19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4603 í B-deild Alþingistíðinda. (4794)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Það hafa stundum verið fleiri hv. alþm. viðstaddir umr. um vegáætlun á Alþingi, en vafalaust eru gildar ástæður fyrir því að með færra móti er nú.

Ég vil í upphafi harma það að umr. um vegáætlun fer fram áður en skilað hefur verið nál. fjvn. Það er aðeins búið að leggja fram nál. meiri hl. Mér vitanlega er nál. minni hl. ekki komið fram enn þá. Hins vegar gerði hv. frsm. minni hl. mjög glögga grein fyrir afstöðu hans í nefndinni.

Ég kem nú hér eins og hálfgerður álfur út úr hól, eins og varaþm. hættir til. Þó hef ég reynt nú á síðustu dögum að leggja mig eftir því sem verið hefur að gerast varðandi vegamál á hv. Alþingi að undanförnu. Ég hef komist að því, að til umr. í hv. fjvn. hafa verið í rauninni þrjú stór þingmál sem snerta vegamál, þ. e. tvær þáltill. um langtímaáætlun í vegamálum, önnur frá ríkisstj., en hin frá allmörgum sjálfstæðismönnum með hv. þm. Sverri Hermannsson í broddi fylkingar — auk vegáætlunar. Ég hef komist á snoðir um að gerð hefur verið tilraun í hv. fjvn. til þess að samræma sjónarmið þessara tveggja till. og það hefur m. a. verið til umfjöllunar í þingflokkum. Ég verð að segja það, að þær breytingar, sem lagt er til í nefndinni að gerðar verði til þess að samræma þessi tvö mál, eru að mínu mati allt of léttvægar til þess að hægt sé að fallast á þær. Það er kannske einna helst jákvætt að gert er ráð fyrir skemmri tíma sem áætlunin taki til í þessari málamiðlunartillögu. Það er farið í 12 ár í stað 20 í till. ríkisstj. Það er gefið í skyn að lágmarksprósenta af vergri þjóðarframleiðslu verði hækkuð úr 2.1% í 2.4%, en að öðru leyti finnst mér það mikill mismunur á þeirri stefnumörkun, sem fram kemur í þessum tveimur till., að ég fyrir mitt leyti gæti ekki fallist á þessa málamiðlun.

Það vekur athygli m. a. hve miklu meira fjármagn er ætlað að veita til vegamála samkv. till. okkar sjálfstæðismanna, og það er ekki einasta að nefndar eru fjárhæðir, heldur er og gerð grein fyrir fjáröflun, hvernig hún skuli fara fram, sem ég hef ekki fundið hins vegar í till. ríkisstj. En í till. okkar sjálfstæðismanna er lagt til að fjármögnun fari fram með ýmsum hætti: úr Vegasjóði, úr Byggðasjóði, með happdrættislánum og með innflutningsgjaldi af bifreiðum.

Það er talið í grg. með þessari bræðingstillögu, sem við sáum í gær, að till. okkar sjálfstæðismanna mundi þýða fjórfalt meira fjármagn til vegamála en gert er ráð fyrir í till. ríkisstj. Það má segja að þetta sé kannske fullmikil bjartsýni. En við þurfum á bjartsýni og stórhug að halda í stefnumótun og framkvæmd okkar vegamála. Hana finn ég því miður ekki í till. ríkisstj., þó að vissulega sé gleðilegt að það er þó velvilji og áhugi á að gera eitthvað umfram það sem verið hefur undanfarin ár þegar vegamálin hafa staðnað og þegar þau ósköp hafa gerst, að ríkissjóður fer ránshendi um það fé, bensíngjald og skatta af bifreiðum, sem Vegasjóður á alla vega siðferðilega allan rétt til. En það kom fram hjá hv. 3. þm. Norðurl. e., Lárusi Jónssyni, að þetta skatthlutfall ríkissjóðs hefur hækkað um 35–36% frá því árið 1978, og hann benti á, ef ég hef heyrt rétt, nál. hafði ég ekki, að hefði sama skatthlutfall ríkissjóðs í bensíngjaldi gilt nú og árið 1978 hefðum við 4.4 milljarða gamalla króna meira úr að spila nú heldur en raun ber vitni.

