19.05.1981
Efri deild: 110. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4574 í B-deild Alþingistíðinda. (4762)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. 1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Mál þetta, sem hér um ræðir, frv. til l. um breyt. á skattalögum, er komið frá Nd. og var unnið að afgreiðslu málsins sameiginlega af hv. fjh.- og viðskn. Nd. og Ed. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að þakka meðnm. mínum og sérstaklega hv. 3. þm. Austurl., Halldóri Ásgrímssyni, fyrir gott samstarf sem leiddi til þess, að þetta frv. er í veigamiklum atriðum miklu betra en það var þegar hæstv. ríkisstj. lagði það fram og að með samvinnu fjhn.- og viðskn.-manna var hrundið þeirri sérstöku aðför að atvinnuvegunum sem í frv. fólst eins og það kom frá hæstv. ríkisstj. En eins og kunnugt er var gert ráð fyrir að skerða verulega heimildir atvinnuveganna til fyrninga með frv. eins og það var frá hendi hæstv. ríkisstj. En þessari sérstöku aðför tókst að hrinda og er víst nóg um skilningsleysi og öfugstefnu hæstv. ríkisstj. í atvinnumálum, þó þetta hefði ekki bæst við.

Hæstv. ráðh. sagði við 1. umr. að þetta frv. væri fyrst og fremst fram komið til þess að efna loforð ríkisstj. um skattalækkun, en eins og kunnugt er lofaði hæstv. ríkisstj. því að lækka óbeina skatta þannig að það svaraði til 1.5% í kaupmætti. Því miður verð ég að segja að þetta stefnumark ríkisstj. virðist vera eins og annað, að þar sé nánast um öfugmæli að ræða. Fyrir liggja opinberir útreikningar Þjóðhagsstofnunar á því, að náist markmið ríkisstj. um verðbólgu og launahækkun á yfirstandandi ári aukist ekki kaupmáttur þess sem eftir er í launaumslaginu þegar búið er að greiða beinan skatt. Þetta liggur fyrir. En auk þessa hækka margvíslegir óbeinir skattar. Eignarskattur hækkar. Það er að vísu beinn skattur, en hann hækkar óyggjandi og eins orkujöfnunargjald. Það var lagt á í fyrra hluta úr árinu, leggst á allt árið í ár. Þar er í raun um 1.5% söluskattsauka að ræða. Það eykur skattbyrðina á þessu ári. Innflutningsgjald á sælgæti, hið margfræga gotterísgjald eða negrakossagjald sem ríkisstj. lagði á, er nýr skattur í ár, en ríkisstj. hefur hrakist frá einu víginu í annað með þessa skattheimtu, en eftir stendur þó að hún eykur skattbyrðina á þessu ári. Og þá er síðast en ekki síst áform ríkisstj. um að hækka bensínskatta verulega þriðja árið í röð að raungildi.

Hækkun þessara óbeinu skatta er veruleg á þessu ári, nokkrir milljarðar gkr., sennilega einhvers staðar á milli 10 og 15 milljarða heildarhækkun skattbyrðarinnar vegna þessara óbeinu skattahækkana, og það er áreiðanlega ekki ofáætlað. Hæstv. ríkisstj. stefnir því enn að skattahækkunum — heildarskattahækkunum — þriðja árið í röð og svo mjög að séu þær skattahækkanir metnar, sem skollið hafa yfir síðan 1978, mun hver einasta fjölskylda, fjögurra manna fjölskylda — greiða um 1.5 millj. gkr. á þessu ári hækkaða skatta af völdum þeirra ríkisstj. sem setið hafa síðan.

