18.05.1981
Neðri deild: 99. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4565 í B-deild Alþingistíðinda. (4737)

283. mál, lagning sjálfvirks síma

Magnús H. Magnússon:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Vestf., að skattlagning á símaþjónustu hér á landi er óheyrilega mikil. Tollar á flestum símavörum eru 85%, þó að búið sé að lækka tolla eða afnema á flestum öðrum vörum. Síðan er lagður á söluskattur í innflutningi og svo þegar notandinn á að fara að borga þennan fjármagnskostnað, því að verulegur hluti af öllum þeim greiðslum sem við greiðum fyrir símaþjónustu er greiðsla fyrir fjármagnskostnað, borgum við aftur söluskatt. Söluskattur er m. ö. o. innheimtur tvisvar og 85% tollur af vörunum þar að auki. Ég hugsa að það nálgist það að önnur hver króna, sem við borgum í símagjöld, sé beinn skattur til ríkisins. Ekki vantar mikið á það.

Auðvitað verða smástöðvarnar lagðar niður. Það tilheyrir hagræðingu, en það er rétt hjá hv. 1. þm. Vestf., að það verður að gerast þannig að fólkið missi ekki af þjónustu, að séð verði fyrir sæmilegri þjónustu þangað til viðkomandi svæði fær sjálfvirkan síma.

Hv. 3. þm. Reykv. hafði ýmislegt á hornum sér. Sumt af því er ekki sagt af miklum kunnugleika á málefnum Pósts og síma. Hann talaði t. d. um að Póst- og símaskólinn væri óþarfur. Þar er ég honum alls ekki sammála. Þessi mál eru öll orðin svo sérhæfð og flókin að þau verða ekki kennd í almennum skólum, nema þá með a. m. k. jafnmiklum tilkostnaði eða meiri en hjá Pósti og síma. Það eru engir sérfræðingar í þessum málum starfandi í landinu nema hjá Pósti og síma eða a. m. k. mjög fáir. Þá á ég ekki bara við það að gera við símatæki eða því um líkt. Það geta allir lært. En þegar komið er í mikinn og flókinn rafeindabúnað eru þeir verkfræðingar, sem eru á því sviði, starfandi hjá Pósti og síma og ekki annars staðar. (Gripið fram í.) Nei, nei, það er allt frá því að vera einföld símatæki, þau eru mjög einföld, venjuleg símatæki í heimahúsum, upp í sjálfvirkar stöðvar og rafeindabúnað þeim tengdan.

Ég lýsi fullum stuðningi við það frv. sem hér er til umr.