16.05.1981
Neðri deild: 97. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (4662)

325. mál, loðdýrarækt

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þessi setning í lögunum, eins og þau hafa verið frá 1969, er nokkuð sérkennileg svo ekki verði meira sagt.

En ég ætlaði ekki að fjalla um það. Ég er einn af nefndarmönnum sem skrifa undir það frv. sem hér liggur fyrir, og legg til að það verði samþykkt. Ég er hlynntur því, að bændum gefist kostur á að taka upp nýjar svonefndar hliðarbúgreinar, en varðandi þetta mál vil ég beina nokkrum orðum til hæstv. landbrh., sem ég bið hann að geyma í minni, einfaldlega vegna þess að ég óttast nokkuð að hér kunni að fara af stað skriða sem menn hafi ekki kannað nógu rækilega hvað kunni að hafa í för með sér.

Það liggur nú fyrir hjá Búnaðarfélagi Íslands eða búnaðarmálastjóra að um 60 bændur, 60 menn, hafa óskað eftir leyfi til að fá að stofna refabú. Um 30 aðrir hafa óskað eftir leyfum til að stofna annars konar loðdýrabú. Þarna er því um að ræða 90 umsóknir. Hugmyndin með breytingum á lögunum er að bændur geti haft ákveðinn, tiltekinn fjölda refa í búum við heimili sín í sveitum og myndað þannig hverfi loðdýrabúa sem síðan styðjast við fóðurstöðvar eða eldhús, eins og það hefur verið nefnt. Ég innti mjög rækilega eftir því og raunar aðrir nefndarmenn, þegar búnaðarmálastjóri kom á fund nefndarinnar, sem hann gerði raunar tvisvar, hvaða arðsemiútreikningar hefðu verið gerðir á þessu máli. Ég óttast nokkuð þá þróun sem kann að fylgja í kjölfarið á samþykkt þessa frv., þessara breytinga, ef ekki verður gætt vandlega að því, að ekki verði of hratt af stað farið.

Það er augljóst og hlýtur að liggja í augum uppi, að bændur þurfa að bæta sér með einhverju móti það tap sem þeir nú verða fyrir vegna þess, hve miklar skorður hafa raunverulega verið settar við landbúnaðarframleiðslu í landinu. Auðvitað er eðlilegt og sjálfsagt að menn reyni nýjar leiðir eins og þessa. Ég vil minna á að fiskeldi, þ. e. eldi laxfiska og silungs, hefur náð mjög skjótum framförum hér á landi og margir hafa tekið upp þá hliðarbúgrein, ef svo mætti orða það, en því miður hefur stjórnun þeirra mála algjörlega farið úr böndunum. Það liggur nú ljóst fyrir, að vegna þess að ekki var hafður hemill á stofnun fiskeldisstöðva í landinu er nú svo komið vegna markaðstregðu á seiðum að 2–3 stöðvar standa frammi fyrir hreinu gjaldþroti.

Ég vil líka minna á að það átti að verða sveitum þessa lands til mikils framdráttar að stofna þar prjónastofur. Þetta hefur verið gert á nokkrum stöðum. Ég veit um prjónastofur sem hafa ekki prjónað eina einustu peysu. Ég vil benda á þetta vegna þess að verði of hratt af stað farið í þetta mál getur farið svo að Alþingi fái reikninginn fyrr eða síðar ef þarna tekst miður.

Ég vil líka benda á að þetta er kostnaðarsamt fyrirtæki. Þó að bændur eigi hús, annaðhvort gripahús eða hlöður, sem þeir geta breytt í refabú, kosta dýrin mikið. Það er talið að stofnkostnaður við hverja læðu sé um 8000 kr., og þá er ekki reiknað með fóðurstöð eða eldhúsi sem kostar á bilinu 60-80 gamlar milljónir. Það liggur fyrir að slík hverfi verða mótuð víða á landinu. Búnaðarmálastjóri skýrði frá því, að það væri m. a. í Vestur-Barðastrandarsýslu, í Skagafirði, þar sem Sauðárkrókur yrði fóðurmiðstöðin eða þar yrði fóðurhúsið, á Hólabúinu, þar sem yrði kennslubú, við Eyjafjörð á Dalvík og við Grenivík, í Suður-Þingeyjasýslunni í Aðaldal og Reykjadal, í Vopnafirði, á Jökuldal, í Árnes- og Rangárvallasýslum og Höfn í Hornafirði.

Ég vil vegna þessa máls óska eftir því við hæstv. landbrh., að hann hafi fulla aðgát og fylgist mjög nákvæmlega með því, að þetta mál fari ekki úr böndunum. Ég skil mjög vel að bændur sjái þarna nokkra ljósglætu í þeim erfiðleikum sem að þeim steðja núna. En erfiðleikarnir gætu orðið miklu meiri ef ekki yrði farið varlega af stað. Ég hefði í sjálfu sér talið eðlilegt að það hefði verið gerð tilraun með slík loðdýrahverfi, eins og nú er ætlunin að koma á fót, og það látið koma greinilega í ljós, hver hin eiginlega arðsemi er. Hún er ugglaust talsverð um þessar mundir vegna þess háa verðs sem nú er á refaskinnum. En hvað gerist ef það yrði verðfall á þeim skinnum?