16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4529 í B-deild Alþingistíðinda. (4633)

190. mál, almannatryggingar

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Í frv. því, sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að þeir, sem hafi haft meiri tekjur en 6 millj, og 500 þús. á s. l. ári, skuli greiða sérstakt gjald, 2%. Við erum nýbúnir að afgreiða tekjuskattslög hér í deildinni, þar sem gert er ráð fyrir að jaðarskatturinn verði tæp 65%, og hygg ég að flestum þyki nú nóg um. Ég geri því ráð fyrir að það muni fá góðar undirtektir að fella þetta 2% gjald niður og láta eitt yfir alla ganga.

Ég vil enn fremur benda á það, að eins og mörkin eru ákveðin í frv., það eru 6 millj. 750 þús. að vísu eftir brtt. sem samþykkt var í gær, eru þessar tekjur það litlar að þær ná ekki meðaltekjum verkamanns á s. l. ári. Ég hygg að helmingur þeirra, sem eru í Verkamannasambandi Íslands, komi til með að greiða þetta sérstaka sjúkratryggingagjald.

Enginn vafi er á því, að verulegur kostnaður og óhagræði fylgir því að vera með tekjuskatta í mörgum lögum á mörgum stöðum og einfaldara væri að hafa það í einu formi. Sjúkratryggingagjaldið hefur misst tilgang sinn sem sérstakt iðgjald. Þegar aðeins á að leggja það á hluta þegnanna það er í raun og veru ekkert orðið annað en tekjuskattsviðauki. Ef ríkisstj. hefði kosið að hafa jaðar tekjuskattsins 52% hefði verið eðlilegra og heilbrigðara að hafa það í tekjuskattslögunum sjálfum. Ég vil því leyfa mér að leggja til, að þessi liður falli niður, og flyt um það brtt. ásamt alþm. Birgi Ísl. Gunnarssyni, Steinþóri Gestssyni og Albert Guðmundssyni.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þá skattpíningu sem orðið hefur í þjóðfélaginu síðan núv. ríkisstj. tók við völdum og þær tvær sem á undan henni voru. Ef borin er saman skattbyrðin nú og meðan ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar var við völd sjáum við að það er ekki stigsmunur, heldur eðlismunur á skattpeningi sem dreginn er úr vösum launþeganna. Þegar það bætist enn fremur við, að kjarasamningar voru skertir um 7% hinn 1. mars s. l., er eðlilegt að leiðrétting af því tagi sem heitið var — 1.5% á lægri tekjur og 2% á þær hærri — nái til allra skattborgara. Þetta er sanngirnismál. (GJG: Af hverju þarf það að vera?) Af hverju þarf það að vera. Er nú loksins formaður Verkamannasambandsins farinn að láta til sín heyra varðandi kjaraskerðinguna 1. mars. Það má fagna því, þó seint sé, að það skuli þó koma nokkur orð á Alþingi um það mál frá þessum hv. þm. Svo spyr hann að því, af hverju það sé eðlilegt að allir meðlimir Verkamannasambandsins fái einhverja lækkun á sköttum út af þeim 7% sem þeir voru sviptir hinn 1. mars s. l. Nær hefði honum verið að reyna að standa við það að skattalækkunin hefði komið til skila strax, um leið og menn voru sviptir launum sínum, heldur en að vera með einhver fyrirheit um að þeir eigi að fá skattalækkanir síðar meir á árinu, sem allt er í tvísýnu um að við verði staðið þegar það dæmi verður gert upp, eins og ég hef margsinnis rakið hér í deildinni og hann hefur ekki treyst sér til að hrekja og ekki skýrt sitt sjónarmið.

Ég veit að vísu að á meðan ríkisstjórn sósíalisma og samvinnuhreyfingar er í þessu landi á það sjónarmið erfitt uppdráttar að menn eigi að fá að bæta hag sinn með eigin vinnu, eigin dugnaði og eigin framtaki. Meira er upp úr hinu lagt, ef hægt er á bak við tjöldin að píra einhverju fram hjá kerfinu til einstakra manna og mismuna mönnum með leyfum og sérréttindum, gera ríkisstj. og fulltrúa hennar að nokkurs konar skömmtunarstjórum, eins og alls ráðandi var hér á sínum tíma. Við sjálfstæðismenn leggjum hins vegar mikið upp úr því, að drýgsti hluti þjóðartekna myndist með þeim hætti að einstaklingarnir sjálfir finni hjá sér hvöt til að leggja mikið á sig og afla mikilla tekna með mikilli vinnu. Brtt., sem ég flyt, er af þeim hvötum. Mér finnst nóg um þegar einstaklingarnir eru látnir borga milli 60 og 65% af tekjum sínum til hins opinbera. Ég álít að það sé nauðsynlegt að lækka það háa skatthlutfall. Til að reyna að stuðla að því legg ég sem sagt til að þetta 2% gjald falli niður. Eins og búið er að útvarpa er það er það líka orðinn óverulegur þáttur í tekjuöflun ríkisins og skiptir því fjmrh. engu máli. Auk þess hefur ríkisstj. heitið launþegum og fólkinu í landinu verulegum fjárhæðum í tengslum við kjaraskerðinguna 1. mars. Þeim fjárhæðum hefur ekki verið skilað. Tillöguflutningurinn er þess vegna enn ein tilraunin til að fá ríkisstj. til að skila aftur hluta af því sem ranglega var frá launþegum tekið.