Það er einkar athyglisvert þegar rætt er um skattbyrði og kaupmátt launa, en ríkisstj. segist með þessu frv. vera að koma til móts við menn í kaupmætti launa, hvað um þetta er sagt í nýútkomnu hefti Þjóðhagsstofnunar sem heitir Úr þjóðarbúskapnum, framvinda 1980 og horfur 1981. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta orðrétt:

„Um árið í ár, skattbyrðina í ár og ráðstöfunartekjur í ár. Á þessum forsendum um þróun tekna á árinu 1981, sem áður er getið, hefur þetta í för með sér að á árinu 1981 verða álagðir skattar sem hlutdeild af tekjum ársins um 0.5% lægri en á árinu 1980. Skattbreytingin er hins vegar töluvert mismunandi eftir hæð tekna. Á tekjum undir meðallagi er skattalækkunin meiri en hjá heildinni, en á háum tekjum þyngist skattbyrðin hins vegar. Samkv. þeim forsendum og áætlunum, sem hér hafa verið raktar, munu ráðstöfunartekjur aukast nokkru meira en heildartekjur eða um 53–54%, kaupmáttur ráðstöfunartekna ykist því lítið eitt í heild, en yrði á mann svipaður og á s. l. ári. Kaupmáttur kauptaxta yrði hins vegar 2% minni í ár en í fyrra.“

Hér er Þjóðhagsstofnun að reikna með því, að í ár verði verðbólga og launabreytingar frá ársbyrjun til ársloka ekki nema 40%, eins og hæstv. ríkisstj. segir. Raunar sagði hún það sama í fyrra, þannig að hún hjakkar að þessu leyti í sama farinu. En það fór öðruvísi í fyrra eins og menn muna. En takist að ná þessu markmiði hæstv. ríkisstj. hefur Þjóðhagsstofnun að okkar ósk í fjh.- og viðskn. reiknað út skattbyrðina á árinu í ár og þá kemur út úr dæminu að skattbyrði beinna skatta verður nánast sú sama og í fyrra. Þetta liggur skjalfest fyrir, þetta plagg frá Þjóðhagsstofnun hefur verið birt með nál. okkar sjálfstæðismanna í Nd., og um það þarf nánast ekki að fjölyrða meir.

Þetta þýðir í raun að ráðstöfunartekjur munu minnka, kaupmáttur ráðstöfunartekna mun minnka verulega annað árið í röð í mesta góðæri sem yfir okkur hefur komið nú síðustu ár. Og hvað segir um skatta og ráðstöfunartekjur á árinu í fyrra í þessu hefti Þjóðhagsstofnunar? Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Endanlegar tölur um álagningu beinna skatta einstaklinga árið 1980 eru ekki fyrir hendi þegar þetta er ritað. En á grundvelli fyrirliggjandi gagna er áætlað að álagningin í heild hafi hækkað heldur meira en tekjur, eða um 58%. Þar af er áætlað að álagðir skattar til ríkisins, tekjuskattur, eignarskattur og sjúkratryggingagjald, hafi hækkað um 52–53%, en skattar til sveitarfélaga, útsvar og fasteignaskattar, hafi hækkað um nær 63%. Samkv. þessu er talið að skattbyrði hafi þyngst heldur frá í fyrra og hafi álagðir beinir skattar einstaklinga numið 13.7% af tekjum á árinu 1980 samanborið við 13.3% á árinu 1979.“

Þetta er að vísu varlega sagt hér hjá Þjóðhagsstofnun því það munar allverulega um það hvort skattbyrðin er 13.7% af tekjum eða 13.3%. Áfram segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðstöfunartekjur, þ. e. heildartekjur að frádregnum beinum sköttum, eru því taldar hafa aukist heldur minna en heildartekjur á s. l. ári eða rösklega 53%, en á mann var aukningin 51.5%.

Af því, sem hér hefur verið rakið um þróun tekna og verðlags á síðasta ári, má ráða að kaupmáttur kauptaxta hafi að meðaltali verið tæplega 5% minni en árið áður á mælikvarða framfærsluvísitölu. Kaupmáttarrýrnunin frá upphafi til loka árs var þó minni eða um 2.5% og valda þar áhrif kjarasamninganna undir lok ársins.

