15.05.1981
Efri deild: 103. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4521 í B-deild Alþingistíðinda. (4617)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefði átt að taka það skýrt fram við þessa hv. deild, að hann er að mæla fyrir allt öðru frv. en hann lagði fyrir Nd. fyrir nokkrum dögum. Frumvarpi hans hefur verið gersamlega umbylt í Nd., og segir það eitt sína sögu um hvernig að þessu frv. var staðið á sínum tíma.

Hæstv. ráðh. fór hér nokkrum orðum um það, að frv. þetta væri seint á ferð, og vildi afsaka það með því, að það stafaði af því að það hefði verið beðið eftir tölvuútskrift. Ég verð nú að segja að mér finnst það dálítið langt seilst þegar hæstv. ríkisstj. segist hafa beiðið eftir tölvuútskrift allan þennan tíma til þess að breyta skattalögum og síðan kemur hæstv. ráðh. hér og segir að meginefni þessa frv. sé að efna loforð sem ríkisstj. gaf um áramót. Ég vildi nú gjarnan að hæstv. ráðh. léti svo lítið að vera viðstaddur. Þó að hann eigi orðið lítið í frv. er þetta á hans ábyrgð enn þá. (Gripið fram í.)

Hæstv. ráðh. sagði að meginefni þessa frv. væri að efna loforð sem gefið var um að skattalækkun kæmi fram sem 1.5% kaupmáttaraukning hjá hinum lægst launuðu. Það er auðvitað margt hægt er að segja um þessi loforð hæstv. ríkisstj. og skattastefnuna á undanförnum árum. Ég ætla að geyma mér að ræða meira um það síðar, við 2, og 3. umr. þessa máls e. t. v. En það vill svo til að Þjóðhagsstofnun hefur lagt á það mat, hver skattbyrðin verður á þessu ári, bæði ef verðbólgan verður eins og Þjóðhagsstofnun gerir ráð fyrir og eins ef það margfræga 40% mark skyldi nást sem ríkisstj. stefnir að. Varðandi það, sem eftir er í launaumslögum launþega sem borga skatta sem eru fastákveðin tala, skiptir máli þegar upp er staðið hvað verðbólgan verður mikil á greiðsluárinu og hvað laun hækka vegna verðbótavísitölu á greiðsluárinu. Ef verðbólga minnkar mikið verður erfiðara að greiða skattana, og það kemur út úr þessu dæmi, að launþegar búa við nákvæmlega sömu skattbyrði og í fyrra, svo til nákvæmlega sömu skattbyrði mælda í prósentum við tekjur á greiðsluári, ef þetta verðbólgumarkmið næst, þannig að beinir skattar í heild verða nákvæmlega jafnþungbærir fyrir launþega og í fyrra ef þetta markmið ríkisstj. næst.

Ég er hér með tölur frá Þjóðhagsstofnun um þetta atriði, og ég held að það þurfi ekkert um þær að della. Ríkisstj. er að tala um að hún hafi létt skattbyrðina miðað við álagningarár. Það er nokkuð til í því, miðað við árið í fyrra, með þessum stigum. Þetta kemur mjög misjafnlega niður eftir því hvort menn eru með miðlungstekjur eða hærri. En það mun vera nokkuð rétt samkv. umsögn Reiknistofnunar Háskólans og Þjóðhagsstofnunar, að miðað við tekjur álagningarárs er skattbyrðin heldur minni, eftir að þessar breytingar hafa náð fram að ganga, heldur en hún var í fyrra. En þá er líka við það að athuga að nú liggja fyrir óyggjandi tölur um að beinu skattarnir hækkuðu verulega í fyrra, og jafnvel þótt ríkisstj. sé að tala um lækkun miðað við álagningarár á skattbyrðinni er sú lækkun ekki meiri en svo að skattbyrðin verður nánast eins og hún var á árinu 1979. Þetta er nú öll rausnin í tilslökun á sköttum sem hæstv. ríkisstj. vegur upp á móti 7% skerðingunni 1. mars.

En það er eitt atriði sem ég ætlaði nánast að gera fyrst og fremst að umræðuefni hér. Það eru þau fráleitu vinnubrögð sem hæstv. ríkisstj. hefur viðhaft í þessum efnum. Það er svo að skattstofur hafa beðið núna vikum og mánuðum saman með sín störf, mörg hundruð manns sjálfsagt sem hafa í rauninni verið verklitlir. Framteljendur hafa ekki hugmynd um hvaða skatta þeir fá. Ekkert fyrirtæki í landinu veit hvernig það á að telja fram. Og nú er kominn 15. maí, á þessu ári. Það er ekki svo að þetta sé neitt einsdæmi. Þetta endurtekur sig ár eftir ár. Og þetta eru náttúrlega slík firn og stórmerki, að menn skuli bjóða fólki slík vinnubrögð í skattamálum, að það tekur engu tali.

Ég geri nú ráð fyrir að hæstv. ráðh. sé mér sammála í þessum efnum inn við beinið. En ábyrgðin er hans og hæstvirtrar ríkisstj. Það er enn og aftur sama sagan, að hæstv. ríkisstj. getur ekki komið sér saman um neitt fyrr en í besta falli löngu eftir að gera hefði átt hlutina. Það er það sem skiptir máli í þessu sambandi, að þetta frv. er mjög síðbúið og það er algerlega vegna þess dæmafáa stjórnleysis og upplausnar sem ríkir á öllum sviðum innan hæstv. ríkisstj., bæði á þessu sviði og öðrum.

Ég veit ekki nema ég láti þetta nægja í bili. Ég fagna því, að hæstv. ráðh. játar að hann er sekur í þessum efnum. En það er ekki nóg. Fólkið í landinu er búið að hafa af þessu meira en ömun, það er búið að hafa af þessu alls konar óhagræði. Í rauninni vita menn ekkert hvað að þeim snýr í þessum málum, fyrir svo utan það að kastað hefur verið á glæ opinberum fjármunum í stórum stíl vegna þess að skattstofur hafa ekki getað unnið sín verk.