16.05.1981
Efri deild: 105. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4543 í B-deild Alþingistíðinda. (4685)

315. mál, Bjargráðasjóður

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Eins og flestum hv. alþm. er í fersku minni gekk óveður mikið yfir landið aðfaranótt 17. febr. s. l. og olli verulegum skaða á eignum manna. Yfirlit hefur verið gert um hversu mikið tjón var hér um að ræða og er almenn samstaða um að tjónþolar eigi kost á nokkurri fyrirgreiðslu af hálfu opinberra aðila vegna þessa tjóns, a. m. k. ef tjónið fer yfir ákveðið lágmark. Vegna þess hefur frv. þetta verið flutt og nú verið afgreitt frá hv. Nd. um ábyrgðarheimildir vegna lántöku Bjargráðasjóðs.

Samkv. frv. er ríkisstj. heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem Bjargráðasjóður tekur, allt að 15 millj. kr. Lánið má vera verðtryggt miðað við lánskjaravísitölu eða að jafngildi 15 millj. kr. í erlendri mynt. Ábyrgðin skal vera með þeim kjörum og skilmálum sem ráðh. ákveður og tekur hún jafnt til greiðslu afborgana, verðtryggingar, vaxta og annars kostnaðar.

Í frvgr. er þess ekki getið, með hvaða kjörum lán þessi verða veitt, en rétt er að upplýsa að ríkisstj. hefur gefið yfirlýsingu um það, eins og fram kom í Nd., að lánin verði veitt með þeim kjörum sem almennt eru á lánum frá Byggðasjóði.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta mál, en legg til að málinu verði vísað til hv. fjh.- og viðskn.