Kaupmáttur heildartekna,“ segir enn í þessari skýrslu, „minnkaði um tæplega 3% í fyrra á mann miðað við vísitölu framfærslukostnaðar eða um 1.5% miðað við verðlag einkaneyslu. Kaupmáttur ráðstöfunartekna er í heild talinn hafa orðið 2% minni í fyrra en árið áður en 3% minni á mann miðað við verðlag einkaneyslu, samanborið við 2.5% aukningu 1978 og 1979.“

Hér er því sagt að hæstv. fjmrh. hafi farið með rangt mál í fyrra þegar hann sagði æ ofan í æ í þessari hv. deild að það yrði ekki um íþyngingu að ræða í beinum sköttum. Hann sagði það æ ofan í æ. Og hæstv. talsmenn ríkisstj. hafa ekki minnst á eða mótmælt því, að það hafi orðið kaupmáttarrýrnun í fyrra á allan mælikvarða: 5% ef um kauptaxtaviðmiðun er að ræða, 2.5% ef um ráðstöfunartekjur er að ræða. Og þetta gerist þegar þorskaflinn vex úr 360 þús. tonnum 1979 í 426 þús. tonn, og þetta gerist þegar sjávarafurðaframleiðsla eykst um 10`%, þjóðarframleiðsla vex um 2.5% og þjóðartekjur hækka, þó þær hækki aðeins minna en þjóðarframleiðslan vegna viðskiptakjararýrnunar sem var minnst á þessu ári í mörg ár. En þjóðartekjur hækka um 1.2% þegar búið er að draga frá viðskiptakjararýrnunina. Þetta eru afrek í lagi! Í því árferði sem aflaaukning verður slík sem ég hef hér rakið og þjóðarframleiðsla, þá verður kaupmáttarrýrnun á alla mælikvarða. Þrátt fyrir lengstu kjaradeilu, sem verið hafa í langan tíma, og verkalýðsleiðtogar lýstu að þeir hefðu náð þar fram 9% kauphækkun að meðaltali, verður á þessu ári, þ. e. árinu í fyrra, stórfelld skattahækkun og rýrnun kaupmáttar alls almennings í landinu, mæld á alla mælikvarða. Og hæstv. ríkisstj. kemur enn og segir: Nú ætlum við að lækka skatta til þess að draga úr kjaraskerðingunni sem við framkvæmdum með brbl. um áramótin. Þið fáið skattalækkun upp á móti. — Ætli það reynist ekki svipað með það loforð hjá hæstv. fjmrh. og í fyrra þegar hann sagði að þá mundu skattar ekki hækka.

Ég hef rakið það hér eftir opinberum gögnum hver þessi þróun hefur orðið. Og því miður er ekki annað fyrirséð en að á þessu ári verði enn kjararýrnun. En þetta væri kannske gott og blessað ef það hefði á einhvern hátt tekist að minnka verðbólgu í landinu. Menn segja: Það stefndi í 60–70% verðbólgu á þessu ári og við björguðum því með 7% skerðingu verðbóta á laun 1. mars. Það er nokkuð til í þessu. En er þetta ekki bara dæmi um hvernig hæstv. ríkisstj. hagar sínum málflutningi? Síðast á árinu í fyrra fór allt úr böndunum hjá henni. Í staðinn fyrir, að hún var að tala þá um 40% verðbólgu, jafnvel enn þá minni, varð hún nærri 60%. Síðan hælir hún sér af því og telur að hægt sé að telja fólki trú um að það þurfi að taka á sig þessa kjaraskerðingu einvörðungu til þess að stemma stigu við þessu verðbólguflóði og hjakka í sama farinu og í fyrra. En þá sagði hæstv. ríkisstj. þegar hún settist að völdum, að það yrði hennar aðalverkefni í efnahagsmálum að ná tökum á þeirri geigvænlegu verðbólgu sem þá ríkti. Ég verð satt að segja að segja það við þessa umr., þegar verið er að ræða um að hæstv. ríkisstj. sé með skattalækkun til að draga nokkuð úr kjaraskerðingunni sem hún framkvæmdi um áramótin, að þar er um að ræða sömu öfugmælavísurnar og ríkisstj. hefur setið við að yrkja frá því hún settist að völdum. Það sakar ekki að geta þess, eins og maðurinn sagði einu sinni í munnlegu prófi, að þetta er ekki það eina sem fer úrskeiðis og hallast á í stefnu hæstv. ríkisstj. í efnahagsmálum. Ég minni aðeins á í viðbót við það sem ég hef gert hér, og það sýnir náttúrlega hvert stefnir, að hæstv. ríkisstj. eykur erlendar lántökur til opinberra þarfa, til þarfa ríkissjóðs og opinberra fyrirtækja, um 1 milljarð nýkr. á þessu ári, 100 milljarða gkr. Það er 105% hækkun á erlendum lántökum frá því í fyrra, á ári sem er samdráttur í stórframkvæmdum, orkuframkvæmdum og stóriðnaðarframkvæmdum í landinu.

