18.05.1981
Efri deild: 107. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4553 í B-deild Alþingistíðinda. (4706)

312. mál, sjóefnavinnsla á Reykjanesi

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það verður að segjast eins og er, að hv. iðnn. hefur náttúrlega haft mjög takmarkaðan tíma til að fjalla um þetta mál. Eins og kom fram í framsögu formanns n. hefur þetta mál verið til athugunar um áratuga skeið og fyrir liggja margvísleg og fjölbreytileg gögn. Ég held að sannleikur málsins sé hins vegar sá, að a. m. k. á þeim tíma, sem n. hefur haft til umráða, hafi verið ákaflega erfitt, næstum ógerlegt, að meta til nokkurrar hlítar hinar kostnaðarlegu forsendur sem lagðar eru til grundvallar. Það verður líka að viðurkenna, að sú arðsemi, sem er niðurstaða þeirra útreikninga sem þarna eru kynntir, getur ekki talist mjög há. Það verður líka að viðurkenna, að samkeppnisaðstaða í framleiðslu á salti hlýtur að verða knöpp og að ýmsu leyti erfið. Kostur þessa verkefnis liggur þess vegna ekki fyrst og fremst í þessu. Það hefur orðið niðurstaða n. að stíga jafnstór skref og sú nefnd sem um þetta mál fjallaði og að því vann — ég á við Saltvinnslunefnd, Undirbúningsfélag saltverksmiðju á Reykjanesi.

Það, sem hér er kannske fyrst og fremst um að ræða, er það, að okkur leikur hugur á að nýta þá möguleika sem heitur jarðsjór gefur til efnaiðnaðar á Íslandi. Við höfum ekki komið enn þá auga á aðra möguleika en þá sem hér eru upp taldir. Sumir þeirra eru að ýmsu leyti spennandi og kannske efnilegir. Þá á ég við ýmiss konar aðra framleiðslu en beinlínis saltframleiðslu. Ég tel að það verði að líta á þetta verkefni sem þróunarverkefni, sem leit að leiðum til að nýta þá auðlind sem við þarna eigum. Ég tel að það skref, sem hér er lagt til að verði stigið, eigi að skoða sem tilraun til að leita nýrra leiða og prófa sig áfram með það. Ég held að það væri rangt að líta á þetta verkefni blint og skoða það annaðhvort sem svart eða hvítt. En einmitt þær ástæður, sem ég hef hér rakið, gera það líka að verkum að menn gera ekki eins strangar arðsemikröfur og ella væri. Menn líta á þetta sem rannsóknarverkefni í leit að því að nýta með sem bestum hætti þær gífurlegu náttúruauðlindir sem við þarna höfum.

Þessar skoðanir koma í sjálfu sér fram í áliti Saltvinnslunefndar og þær koma líka fram í þeirri umsögn sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið um þetta verkefni. Það gildir í þessum efnum að saman verður að fara trú á þá möguleika, sem hér eru fyrir hendi, og varkárni um að flana ekki að neinu. Það skyldi enginn ætla að það væri skjótfenginn ábati af framleiðslu fisksalts. En það, sem er jákvætt og spennandi í þessu verkefni, er að það gæti orðið lyftistöng fyrir annan efnaiðnað í landinu og í sumum tilvikum er þá um að ræða nýtingu efna úr jarðsjónum í tengslum við rekstur saltverksmiðju. Þar er nefnt til líthíum, koldíoxið, gips og kísill, svo að dæmi séu tekin. Aðrir kostir á sviði efnaiðnaðar byggja raunar á afurðum saltverksmiðju sem hráefni. Þar má nefna natríuklórat, magnesíumklóríð, vítissóda, klór o. fl. Þó að bygging saltverksmiðju þurfi ekki að teljast forsenda fyrir því, að iðnaður af þessu tagi komist upp, er það samt trú mín að tilraun af því tagi og með þeim hætti sem iðnn. hefur hér komið sér saman um, yrði til þess að ýta undir þróun í þá átt, að þeir valkostir verði kannaðir gaumgæfilega.

Að lokum vil ég leggja áherslu á það, að við höfum ekki komið auga á aðra eða ábatasamari hagnýtingu jarðvarmans á Reykjanesi, á hinum heita sjó sem þar kemur upp. Þess vegna er vissulega ástæða til að halda áfram rannsóknum á þessu sviði með þeim hætti sem n. hefur lagt til.