11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

10. mál, samgöngur um Hvalfjörð

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að taka undir við hv. 3. þm. Reykv. í sambandi við það sem hann sagði um samgöngumálin almennt. Ég er honum fyllilega sammála um að ég tel að við eigum ekki að vera feimnir við að taka erlend stórlán til að ná verulegum áfanga í varanlegri vegagerð í landinu.

Ég vil benda á það sem ég sagði áðan, að þær upplýsingar, sem væntanlegar eru á borð þm. frá Vegagerð ríkisins og samgrn., sýna einmitt fram á að stórátak er mögulegt. Ný aðferð hefur verið tekin upp í sambandi við skýrslugerð um stofnbrautakerfi landsins, tölvuunnin, sem gerir einmitt mögulegt að taka fyrir stóráfanga á þessu sviði. Það vantar okkur, því það hefur verið þannig á undanförnum árum að jafnvel þó að Alþ. vildi leggja 1 eða 2 milljarða í ákveðinn veg, t.d. eins og að tengja Vestfirði við landsvegakerfið, eins og stundum er sagt, þá hefur það ekki verið hægt vegna þess að nákvæm úttekt á landssvæðinu, sem vegurinn á að liggja um, hefur ekki farið fram. Það er einmitt þetta sem nú er að sjá dagsins ljós, og það verður til þess að Alþ. getur tekið stærri ákvarðanir á sviði samgöngumála en hingað til hefur verið fært.

Í sambandi við tilraunir Vegagerðarinnar vil ég segja það, að ég tel að þær séu góðra gjalda verðar. Vegagerðin hefur verið með ákveðnar tilraunir í gangi í sambandi við það sem frændur okkar í Noregi, Norðmenn, hafa framkvæmt hjá sér í mörg ár á þeim vegum þar sem minnst hefur verið umferðin, svokallað Ottadekk, og þetta hefur reynst betur hjá okkur miðað við 200 bíla umferð á dag en menn þorðu að vona. Það þarf ekki annað en líta á veginn undir Hafnarfjalli því til sönnunar. Við getum því einnig notað þessa reynslu í stórframkvæmdum á þessu sviði.

Það hafa verið fluttar á undanförnum árum þáltill. um 10 ára áætlun, 15 ára áætlun o.s.frv. Þessar till. hafa venjulega lent í ruslakörfu Alþingis. En ég vænti þess og vil endurtaka það sem ég sagði áðan, að nú sé tími til kominn að taka saman höndum og gera eitthvað stórt í þessum málum. Frumkvæði samgrn., sem væntanlega verður lagt fyrir þingið af núv. samgrh., ætti að geta orðið til þess að við getum sameinast um skynsamlegar aðgerðir næstu ára í þessu veigamikla máli.