Þannig hallast ekki á að hæstv. ríkisstj. hrekst frá einum bráðabirgðaúrlausnunum til annarra, slær erlend lán til þess að bjarga sér í bili og framtíðin þarf svo að borga. Hún er alveg dæmigerð bráðabirgðaríkisstj. sem hefur ekki leyst neinn vanda, en það versta er að óstjórnin á öllum sviðum hefur komið niður á fólkinu eins og ég hef hér rakið.

Við fulltrúar Sjálfstfl. höfum leyft okkur að flytja nokkrar brtt. við þetta frv., en það vill svo til að við sumir hverjir viljum halda okkur við okkar grundvallarstefnu í skattamálum. Það er grundvallarstefna okkar sjálfstæðismanna í skattamálum, að sköttum verði stillt svo í hóf að þeir lami ekki athafnaþrá manna. Í því sambandi höfum við talið að heildarskattprósenta ætti ekki að fara upp fyrir 50%. Við höfum líka verið þeirrar skoðunar, að tekjuskatta bæri að afnema í áföngum á almennum launatekjum og á meðan því er ekki lokið verði tekjuskattar lækkaðir verulega á þeim lægst launuðu og aukið svigrúm til þess að nýta persónuafslátt til greiðslu opinberra gjalda. Það er að vísu komið nokkuð til móts við þetta sjónarmið í frv. eins og það kemur frá Nd., því þar er heimilað að nýta persónuafslátt til greiðslu útsvars. En því miður er ekki nægjanlega gengið í þessa átt að öllu leyti. Þá erum við sjálfstæðismenn þeirrar skoðunar, að skattar eigi ekki að vera með þeim hætti, að þeir letji fólk til þess að byggja eða búa í eigin húsnæði, og að sjálfsögðu að skattar á fyrirtæki hamli ekki gegn æskilegri uppbyggingu og framþróun atvinnulífsins.

Í samræmi við þessi sjónarmið okkar sjálfstæðismanna eru brtt. fluttar á sérstöku þskj. sem ég skal gera stutta grein fyrir.

1. brtt. gerir ráð fyrir að arður af hlutafé sé skattfrjáls eins og um sparifé væri að ræða, og auk þess er í till. gert ráð fyrir að hlutafé verði eignarskattsfrjálst. Hér er um að ræða að skattleggja hlutafé á hliðstæðan hátt og sparifé, og ég vek athygli á því, að að undanförnu hefur sparifé í vaxandi mæli verið verðtryggt. Það þýðir að sjálfsögðu að fólk velur fremur að leggja fé sitt í banka en atvinnulífið, ef skattar eru hærri ef fólk velur það sparnaðarform að leggja sparifé sitt beint í atvinnulífið.

