11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 620 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

352. mál, úrvinnsla skattframtala vegna ákvörðunar um búmark

Landbrh. (Pálmi Jónsson):

Herra forseti. Þeirri fsp., sem hér er á dagskrá, er beint til hæstv. fjmrh. þannig að ég hef ekki kannað þau atriði sérstaklega sem spurt er um.

Í fsp. er vikið að því í tölul. 2–5, að það kunni að hafa verið gerðar einhverjar breytingar á upplýsingum, framsetningu, úrvinnsluatriðum og álagningarstofnum eða niðurstöðum skattframtala. Og það er spurt: Hafi þetta verið gert, liggur þá fyrir mat ríkisskattstjóra á því, hvort umræddar breytingar — ef gerðar hafa verið kunni að geta haft áhrif á álagningu opinberra gjalda á viðkomandi framteljendur?

Ég veit ekki betur en þær fsp., sem hér eru settar fram, byggist í raun og veru algerlega á hugarburði fyrirspyrjanda. Ég veit ekki betur en að í þeirri vinnu, sem lagt hefur verið í í sambandi við þær aðgerðir, sem Framleiðsluráð landbúnaðarins stendur fyrir varðandi undirbúning kvótakerfis eða annarra aðgerða í landbúnaðarmálum til áhrifa á framleiðslumagn búvöru, sé einvörðungu um upplýsingasöfnun að ræða. Þar er hvergi um breytingar á skattframtölum að ræða og hvergi um það að ræða, svo að ég viti til, að gerðar séu breytingar á niðurstöðum skattframtala. Ég hygg að það sé alger hugarburður, að einhverjar slíkar breytingar geti orðið stofn breyttrar álagningar.

Ég vil aðeins segja það, vegna þess að seinni ræða hv. fyrirspyrjanda bar með sér að það er nokkuð mikill móður í honum varðandi þetta mál að ég veit ekki til þess að þær getsakir, sem þar komu fram í garð bændasamtakanna, eigi við nokkur rök að styðjast, og ég hef hvergi orðið þess var, enda þótt þau mál, sem hér er fjallað um, séu mjög umtöluð meðal bænda og meðal landsmanna yfirleitt, að þar hafi nokkurs staðar komið fram tortryggni í garð Framleiðsluráðs og Stéttarsambands bænda um meðferð þessara gagna. Það er í fyrsta skipti sem ég heyri slíka tortryggni hér á hv. Alþingi frá þessum hv. fyrirspyrjanda. Ég lít því svo til, að þær fsp. sem hér eru settar fram, byggist einvörðungu á hugarburði þessa hv. þm.