Annað, sem ég vil benda á, er það ákvæði í till. ríkisstj., sem ég hygg að vegáætlun nú byggist á, en það er þetta með bundna slitlagið og að vegir séu byggðir upp úr snjó. Í till. ríkisstj. er talað um að vegir séu byggðir upp úr snjó eftir því sem unnt er. Í till. okkar sjálfstæðismanna er þarna miklu skýrar og ákveðnar komist að orði, þannig að ég tel meiri tryggingu fyrir að sinnt sé þessu höfuðverkefni vegamála í okkar dreifbýli, að byggja upp úr snjó vegi sem árum og áratugum saman hafa verið í rauninni vegleysur og teppa umferð vikum og mánuðum saman ár hvert og einangra fólk í sínum byggðarlögum.

Það hefur löngum verið nokkuð hörð barátta hér á Alþingi fyrir þessu sjónarmiði. Ég hef talið mig í hópi þeirra þm., meðan ég sat á þingi, sem lögðu áherslu á að þessum þætti mættum við ekki gleyma í áhuga okkar á að leggja bundið slitlag á hringveginn svokallaða og á fjölförnustu vegina, svo sjálfsagt markmið og ágætt sem það er í sjálfu sér. Ég minnist ummæla á þá leið, það var raunar maður utan þings sem lét um mælt eitthvað á þá leið, að vegagerðarmenn ættu að hætta að hlaupa út um allar koppagrundir og leggja búta, við ættum að beita okkur að stóru verkefnunum.

Við, sem erum fulltrúar hinna dreifðu byggða, gerum okkur fulla grein fyrir því, og það ættu fleiri að gera, að þegar við tölum um svokölluð byggðamál kemur þar fleira til heldur en kaup á skuttogurum og bygging frystihúsa. Við vitum að frumskilyrði fyrir þolanlegu byggðajafnvægi í landinu eru góðar samgöngur. Það eru haldnir skólar úti í dreifbýlinu yfir veturinn, það þarf að aka börnum frá heimili til skóla, læknar og hjúkrunarfólk þarf að komast leiðar sinnar til að sinna sínum verkefnum á sviði heilbrigðisþjónustunnar og öll félagsleg samskipti fólks byggjast að sjálfsögðu á því, að það geti komið saman með einhverju móti til að sinna félagslegum verkefnum. Þetta liggur að sjálfsögðu í augum uppi, en vill stundum gleymast þegar einblínt er um of á þetta ágæta og þarfa verkefni: að hraða lagningu slitlags á fjölförnustu vegina.

Það er talað um arðsemi vega og að hún skuli miðast við 100 bíla umferð á dag allt árið um kring. Ég held að með þessu móti væru margir vegir, sem endurbóta þurfa með, dæmdir úr leik. Ég vil minna á aðeins eitt atriði í þessu sambandi, að eftir þungfærum og illa byggðum vegum fer sums staðar daglega fram akstur milljónaverðmæta af fiskafurðum sem keyra þarf frá fiskibæ til útskipunarhafnar, og fleira og fleira getum við nefnt þessu sjónarmiði til stuðnings.

Framsfl. hefur jafnan talið sig hinn eina sanna málsvara dreifbýlis og ég held jafnvel að sumt fólk trúi þessu, svo vitlaust sem það er þegar við lítum á framkvæmdina í gegnum árin og hvernig uppbygging atvinnulífs á Íslandi upphófst fyrir frumkvæði sjálfstæðismanna á Alþingi fyrir um aldarfjórðungi.

Ég kemst ekki hjá því að ég vona að það fyrirgefist mér, því að ég hef ekki haft tækifæri til að taka þátt í almennum umr. hér í vetur, að ég minnist hér á örfá mál sem í rauninni tengjast þó þessu lífshagsmunamáli, vegamálunum. Það eru ýmis önnur mál sem eru til umfjöllunar á þingi nú og mætti tengja hér við.

