18.05.1981
Efri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4550 í B-deild Alþingistíðinda. (4705)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Hv. iðnn. hefur haft til umfjöllunar undanfarna daga frv. til l. um sjóefnavinnslu á Reykjanesi. Nefndin hefur kannað efni frv. eftir föngum.

Fjöldi aðila hefur mætt til fundar við nefndina, og ég tel mér skylt að lesa upp þá aðila: Guðmundur Einarsson, Finnbogi Björnsson og Baldur Líndal frá Undirbúningsfélagi saltverksmiðju á Reykjanesi, Finnbogi Jónsson og Pétur Thorsteinsson frá iðnrn., Sverrir Þórhallsson og Jón Steinar Guðmundsson frá Orkustofnun, Guðjón Guðmundsson frá RARIK, Sigurður Haraldsson og Valgarð Ólafsson frá Sölusambandi ísl. fiskframleiðenda, Gamalíel Sveinsson og Ólafur Davíðsson sem og Hallgrímur Snorrason frá Þjóðhagsstofnun, Árni Reynisson frá Náttúruverndarráði, Eyjólfur Sæmundsson frá Vinnueftirliti ríkisins, Hrafn Friðriksson frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins og Finnbogi Kjeld frá Skipafélaginu Víkur hf. Umsagnir frá hinum fimm síðastnefndu eru birtar í fskj. með þessu nál. Jafnframt mætti Vilhjálmur Lúðvíksson frá Rannsóknaráði ríkisins á fund með nefndinni.

Nefndin gerir ráð fyrir að fylgt verði eftirfarandi niðurstöðum Saltvinnslunefndar:

1. Byggð verði 8 þús. tonna saltverksmiðja til að vinna að markaðsþróun með fisksalt í stórum stíl.

2. Núverandi tilraunaverksmiðja verði nýtt til þess að gera vinnslutilraunir með kalíframleiðslu og framleiðslu á fínsalti.

3. Boruð verði ein vinnsluhola á svæðinu veturinn 1981–1982 og aukið við rannsóknir á svæðinu.

4. Undirbúin verði verkhönnun á 40 þús. tonna verksmiðju og tilboða aflað í sölu á afurðum. Jafnframt leggur nefndin til að ekki verði heimilað að hefja byggingu 40 þús. tonna saltverksmiðju fyrr en tilboða hefur verið aflað í sölu afurða með tilliti til rekstrargrundvallar verksmiðjunnar.

Nefndin lítur svo á, að framkvæmdir þær, sem ráðgerðar eru, séu rökrétt framhald af þróunarverkefni því sem undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi hefur unnið að.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum sem fluttar eru á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til þess að flytja eða fylgja öðrum brtt. Undir þetta rita allir hv. nm.

Ég vil þá í örfáum orðum víkja að þeim brtt. sem fluttar eru á þskj. 877 og n. er einhuga um.

1. brtt. er við 2. gr., að 1. mgr. orðist svo:

Ríkisstj. skal kveðja Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi hf. svo og aðra aðila, sem áhuga hafa á málinu, til samvinnu um stofnun og starfrækslu hlutafélags samkv. 1. gr.

Þarna er raunverulega um það að ræða að nm. iðnn. vilja að kveðið sé fastar á um að ríkisstj. skuli kveðja til aðra aðila — ekki aðeins að það sé heimilt, heldur að það skuli.

Þá er 2. brtt. Hún er við 4. gr. Í stað 5 mw komi 10 mw. Eins og kunnugt er er gert ráð fyrir að hlutafélagið framleiði eigin raforku samhliða vinnslu jarðefnanna sem fást úr borholum verksmiðjunnar, en auk þess verði um að ræða verulega afgangsorku sem gæti orðið til ráðstöfunar í samráði við hagsmunaaðila. Nefndin leggur sem sé til að það komi 10 mw. í stað 5.

3. brtt. er við 7. gr. Þar er lagt til að greinin falli niður. Við teljum ekki ástæðu til að gefa undir fótinn með það að tala stofnenda eða hluthafa verði undir fimm. Í því sambandi er vísað til hinna almennu hlutafélagalaga í ljósi þess, að það verkefni, sem hér er verið að fjalla um, er á þann veg að við teljum mikilvægt að áhugaaðilar sýni sig í því sambandi. Af þeim sökum gerum við ekki ráð fyrir öðru en áhugaaðilar og þar með fjöldi stofnenda sem og hluthafa verði yfir tölunni fimm.

