16.05.1981
Efri deild: 104. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4529 í B-deild Alþingistíðinda. (4631)

123. mál, hollustuhættir

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Það ákvæði til bráðabirgða hefur komið til umræðu, að ríkisstj. láti fara fram athugun á hvort sameina eða samræma megi frekar en gert er með lögum þessum starfsemi aðila sem fara með ýmiss konar hollustuhátta- og heilbrigðiseftirlit og eftirlit til varnar skaðlegum áhrifum umhverfis á heilsufar manna o. s. frv. Ég vil leggja á það þunga áherslu frá minni hálfu, að ég skil ekki orð hæstv. ráðh., sem hann viðhafði hér, þannig að það sé ekki ætlunin að þessi grein nái til allra stofnana, eins og stendur greinilega í þessu lagafrv., sem fara með þessi mál.

Það hefur oft og tíðum komið fram í hv. fjvn., þegar hún hefur fjallað um mál þessara stofnana, að þar hafi orðið um nokkurn tvíverknað að ræða, og um það hafa verið rakin dæmi. Þess vegna held ég að það sé ekki nema eðlilegt og æskilegt að slík grein sé í þessum lögum og það verði sérstaklega kannað sem í þessari grein felst. Ég skil það þannig, að Vinnueftirlit ríkisins sé ein af þessum stofnunum. (Gripið fram í: Það er ný stofnun.) Það er út af fyrir sig rétt, að það er ný stofnun. En þessi stofnun fjallar um þessi mál. Þó þessi athugun nái til þeirrar stofnunar á á engan hátt að verða tafið fyrir uppbyggingu hennar. Ég skil það ekki þannig, heldur að þessi athugun nái til þessa fyrirtækis eins og annarra stofnana sem fara með svona eftirlit. Ég legg á þetta þunga áherslu. Ég held að það sé í þágu þess að fara vel með fjármuni skattborgaranna að greinin er svona.