Þá er í 2. brtt. gert ráð fyrir að gjöld af skuldum við Lánasjóð íslenskra námsmanna, þ. e. vextir og verðbætur, verði frádráttarbær eins og um væri að ræða lán sem hefur verið notað til öflunar íbúðarhúsnæðis eða til endurbóta á því. Við teljum að ef námsmaður hefur fengið lán úr lánasjóði sé um að ræða nokkurs konar fjárfestingu og því eigi að fara með fjármagnsgreiðslur eða fjármagnskostnað af slíkum lántökum á svipaðan hátt og um fjárfestingu í öðru sé að ræða, námsmönnum sé a. m. k. ekki mismunað miðað við að fjárfesta í steinsteypu.

Í 3. brtt. er gert ráð fyrir að sú flýtifyrning, sem í lögum nú er 50%, verði það áfram í stað þess að frv. gerir ráð fyrir að breyta þessari prósentu í 40%. Það tókst ekki að fá fram þessa leiðréttingu í Nd. Að vísu er í lögum nú sérstök flýtifyrning sem undir vissum kringumstæðum er hægt að beita, og hún er nú 4%, en við frv. hefur verið samþykkt brtt. um 6%. Við teljum á hinn bóginn að það sé mikilvægt fyrir atvinnulífið að halda þessari fyrningarprósentu sem er í lögum, þ. e. 50%.

Í 4. brtt. er að finna þá skattstiga sem við leggjum til að skattlagning byggist á. Þar er miðað við skattbyrðina 1977 þegar ríkisfjármálin voru undir forustu Sjálfstfl. Við teljum að þar sé um að ræða þá skattlagningu sem við séum reiðubúnir að standa að.

Í 5. brtt. er gert ráð fyrir að ónotaðan persónuafslátt sé ekki aðeins hægt að nota til greiðslu á útsvari, heldur líka á öðrum opinberum gjöldum sem viðkomandi er ætlað að greiða.

Þá er í 6. brtt. gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila verði 53%. Það er sama hlutfall og var 1977.

Og í 7. brtt., þ. e. við 28. gr., er lagt til að við bætist heimild um sérstaka meðferð á hlutafé.

Herra forseti. Að öðru leyti eru þessar brtt. þannig að þær þarfnast ekki nánari skýringa. Í þeim er verið að leitast við að koma fram okkar skattstefnu og ég tel ekki ástæðu til að rekja þær öllu nánar. Það má þó geta þess, að í 7. brtt., sem er nánast leiðrétting, er gert ráð fyrir að eignarskattur manna, sem skattskyldir eru samkv. 1. gr., svo og þeirra íslensku ríkisborgara, sem búsettir eru erlendis um stundarsakir og skattskyldir eru samkv. 3. gr., reiknist eins og þar segir, en þar er gert ráð fyrir að þeir njóti líka skattfrjálsrar upphæðar að ákveðnu marki. En eins og lögin eru nú munu þeir ekki, íslenskir ríkisborgarar, njóta neinna skattfrelsismarka, þ. e. af fyrstu ákveðnu milljónunum í eign. Þeir fá ekki neinn slíkan frádrátt að óbreyttum lögum.

Ég hef, herra forseti, gert grein fyrir þessum brtt. að svo miklu leyti sem ástæða er til, og eins og ég sagði áðan eru þær í samræmi við grundvallarstefnu okkar sjálfstæðismanna í skattamálum. Þessar brtt. þýða að sjálfsögðu nokkurt tekjutap fyrir ríkissjóð. Við höfum áður sagt að við værum reiðubúnir að taka þátt í því með öðrum flokkum hér á hinu háa Alþingi að standa að niðurskurði ríkisútgjalda á móti, þannig að hallarekstur þyrfti ekki að vera á ríkissjóði þegar til lengdar lætur ef slíkar till. yrðu samþykktar.

Þá vil ég að lokum geta þess, að ég mun við 3. umr. vekja athygli á smáósamræmi, sem er í framkvæmd skattalaga nú að því er varðar fiskimannafrádrátt og sjómannafrádrátt, og freista þess — með leyfi forseta að flytja þá skriflega brtt. sem ég tel að muni leiðrétta það misræmi sem er í þeirri framkvæmd.