4. brtt. er við 9. gr. 2. mgr. orðist svo:

„Fulltrúar í stjórn hlutafélagsins skulu kjörnir á aðalfundi nema fulltrúar ríkisins, sem skulu skipaðir af iðnrh. og fjmrh. að jöfnu, svo og varamenn þeirra. Verði um meirihlutaaðild ríkisins að ræða í félaginu skipar iðnrh. formann stjórnar.“

Þarna er í raun ekki um efnisbreytingu að ræða. Við viljum aðeins að orðalag sé á þann veg að það skiljist við hvað er átt.

5. brtt. Aftan við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða: „Ekki er heimilt að hefja byggingu 40 þús. tonna saltverksmiðju né veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán samkv. 2. tölul. 5. gr. í því skyni fyrr en tilboða hefur verið aflað í sölu afurða.“

Varðandi þetta bráðabirgðaákvæði vil ég taka fram að það er ekki meining okkar nm. að þetta mál þurfi að þessu leyti að leggja fyrir Alþingi að nýju. Við viljum þó með lögformlegum hætti, eins og bráðabirgðaákvæðið tekur til, tryggja að ekki verði ráðist í þetta fyrirtæki nema afurðum verksmiðjunnar verði komið í viðunandi verð, og það er hugsun okkar með þessu ákvæði til bráðabirgða. Við viljum tryggja að svo verði staðið að málum að ekki verði anað út í einhverja óvissu.

Herra forseti. Ég hef ekki hugsað mér að tala hér lengi. Það er ljóst að það eru margvíslegar upplýsingar sem liggja til grundvallar þessu máli, og auðvitað höfum við hv. nm. verið upplýstir um fjölmargt. Hins vegar er það svo, að sú saga, sem liggur að baki þeirri ráðagerð sem þetta frv. hljóðar um, er orðin alllöng, eins og hv. dm. er kunnugt. Ég vil þó leyfa mér að fara yfir athugasemdir þessa lagafrv. Þar er í mjög stuttu máli komið að því helsta. Ég vil enn fremur leyfa mér að fara í grófustu dráttum yfir bls. 4 í þessu frv. — það sem heitir „Skipan Saltvinnslunefndar“. Þar eru sömuleiðis dregnar saman helstu niðurstöður og helstu atriði sem þetta varðar.

Með frv. þessu er stefnt að því að koma á fót sjóefnavinnslu hérlendis til framleiðslu á salti og öðrum efnum sem tengjast þeirri vinnslu. Lagt er til að ríkisstj. sé heimilað að beita sér fyrir stofnun hlutafélags er reisi og reki verksmiðju sem framleiði um 40 þús. tonn af salti á ári, um 9 þús. tn. af kalsíumklóríð og um 6 þús. tn. af kalí auk klórafurða og fleiri efna. Áætlaður stofnkostnaður slíkrar verksmiðju er 157.5 millj. kr. Árlegar tekjur eru áætlaðar 34.7 millj. kr. og rekstrarkostnaður án afskrifta og vaxta 17.1 millj. kr.

Fyrirhugað er að hefja framkvæmdir við 8 þús. tonna byrjunaráfanga verksmiðjunnar á þessu ári, m. a. til að vinna að markaðsþróun fyrir sölu fisksalts í stórum stíl. Á næsta ári er gert ráð fyrir að boruð verði ein vinnsluhola á verksmiðjusvæðinu til viðbótar þeirri, sem fyrir er, og að ljúka verkhönnun á 40 þús. tonna verksmiðju. Byggingarframkvæmdir við þá verksmiðju gætu hafisti ársbyrjun 1983 og verið lokið haustið 1984.

Eins og ég gat um áðan vil ég leyfa mér að segja í örfáum orðum frá því starfi sem Saltvinnslunefnd hefur unnið. Ég held að það verði tæpast gert ríkulegar í samanþjöppuðu máli en kemur fram í aths. með þessu frv., með leyfi forseta:

„Með bréfi, dags. 31. jan. 1980, skipaði þáv. iðnrh., Bragi Sigurjónsson, nefnd til þess að meta hagkvæmni þess að reisa og reka saltverksmiðju á Reykjanesi í ljósi þeirra niðurstaðna, sem tilraunarekstur á þessu sviði hafði gefið. Jafnframt var nefndinni ætlað að taka til athugunar hugsanleg framtíðarverkefni í tengslum við saltverksmiðju. Var nefndinni falið að hafa samráð við stjórn Undirbúningsfélags saltverksmiðju á Reykjanesi við áðurnefndar athuganir.

