19.05.1981
Efri deild: 111. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4584 í B-deild Alþingistíðinda. (4769)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm.1. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Mér er tjáð að skattalög séu þannig framkvæmd að því er varðar sjómannafrádrátt og fiskimannafrádrátt, að landmenn, sem eru annaðhvort lögskráðir eða ekki, en eru hlutaráðnir, fái ekki sjómanna- og fiskimannafrádrátt á sumum stöðum á landinu, en aftur á móti fái beitingarmenn hér á Suðvesturlandi og fleiri stöðum þennan sjómanna- og fiskimannafrádrátt. Þetta er nánast framkvæmdaratriði, er manni tjáð, en því miður hefur framkvæmdin verið þessum annmörkum háð, að mönnum er stórlega mismunað að þessu leyti.

Ég vil því freista þess að flytja hér skriflega brtt. við 30. gr. C-kafla 1. tölul. 1. málsgr., þar sem fyrir orðin: „Sama regla skal gilda um hlutaráðna sjómenn og landmenn enda þótt þeir séu ekki lögskráðir“ komi: Sama regla skal gilda um hlutaráðna sjómenn og landmenn við hvers konar fiskveiðar enda þótt þeir séu ekki lögskráðir“. Það yrði þá alveg ótvírætt samkv. lagagreininni, að landmenn, sem eru hlutaráðnir, eigi líka að fá sjómanna- og fiskimannafrádrátt, en svo mun ekki hafa verið t. d. að því er varðar landmenn nyrðra, við Eyjafjörð. Það mun hafa verið úrskurðað að þeir fái ekki slíkan frádrátt, á sama tíma sem beitingamenn á öðrum stöðum hafa fengið þennan frádrátt.

Herra forseti. Þessi till. er of seint fram komin og skrifleg og ég óska þess, að hún verði tekin á dagskrá með afbrigðum og til afgreiðslu.