. BSRB hefur miklu meiri aldurshækkanir. Verkamaður eða verkakona — verkamaður í þeim skilningi — jafnvel þó hann sé 25 ár að atast í fiski er hæsta mögulega aldurshækkun, sem hann getur fengið, 5%. Meira að segja kemst almennt verslunarfólk sem betur fer í 20% aldurshækkun. Mér finnst hreinlega ekki ná nokkurri átt að líta algjörlega fram hjá þessu.

Aðalatriðið virðist vera að koma þessu frv. hér í gegn. Ég hygg að nm. og þar á meðal frsm. hafi fyrst og fremst haft það í huga. Og það er rétt hjá frsm. n., að á það hafa fulltrúar Alþýðusambandsins lagt áherslu. En hitt verð ég að segja, að þetta er fráleitt, þetta er ranglátt og þetta stríðir á móti allri taxtaþróun og samningsgerð verkalýðsfélaga síðan 1955. Það er ekki lítið á það. Ef ætti að túlka sjónarmið Vinnuveitendasambandsins ætti þetta að verða 6. taxti, byrjunartaxti, sumarfólk sem vinnur létt störf við garðyrkjustörf. Þetta er grundvöllurinn. Þetta er alveg fráleitt ákvæði og hrein öfugmæli. Hugsunin í þessu var alla tíð að þetta héldist í hendur, og það er mjög gætilega í það farið að setja efsta þrep 8. taxta. Það eru ábyggilega færri, sem eru á því og þar fyrir neðan, heldur en voru á 1. taxta 1955.

Hins vegar virðist Vinnuveitendasambandið eiga svo sterk ítök í þessari nefnd að það er komið þar verulega til móts við það og það verður þá svo að vera. Það lá á hreinu að þeirri kröfu var hafnað — og það var gert hreint og afdráttarlaust — að hækka þetta iðgjald úr 1% í 1.25%. Og það er það sjónarmið sem ég held að hafi legið til grundvallar hjá nefndinni, þegar hún gaf þessa yfirlýsingu, að prósentan yrði ekki hækkuð. En að neita að viðurkenna taxtaþróun og þær breytingar sem orðið hafa á samningum, það hljómar ekkert í réttlætisátt í mínum eyrum.

Ég mun hiklaust styðja brtt. á þskj. 868, en jafnframt harma ég það, hvernig nefndinni eða einstökum nm. hefur tekist að klúðra þetta ágæta mál.