18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4561 í B-deild Alþingistíðinda. (4730)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég fagna því, að þetta frv. skuli fram komið frá ríkisstj. Það gefur vonir um að betur verði að þessum málum staðið á næstu árum en hingað til, þar sem ekki hefur verið staðið við þær áætlanir sem gerðar hafa verið um símavæðingu strjálbýlisins. Ég vil vænta þess, að ríkisstj. og stjórnarsinnar sýni þessari stofnun og þjóðinni þá virðingu að standa við það, sem felst í þessu frv., við gerð næstu fjárlaga, en láta örlög þessarar áætlunar ekki verða sömu og þeirra framkvæmdaáætlana sem gerðar hafa verið um síma í strjálbýli, t. d. á þessu ári, svo að ekki sé nú minnst á örlög vegáætlunar, en það lætur nærri að fjórðu hverri krónu sé stolið eftir að sá maður er orðinn fjmrh. sem var samgrh. þegar vegáætlunin var gerð.

Ég vil sem sagt vænta þess, að hugur fylgi máli hjá ríkisstj. þegar hún flytur þetta mál, og vil lofa henni því, að ekki mun standa á Sjálfstfl. að reka á eftir hæstv. ríkisstj. að standa við loforðin við gerð fjárlaga framvegis.