Mér dettur í hug sveitarafvæðingin sem á að sinna því að ljúka að rafvæða sveitir landsins. Á þessu ári er gert ráð fyrir 1 millj. til nýframkvæmda á þessu sviði, að vísu að viðbættum 4 öðrum millj. til þess að leggja heimtaugar á bæi þar sem línan sjálf hefur verið lögð, þ. e. til þess að ljúka verkefnum sem þegar eru í gangi. Hinir bæirnir, sem ekki eru víst orðnir ýkjamargir, mega enn sitja með sitt dísilrafmagn, og ég þarf ekki að skýra út hvaða kostnaðarauka það hefur svo ljóst sem það er öllum landsmönnum.

Í annan stað vil ég nefna sjónvarpið okkar. Við erum með á borðum skýrslu frá menntmrh. þar sem ljótur sannleikur kemur í ljós sem raunar er mikið búið að fjalla um. Tolltekjum Ríkisútvarpsins, sem á sínum tíma, þegar litvæðing sjónvarpsins hófst hér, áttu samkvæmt samkomulagi og ákvörðun að ganga til þess að ljúka því að koma sjónvarpi til allra landsmanna, hefur öllum verið rænt af Ríkisútvarpinu. Á s. l. ári nemur þessi upphæð í gkr. 14 milljörðum og rúmlega þó. Þeir menn, sem fjalla um framkvæmdir á vegum sjónvarpsins, fullyrða að hefði verið staðið við það, sem lofað var um tolltekjur til uppbyggingar dreifikerfis sjónvarpsins, þá væri þessu verkefni lokið nú. En nú er langt í land því miður, þó að nokkrir tilburðir séu sýndir, m. a. í lánsfjáráætlun, til þess að krukka eitthvað í vandamálið eins og það stendur enn.

Ég veit um tvo sveitahreppa þar sem 10–20 bæir hafa enga sjónvarpsglætu. Þeir eru ekki á áætlun í ár og þeir eru ekki á svokallaðri viðbótaráætlun sem lánsfjáráætlun með heimild gerir ráð fyrir að komi til viðbótar því sem ætlað var á fjárlögum. Þetta hefur gleymst hjá dreifbýlisvinunum og alþýðuvinunum í núv. ríkisstjórn.

Ég vil í fjórða lagi minna á lítið mál sem er nýbúið að afgreiða frá nefnd í Ed. Það fjallaði um afnám söluskatts á flutningsgjald. Allir eru sammála um að þarna sé sjálfsagt réttlætismál á ferðinni, en framsóknarmenn og kommúnistar í Ed. létu sig hafa það að afgreiða það úr nefnd þannig að því yrði vísað til ríkisstj. og þar með svæft í bili. En málið getur vaknað aftur, það skulu þeir hv. þm. vita, þeir hv. dreifbýlisþingmenn sem gátu látið sig hafa það að afgreiða málið með þessum hætti.

Við vorum í gær að afgreiða lög frá Alþingi um sjálfvirkan síma, um símavæðingu sveitanna. Ég fagna því og ég greiddi því atkvæði af heilum hug. Það er gert ráð fyrir fimm ára áætlun um að ljúka þessu verkefni. Þetta er að vísu heimildarfrv. eins og margt af þeim lögum sem verið er að afgreiða nú, það má helst hvergi tala skýrt. Það er heimild til að veita fjármagn til þessa eða hins verkefnisins. En við spyrjum okkur: Hvaða trygging er fyrir því, að staðið verði við þessa áætlun? Hvaða tryggingu höfum við fyrir því eftir það sem á undan er gengið og eftir þá fjármálastjórn sem við höfum horft upp á og horfum upp á enn í dag undir forræði kommúnistans, hæstv. fjmrh. Ragnars Arnalds.

