11.11.1980
Sameinað þing: 16. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

352. mál, úrvinnsla skattframtala vegna ákvörðunar um búmark

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég vek athygli á því, að 2. lið þessarar fsp. hefur ekki verið svarað. Nú lít ég svo á, að þessi fsp. sé borin fram með þinglegum hætti og vil spyrja hæstv. forseta hvort hann muni gera ráðstafanir til þess, að þessum lið verði svarað eins og efni standa til. Ég fellst ekki á að slíkt sambandsleysi sé á milli landbrn. og fjmrn., að ekki sé hægt að koma upplýsingum þar á milli, og óska eftir því að fá svör við þessu atriði.

Ég skal að öðru leyti ekki gera þessi mál að umræðuefni, hvorki kvótakerfið né annað í þessu sambandi, en ég vil aðeins vekja athygli á því, sem alkunnugt er, að sleifarlag hæstv. landbrh. í sambandi við kvótakerfið er alkunnugt og hefur haft veruleg áhrif og valdið mörgum bændum alvarlegu tjóni sem ég sé satt að segja ekki hvernig á að bæta.