Í nefndina voru skipaðir:

Finnbogi Jónsson verkfræðingur og hagfræðingur, iðnrn., formaður; Gamalíel Sveinsson viðskiptafræðingur, tilnefndur af Þjóðhagsstofnun; Sverrir Þórhallsson, efnaverkfræðingur, tilnefndur af Orkustofnun; Þorvaldur Búason, eðlisfræðingur, tilnefndur af fjmrn.

Í lok apríl 1980 lá fyrir skýrsla frá Undirbúningsfélaginu um frumhönnun og frumáætlun saltverksmiðju á Reykjanesi.

Lagði félagið til við iðnrh. að þegar yrði aflað heimildar Alþingis um þátttöku í byggingu og rekstri 60 þús. tonna verksmiðju og að 4 þús. tonna áfangi hennar yrði byggður þá um sumarið. Mælti Saltvinnslunefnd gegn því, að málið yrði lagt fyrir Alþingi á þeim tíma, þar sem ýmsum grundvallarrannsóknum var þá enn ólokið.

Í samráði við Undirbúningsfélagið beitti Saltvinnslunefnd sér fyrir að gerðar yrðu frekari rannsóknir og athuganir á ýmsum þáttum saltvinnslunnar svo og ítarlegri markaðsathuganir. Niðurstöður þessara rannsókna lágu fyrir í febr. 1981 og í lok mars s. á. skilaði Saltvinnslunefnd áliti um byggingu og rekstur saltverksmiðju á Reykjanesi.

Niðurstaða nefndarinnar er sú, að tæknilega sé ekkert því til fyrirstöðu að hefja framleiðslu á fisksalti hér á landi í stórum stíl. Hins vegar sé þörf á frekari vinnsluprófunum á aðskilnaði fínsalts, kalí og kalsíumklóríðs til að tryggja rétt val vinnsluaðferðar og tækja fyrir endanlega verksmiðju.

Nefndin telur að vegna markaðsástæðna sé bygging 40 þús. tonna verksmiðju heppilegri en 60 þús. tonna verksmiðju.

Ef sá rekstur tækist vel megi stækka verksmiðjuna síðar. Í lok nál. segir m. a.:

„Í heild eru niðurstöður þær, að líklegir afkastavextir saltverksmiðju liggi á bilinu 7–10%. Ljóst er að bygging og rekstur saltverksmiðju á Reykjanesi yrði ákveðin lyftistöng fyrir annan iðnað í landinu. Í því sambandi hefur m. a. verið fjallað um að hugsanlegt væri að smíða tækjabúnað saltverksmiðju að stórum hluta innanlands. Þá hefur í kafla 8“ — og þá er átt við þá skýrslu sem Saltvinnslunefnd lét frá sér fara — „verið fjallað um framtíðarverkefni í tengslum við rekstur saltverksmiðju. M. a. var nefndur sá möguleiki að framleiða natríumklórat hér á landi, en slík framleiðsla nýtir afurðir saltverksmiðju sem hráefni.“

Reykjanessaltið er að hluta til frábrugðið innfluttu salti, t. d. að því leyti að í því eru engir roðagerlar. Nefndin telur að athuga þurfi sérstaklega hvort unnt sé að nýta þá sérstöðu, t. d. með útflutningi á saltfiski í neytendapakkningum.“

Ég taldi rétt að fara yfir þessar samanteknu niðurstöður. Það er nú svo, að þegar á að fara að ræða mál í smáatriðum tekur það raunar langtum lengri tíma en við höfum hér. Ég held þó að ég geti sagt að við nm. höfum fengið skýrðar í megindráttum þær forsendur sem liggja að baki þeim útreikningum sem hér hafa verið lagðir fyrir hv, alþm.

Herra forseti. Hér er um að ræða málefni sem á sér langan aðdraganda. Eins og ég gat um áðan þyrfti miklu lengri tíma til að rekja í smáatriðum þá löngu sögu, enda er sú saga skilmerkilega skráð annars staðar í gögnum sem fyrir liggja sem og núverandi niðurstöður. Við skulum vona að þetta frv. sé og verði heilladrjúgur áfangi á leið í áttina að fjölþættum efnaiðnaði hér á landi.