Ég hef verið að tala hér um dreifbýlisvinina, framsóknarmenn, og að sjálfsögðu vil ég ekki væna einn eða neinn framsóknarmann um að hann vilji ekki dreifbýlinu vel. Það væri ósanngirni út í bláinn. En þeim hefur hætt til að gefa of hástemmdar yfirlýsingar og gefa of fögur loforð þegar kosningar eru í nánd án þess að því er virðist að hugur fylgi nægilega máli.

Um Alþb. þurfum við ekkert að fjölyrða að því er varðar vinskap við dreifbýlisfólkið. Höfuðmarkmið fjármálastjórnarinnar í landinu nú er að sölsa undir ríkissjóð öll fjárráð þjóðarinnar, hvort sem í hlut á fyrirtæki, félag eða einstaklingur. Framsókn fær kannske ekki við neitt ráðið né aðrir þeir sem sitja í ríkisstj. með kommúnistum. Illu heilli virðast þeir ráða ferðinni og hafa tögl og hagldir. Og ást þeirra á ríkissjóði og því hlutverki hans að skammta út um byggðir landsins, einstaklingum og fyrirtækjum, er það mikil að mér verður að fyrirgefast að ég tortryggi nokkuð loforð sem felast í heimildarfrv. og heimildarþáltill.

Það er vissulega margt sem við höfum áhyggjur af um þessar mundir: Alþb. með fjárgræðgi sína fyrir hönd ríkissjóðs, Framsfl. með sína byggðastefnu í munninum, en of litlar aðgerðir í verki til þess að fylgja henni fram. Og stundum læðist að manni sá grunur, að fyrirtæki, sem heitir Samband ísl. samvinnufélaga, hagsmunir þess vegi kannske stundum þyngra á metunum heldur en það sem við venjulegt fólk köllum alþjóðarheill. Mér kom í hug í þessu sambandi ummæli sem ég raunar heyrði ekki, en heyrði höfð eftir hv. þm. Guðmundi G. Þórarinssyni í umr. um orkumál, að það væri ekkert því til fyrirstöðu að byggja stóriðju á Reyðarfirði, sem Samband ísl. samvinnufélaga mundi ráða við, frekar en að leita til erlendra aðila í uppbyggingu stóriðju á þessu landsvæði,

Ég sem Vestfirðingur, þó ég tali nú hér sem staðgengill Reykjavíkurþingmanns, hv. þm. Péturs Sigurðssonar, vil láta í ljós ánægju mína yfir því, að þó nokkurt fé hefur þó komið í hlut Vestfjarða samkv. vegáætlun. Ég fagna því, að allverulegt fjármagn er veitt til vegabóta í Vestur-Barðastrandarsýslu. Og yfirlýsingu hæstv. samgrh. um sérstaka skoðun og sérstakar aðgerðir í sambandi við þrjá hættulega vegi: Óshlíð, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúla, er einnig gleðiefni frekar en hitt. Mér finnst líka gott að sjá að þeir gleymdu ekki tengingu Djúpvegar. Mér þótti hins vegar dapurlegt að heyra kappann

Karvel Pálmason — hann er nú víst ekki viðstaddur hér — lýsa því yfir hvernig hefði verið traðkað á honum og rétti Vestfirðinga í fjvn. Ég veit að þennan stóra og stæði lega mann hefur tekið það nokkuð sárt, og ég veit að hann hefur gert það sem hann hefur getað til þess að ná fram málum síns kjördæmis. Væntanlega verða þessi 2% í skiptihlutfalli, sem hann talaði um að hefðu verið höfð af Vestfirðingum að hæstv. samgrh. aðsjáandi, bætt seinna meir og prósentan aukin að sama skapi sem hún var skert nú.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja frekar þessar umr. Ég vil enn og aftur benda á hve mikið lífshagsmunamál allrar þjóðarinnar það er að gert verði stórátak í vegamálum okkar. Ég staðhæfi að sú till., sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram á þingi um þessi mál, er í alla staði raunhæf. Ég held að þarna gildi það sem sagt hefur verið: að vilji er allt sem þarf.