19.05.1981
Efri deild: 111. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4584 í B-deild Alþingistíðinda. (4771)

290. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Í lögum hefur um nokkurt skeið verið heimild til að veita sérstakan skattfrádrátt þeim sem sjó stunda. Þar er um að ræða annars vegar sjómannafrádrátt og hins vegar fiskimannafrádrátt.

Í lögum hefur verið heimild til þess að veita þennan frádrátt hlutaráðnum landmönnum, eins og þeir eru nefndir í lögunum. Mér er tjáð af þeim, sem til þekkja hjá ríkisskattstjóraembættinu og í tekjudeild fjmrn., að þetta ákvæði hafi ávallt verið framkvæmt á þann veg, að einungis beitingamenn á línu hafi verið taldir hlutaráðnir landmenn. Þessi framkvæmd hefur byggst á upplýsingum frá sjútvrn. og sjómannasamtökunum, enda er gert ráð fyrir því og hefur verið gert ráð fyrir því í kjarasamningum sjómanna, að þessir aðilar geti verið hlutaráðnir landmenn, þ. e. beitingamenn á línu. Aðrir hafa ekki verið taldir hlutaráðnir landmenn. Af þessari ástæðu gerði ríkisskattstjóraembættið till. til fjmrn. á s. l. sumri, að í reglugerð yrði frá því gengið, að þetta hugtak yrði túlkað á þennan veg, og það var gert eins og mér er sagt að hafi verið gert mörg undanfarin ár meðan þessi frádráttur hefur verið í gildi.

Hv. þm. Sjálfstfl., Halldór Blöndal, vakti máls á þessu atriði í Nd. Þegar hann hafði bent á að hugsanlegt væri að netamenn, sem hlutaráðnir væru, ættu hliðstæðan rétt, kallaði ég á vettvang embættismenn frá ríkisskattstjóraembættinu og voru hér í þinghúsinu miklar umræður um þetta mál þar sem reynt var að átta sig á því til fullnustu, hvort hér væri um einhver rangindi að ræða. Niðurstaðan varð sú, að ekki væri hægt að hvika frá þeirri reglu sem um þetta hefði skapast á liðnum árum, en það væri verið að færa út regluna, útvíkka hana frá því, sem verið hefði, með því að hafa hana víðtækari með þessum hætti.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að í raun og veru er það mjög hæpin undantekning frá reglunni að menn, sem eru í landi, njóti frádráttar sem sérstaklega er ætlaður þeim sem stunda sjó. Þó að þeir hugsanlega stundi sjó í forföllum er ljóst að með því að gera þessa undantekningu varðandi menn, sem eru alfarið í landi, eru menn svona komnir út á nokkuð hálan ís og menn fara að velta fyrir sér: Á þá ekki þessi hópur, sem er í tengslum við útgerðina, að njóta þessa líka o. s. frv.? Hérna er t. d. komin fram till. um að allir þeir, sem eru ráðnir hlutaráðningu í tengslum við fiskveiðar, skuli njóta þessara réttinda. Mér sýnist á orðalagi þessarar tillögu, eins og hún liggur hér fyrir, að ekki mundi aðeins vera um að ræða að hlutaráðnir netamenn nytu þessa. Ég sé ekki betur en að ýmsir aðrir, sem ráðnir væru til útgerðar og á samningum um hlutaráðningu, eftir því hvernig aflaðist hjá útgerðarfyrirtækinu, gætu þá notið sömu skattfríðinda vegna þess að þeir væru í þjónustu viðkomandi útgerðarfyrirtækis og útgerðarmaðurinn hefði fallist á að greiða þeim hlut í afla. En ég dreg í efa að það hafi nokkru sinni hvarflað að mönnum, þegar þessi skattfríðindi voru fyrst sett í lög, að menn ættu almennt að njóta þessa ef þeir væru í þjónustu útgerðarfyrirtækis, óháð því hvort þeir fara á sjó eða ekki.

Ég sem sagt tel að það sé eðlilegt að framkvæma þessa reglu með hliðstæðum hætti og gert hefur verið á undanförnum árum. Og ef það er svo sem fullyrt hefur verið af nokkrum þm. Norðurl. e., að hlutaráðnir netamenn hafi notið einhverra skattfríðinda í gegnum þessa reglu, þá er mér sagt að það hafi verið á misskilningi byggt því að þetta hafi alla tíð verið bundið við hlutaráðna landmenn, þ. e. við hlutaráðna landmenn í skilningi kjarasamninga, beitingamenn á línu. Ég get því ekki annað gert en að andmæla þessari brtt. vegna þess að hún mundi færa okkur út á enn hálli ís en við erum þó með þessi skattfríðindi eins og þau liggja fyrir í dag.