11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (472)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka þegar þær undirtektir við þetta mál sem komið hafa fram, og þó að ég gæti margt sagt í sambandi við ræðu hv. síðasta þm. ætla ég að sleppa því hér. En ég vil vekja athygli á því, að hér er um talsvert stærra mál að ræða en menn gera sér almennt grein fyrir að því er varðar framtíðarstefnu í samgöngumálum hér á landi.

Ég tel að nál. frá 1972 hafi verið mjög merkileg heimild um, hvernig á raunar að vinna að undirbúningi á þessu sviði, og margt, sem þar kemur fram, hafi orðið að vissu marki leiðarvísir í sambandi við vegagerð hér í landinu, en það eru breyttar forsendur þannig að núna er margt, sem þá var óljóst, orðið sjálfsagt hjá þeim þjóðum sem lengst eru komnar og best standa í sambandi við stórvirki í vegagerð.

Við þurfum raunar ekki annað en fara til Færeyja eða Noregs. Þá sjáum við hvernig frændur okkar leysa sín mál, jafnvel við erfiðari skilyrði en hér er um talað. Ég hef kynnt mér og skoðað með mikilli athygli hvernig Norðmenn leysa umferðarmál þar sem komast þarf yfir firði. Þó að e.t.v. séu að sumu leyti aðrar forsendur þar en þær sem við eigum við að stríða á því svæði sem hér er um talað, t.d. miklu meira ójafnvægi í náttúrunni hér, þ.e. sviptivindar og annað slíkt, eru ferjur í Noregi með þeim hætti að vel mætti hugsa sér að þær gætu hentað okkur á þessu sviði.

Ég vil í þessu sambandi benda á að það getur von bráðar komið á borðið til okkar mál eins og ferja milli Reykjavíkur og Akraness, sem er innan tíðar orðin úrelt og raunar of lítil eins og nú er. Þá má geta um ferju á milli Vestmannaeyja og lands, sem er mikið vandamál. Hefur þegar komið í ljós að sú ferja er ekki rétt hönnuð. Hún hentar ekki nægjanlega miðað við þær samgöngur sem þar þurfa að vera.

En það, sem kom mér til að standa upp, en ég er einn af flm. að þessari till., er fyrst og fremst að minna á það í leiðinni að gefnu tilefni, að við megum náttúrlega ekki vanmeta þær miklu samgöngubætur sem hafa verið gerðar þegar á Vesturlandi. Ég minni á stærsta átak sem hefur verið gert í samgöngumálum hér á landi, þ.e. brúna eða veginn yfir Borgarfjörð. Ég geri ráð fyrir að allir Íslendingar viðurkenni að þarna er vissulega um verðugt stórvirki að ræða sem á eftir að verða stolt okkar í samgöngumálum á komandi árum. Með því varanlega slitlagi sem þegar er komið, er þarna um stórkostlegan áfanga að ræða sem allir hljóta að gleðjast yfir. Hann er ekki aðeins gífurleg samgöngubót fyrir Vesturland, heldur einnig fyrir Vestfirði og Norðurland og raunar landið í heild. Þessi samgöngubót, sem þarna er að ljúka, mun tengja saman byggðir Vesturlands og gera margt auðveldara í framtíðinni en við höfum til þessa staðið frammi fyrir.

Ég tel, og tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að svona mál eigi að verða okkur hvati til áframhaldandi átaks og til að taka bjartsýnar ákvarðanir í samgöngumátum þjóðarinnar. Ég tel að eitt brýnasta verkefnið, og hef raunar sagt það áður í þessum ræðustól, sé núna að hefja markvissa sókn að því að gera stórvirki í vegamálum í landinu. Þetta er örugglega hægt. Sem betur fer veit ég að næstu daga kemur fram á hv. Alþ. stefnumörkun í sambandi við lagningu vega eða vegagerð næstu ára sem byggð er á nákvæmri úttekt með nýrri vinnuaðferð sem Vegagerðin hefur verið að vinna eftir. Ég er ekki í neinum vafa um að hv. alþm. verða sammála um og sameinast um að marka slíka stefnu og vinna eftir henni. Þetta er mál nútímans og mál framtíðarinnar. Ég tel að þetta sé eitt af stærri málum sem við alþm. þurfum að sameinast um og raunar þjóðin öll að koma til skila. Árangur þess, hvort sem við köllum það arðsemi eða annað slíkt, lætur ekki á sér standa.

Í því sambandi tel ég eðlilegt að svona till. á rétt á sér, þó að mönnum finnist kannske of mikið í lagt. Þessi mál þurfum við að skoða, og við eigum ekki að vera feimnir við að láta fara fram athugun og úttekt á stórvirki á þessu sviði, jafnvel þó að við teljum að í dag sé takmarkið eitthvað fjarlægt. Þess vegna vonast ég til að þessi till. fái að fara gegnum þingið með nokkrum hraða og það verði verk næstu ára að láta gera nýja athugun á því, hvernig við gætum fundið bestu úrlausn þess að stytta leiðina um Hvalfjörð.

En ég endurtek að við hljótum allir að vera samtaka um að hrinda fram stórátaki í varanlegri vegagerð á Íslandi næstu árin.