11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Ingólfur Guðnason:

Herra forseti. Það er að vísu ástæðulítið að gera að umræðuefni á Alþ. hversu bættar samgöngur á landi, lofti og legi eru mikilvægir þættir í lífi þessarar þjóðar þar sem fáir búa í tiltölulega stóru landi og erfiðu yfirferðar. Landið er, eins og við vitum, mjög vogskorið og fjöllótt og margar ár yfir að fara og firðir margir og veðráttan og eiginleikar landsins ekki með þeim hætti að það sé auðvelt eða létt verk að gera þar þau samgöngumannvirki sem nauðsynleg eru svo sæmilegt megi kallast. Það er því eðli málsins samkv. að umr. hefjist um samgöngumál hér á Alþ. og reynt sé hverju sinni að leita að heppilegustu og skynsamlegustu lausn hvers vanda á þessu sviði og hinar ýmsu úrlausnir og valkostir, sem til greina koma, séu metin og þá að sjálfsögðu með tilliti til arðsemi í bráð og lengd.

Í till. til þál., sem hér er til umr., er gert ráð fyrir að Alþ. álykti að fela ríkisstj. að hlutast til um að gerð verði athugun á hagkvæmustu samgönguleiðum um Hvalfjörð. Fyrst og fremst kvaddi ég mér hljóðs við þessa umr. til að lýsa yfir samþykki mínu við tillöguna.

Í grg. með till. er vitnað til álits nefndar, sem birt var árið 1972, um alhliða rannsókn á því, hvernig hagkvæmast muni að leysa samgönguvanda milli þéttbýlisins í og við Reykjavik annars vegar og Akraness, Borgarfjarðar og til Vestur- og Norðurlands hins vegar. Síðan er í grg. getið um fjóra aðalmöguleika og þar segir: 1) Ferju yfir fjörðinn, 2) brú yfir fjörðinn, 3) göng undir fjörðinn, 4) veg fyrir fjörðinn.

Ein þessara þriggja nýju lausna verður eflaust og vonandi að veruleika eftir nokkurn tíma, hvað sem „nokkur tími“ í þessu tilliti gæti merkt. En það er það sem ég óttast, að hv. flm. till. séu að gæla við hugmynd um að farin verði einhver þessara þriggja nýju leiða í allra næstu framtíð, og þar sem mér þykir líklegt að flestir þessara þriggja kosta verði mjög dýrir mundi það verða til að tefja mjög svo aðrar vegaframkvæmdir, ekki einungis á þessari leið, til byggðarlaganna sem þarna eru nefnd, heldur kannske mjög víða annars staðar. Við ákvörðun um eina lausn vandamáls má ekki gleyma hagsmunum eða vandamálum annarra þegna í þjóðfélaginu. Arðsemissjónarmið eiga fullan rétt á sér, en þau eru ekki allt og mega ekki verða allt.

Í þessu sambandi leyfi ég mér að benda á Borgarfjarðarbrúna nýbyggðu. Enginn efast um ágæti hennar sem samgöngumannvirkis, en margir efuðust og efast um hvort skynsamlegt hafi verið að ráðast í þá framkvæmd á sínum tíma og stangast sjálfsagt fullyrðingar á um það efni. Við skulum gera okkur grein fyrir því, að þrátt fyrir ágæti sitt hefur Borgarfjarðarbrúin að öðru jöfnu tafið fyrir öðrum vega- og brúaframkvæmdum á landinu. Ég á von á að ýmsir, svo sem Þingeyingar, Eyfirðingar, Siglfirðingar og ótalmargir aðrir á Norður- og Austurlandi, muni álíta að verkröðun hefði átt að vera með öðrum hætti. Hverjir hv. alþm. muna veginn um Norðurárdal í Mýrasýslu og þar með talda brúna yfir Sanddalsá? Hverjir muna brúna yfir Giljá í Austur-Húnavatnssýslu og veginn um Mánárskriður á Siglufjarðarleið, svo að eitthvað sé talið? — Að öðru leyti ætla ég ekki að ræða um Borgarfjarðarbrúna, en hver arðsemi hennar er treysti ég mér ekki til að dæma um, enda er arðsemi einnar framkvæmdar, ef hún tengist á beinan eða óbeinan hátt annarri arðsemi e.t.v. á öðrum sviðum í þessu þjóðfélagi, mjög flókið dæmi og ég efast um að þó að allir okkar reiknimeistarar leggi saman komist þeir að einni og sömu niðurstöðu.

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að möguleikar þeir, sem till. getur um, verði athugaðir og metnir, en ítreka jafnframt áhyggjur mínar varðandi seinkun annarra vegaframkvæmda ef till. þessi yrði hvati til einhverra þeirra framkvæmda sem kalla mætti risavaxnar eða ævintýramennsku á þessu sviði.

Ég lýsi því aftur yfir, að ég styð að þessi till. verði samþykkt.