16.05.1981
Efri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4527 í B-deild Alþingistíðinda. (4627)

123. mál, hollustuhættir

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, kveður á um þýðingarmiklar breytingar á hollustuháttum og heilbrigðiseftirliti. Þessar breytingar eru vissulega til bóta, en margt hefði mátt skoða betur.

Frv. hefur tekið breytingum í meðferð þingsins. Þær breytingar eru allar til bóta. En ég hef haft við það nokkuð að athuga hvernig stjórn Hollustuverndar ríkisins er saman sett. Í 14. gr. segir um það:

„Stofnuninni skal skipuð sérstök stjórn sem í eiga sæti sjö menn. Sameinað Alþingi kýs tvo, landlæknir tilnefnir einn, Samband ísl. sveitarfélaga einn, Heilbrigðisfulltrúafélag Íslands einn og Samtök heilbrigðisstétta einn. Ráðh. skipar einn án tilnefningar og skal hann jafnframt vera formaður.“

Það er umdeilanlegt atriði hvort embættismaður eigi að skipa mann í svona nefnd, og það er umdeilanlegt hvort Heilbrigðisfulltrúafélagið eigi að hafa fulltrúa þarna. En ég held að það ætti að vera óumdeilanlegt, að Náttúruverndarráð ætti að eiga fulltrúa í stjórninni. Þetta frv. fjallar mjög um ytri mengun sem hlýtur að koma Náttúruverndarráði við. Sá fulltrúi rn., sem kom til viðræðu við okkur um þessi mál, kvað sig einmitt mjög samþykkan því, að Náttúruverndarráð ætti aðild að þessari stjórn. Ég mun þó ekki gera brtt. við þetta vegna þess að það er mjög þýðingarmikið að frv. verði afgreitt sem fyrst. Þó það eigi ekki að taka gildi alveg strax má ekki bíða að frv. verði að lögum. En ég bendi á að það hefði verið mjög eðlilegt að Náttúruverndarráð ætti aðild að þessari stjórn.

Svo er það varðandi ákvæði til bráðabirgða, 9. lið. Þar segir:

,,Ríkisstj. láti fara fram athugun á hvort sameina eða samræma megi frekar en gert er með lögum þessum starfsemi aðila, sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit til varnar skaðlegum áhrifum umhverfis á heilsufar manna. Jafnframt fari fram könnun á möguleikum til frekari samræmingar löggjafar um þessi mál. Skal könnun þessari lokið innan þriggja ára frá gildistöku laga þessara.“

Hv. þdm. er sjálfsagt kunnugt um að Vinnueftirlit ríkisins hefur starfað af miklum sóma að undanförnu. Það hafa verið sett lög um starfsemi þess og ég hygg að menn séu sammála um þýðingarmikið hlutverk þess. Ég tel að það þurfi að fá úr því skorið, hvort átt er við Vinnueftirlitið í þessari grein þegar talað er um að sameina eða samræma frekar en gert er með lögum þessum starfsemi aðila sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit.

Ég leyfi mér að spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort ætlunin sé að Vinnueftirlitið falli undir þennan lið eða ekki, og tel svör hans þýðingarmikil varðandi afgreiðslu þessa máls.