16.05.1981
Efri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4526 í B-deild Alþingistíðinda. (4626)

123. mál, hollustuhættir

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og trn. hefur haft til skoðunar frv. til l. um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. og mælir með samþykkt þess með brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. sem fram kunna að koma. Ingimar Sigurðsson og Þórhallur Halldórsson sátu fundi nefndarinnar. Undir nál. rita allir hv. nm. Hv. þm. Karl Steinar Guðnason ritar undir með fyrirvara.

Á þskj. 875 eru þær brtt. sem n. flytur. Ég vil fyrst segja það, að þær brtt., sem hér er um að ræða, eru ekki stórvægilegar og auðvitað væntum við þess, að þær verði ekki til þess að þetta mál strandi. Þær eru ekki af þeirri gerð. Fyrst og fremst er hér um ríkari skilning að ræða á landafræði. Það eru einungis nafnaskipti þarna á umdæmum. Örlitlar efnisbreytingar eru þó jafnframt.

Fyrsta brtt. er á þá lund, að það er fellt úr frv. eins og það kom frá Nd. Brtt. hljóðar þannig, að málsgr. orðist svo:

„Lögum þessum er ætlað að tryggja landsmönnum svo heilnæm lífsskilyrði sem á hverjum tíma eru tök á að veita.“

Við slepptum þarna úr orðinu að „skapa“. Hv. nm. eru sammála um að það sé fyrst og fremst guð almáttugur sem skapi, en ekki þeir sem taka við okkar verkum hér á hv. Alþingi.

2. brtt. er við 5. gr., 3. tölul. Málsgr. orðist svo: „Heilbrigðisnefndir skulu fyrir 1. okt.“ — en áður stóð 1. nóv. — „ár hvert gera fjárhagsáætlun og áætlun um skiptingu kostnaðar milli sveitarfélaga í umdæminu, sem miðast við íbúatölu 1. des. árið á undan. Skulu þessar áætlanir lagðar fyrir viðkomandi sveitarstjórnir til endanlegrar ákvörðunar.“

Um þetta var rætt í Nd.- nefndinni og að því er mér er tjáð var einhver ágreiningur um það. Niðurstaðan varð hins vegar sú hjá okkur að setja inn að áætlanirnar skuli lagðar fyrir sveitarstjórnir því að það eru auðvitað sveitarsjóðirnir sem þarna koma til vegna greiðslna.

Þá er það 3. brtt. Hún er við 6. gr., 6. tölul., að liðurinn orðist svo sem þar stendur. Ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær breytingar sem verða við 6. gr. því þær eru fyrst og fremst á þann veg, eins og ég tók fram áðan, að við höfðum með okkur landakort á nefndarfund og röðuðum eftir því sem okkur þótti betur fara.

4. brtt. er um nafnaskipti á svæðum, þ. e. önnur röðun, og 5. brtt. jafnframt.

6. brtt. er við 11. gr., 1. tölul. Þar sem stendur „svæðisstjórn“ skal standa: svæðisnefnd.

7. brtt. er við 11. gr., 2. tölul. Málsgr. orðist svo: „Svæðisnefndir koma saman eigi sjaldnar en einu sinni á ári“, en áður stóð „tvisvar“, Við töldum ekki ástæðu til að geta um það í lögum að þær skuli koma saman tvisvar. Auðvitað er þeim frjálst að koma saman tvisvar, þrisvar eða fjórum sinnum eftir því sem þeim sýnist.

8. brtt. er við 20. gr., 1. tölul. Þar sem stendur „Framkvæmdastjóri“ skal standa: Forstjóri.

9. brtt. er við 25. gr., 1. tölul. Þar sem orðið „hollustufulltrúi“ kemur fyrir skal standa: heilbrigðisfulltrúi. Við 31. gr., 1. og 2. tölul., er brtt. nr. 10. Málsgreinarnar orðist svo, 1. tölul.:

„Sé öðrum en heilbrigðisnefnd falið með sérlögum eftirlit með starfsemi, sem lög þessi taka til, og fari fyrirmæli þeirra í bága við fyrirmæli heilbrigðisnefndar og takist ekki að samræma fyrirmælin skal leggja málið til fullnaðarúrskurðar ráðh. Þetta gildir þó ekki sé um að ræða eftirlit með starfsemi samkv. lögum nr. 46/1980, um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, lögum nr. 108/1974, um framleiðslueftirlit sjávarafurða, og lögum nr. 31/1970, um dýralækna“ — Það er raunar ekki annað en þetta síðasta sem skotið er inn til viðbótar. Þá er það tölul. 2.:

„Rísi ágreiningur um framkvæmd eftirlits, sem fallið getur undir lög nr. 46/1980, lög nr. 108/1974 og lög nr. 31/1970, skal ágreiningur borinn upp í sérstakri samstarfsnefnd, sem í eiga sæti forstjórar Hollustuverndar ríkisins, Vinnueftirlits ríkisins og Framleiðslueftirlits sjávarafurða og yfirdýralæknir.“ — Yfirdýralækni er þarna skotið inn í og tel ég ekki ástæðu til að lesa lengra.

Þá er það 11. brtt., við 36. gr. Greinin orðist svo: „Lög þessi öðlast gildi 1. ágúst 1982. Með lögum þessum eru felld úr gildi lög nr. 12/1969, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, lög nr. 74/1977, um matvælarannsóknir ríkisins, svo og ósamrýmanleg ákvæði laga nr. 7/1953, um hundahald og varnir gegn sullaveiki, laga nr. 27/1977, um ráðstafanir til þess að draga úr tóbaksreykingum, laga nr. 95/1962, um öryggisráðstafanir gegn jónandi geislum frá geislavirkum efnum eða geislatækjum, og laga nr. 24/1936, um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum.“

12. brtt. er við ákvæði til bráðabirgða, 6. tölul. Þar stendur „áfengisvarnarráðs“ sem falli brott.

Herra forseti. Ég tel mig hafa gert grein fyrir þessum brtt. Eins og kom fram áðan og sést á nál. eru hv. nm. í heilbr.- og trn. á einu máli um að þetta verði samþykkt.