16.10.1980
Sameinað þing: 4. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 26 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

Beiðni um umræður utan dagskrár

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. gerði veika tilraun til þess að draga athyglina frá óróleikanum innan ríkisstj. með því að benda á það, að stjórnarandstaðan væri í hári saman út af þessu máli. Ég vil ekki fallast á það, þótt þannig sé ástatt að meginhluti Sjálfstfl. sé í stjórnarandstöðu og Alþfl. sé einnig í stjórnarandstöðu, að þá hafi þessi flokkar gengið í eina og sömu sæng. Því dettur mér ekki í hug að halda fram. Ég held að það sé meira sameiginlegt í þessu máli með þessum flokkum en hæstv. fjmrh. vill vera láta.

Annars vegar er komin fram formleg beiðni Alþfl. um skýrslu með vísan til 31. gr. laga um þingsköp Alþingis. Hins vegar kemur fram beiðni frá formanni þingflokks Sjálfstfl. um að taka þessi mál til umræðu hér utan dagskrár, vegna þess að þingflokkur Sjálfstfl. telur ekki mega bíða lengur eftir því, að þetta mál verði tekið til umræðu hér á hv. Alþingi.

Við verðum að hafa það líka í huga, að ríkisstj. hefur verið með þetta mál til umræðu í fjölmiðlum í margar vikur og mánuði, allt frá því í vor. Er þá til of mikils mælst, þegar Alþ. kemur saman, að þetta mál komi þá strax til umræðu á Alþingi? Ég tel að það þurfi ekki að bíða eftir neinni skýrslu frá hæstv. samgrh. í þessu máli. Honum ber að gera þinginu strax grein fyrir því. Það er ekkert verið að koma hér aftan að ráðherra í þeim efnum. Hann er búinn að gefa svo margar yfirlýsingar, sem hafa verið sitt á hvað, allt frá því í vor að hann fór sína fyrstu ferð til Lúxemborgar, síðan eru yfirlýsingar fjmrh. og fjmrn., að ekki sé gleymt yfirlýsingum sérstaks trúnaðarmanns fjmrh. í Flugleiðamálinu. Þær voru ekki til þess að skapa traust þjóðarinnar eða annarra viðskiptamanna Flugleiða á félaginu. Yfirlýsing hæstv. fjmrh. um að beiðni Flugleiða um ríkisábyrgð rúmaðist ekki innan reglna ríkisábyrgðarsjóðs, varð ekki heldur til þess að auka hróður félagsins og gera stöðu þess betri en ætla má. Það getur verið að það sé rétt út af fyrir sig, en bæði innlendir aðilar og þá ekki síður erlendir misskildu margir hverjir þessa yfirlýsingu hæstv. fjmrh. Ég tel að þessar yfirlýsingar hafi skaðað félagið — og þá alveg sérstaklega yfirlýsingar hæstv. fjmrh. og fulltrúa hans, sem blaðraði viðstöðulaust og stórhættulega fyrir málstað Flugleiða, og þá ekki síður vegna þeirra mörgu sem þar hafa atvinnu, — að þær hafa orðið til stórtjóns, ekki fyrir Flugleiðir eingöngu, heldur fyrir þjóðarbúið í heild.

Ég hugsa að margt, sem hefur gerst í sambandi við þetta Flugleiðamál, komi ekki fram í þessari skýrslu þegar hún loksins kemur til umræðu. Mér leikur forvitni á að fá inn í skýrsluna álit hæstv. samgrh. á því, hvernig hann getur gefið Seðlabanka Íslands fyrirmæli um að lána allt að 200 millj. kr. Mér væri líka forvitni á að heyra álit hæstv. viðskrh. á því, hvort samgrh. og hver ráðherra um sig hafi það umboð, að þeir geti gefið þjóðbankanum fyrirmæli um að lána til ákveðinna starfshópa í landinu. Kemur ekki næst að það sé hægt að lána fólki sem vinnur við fiskvinnslu og fiskveiðar, sem nú er verið að skera niður í stórum stíl? Koma ekki fyrirmæli bráðum til seðlabankastjóranna um að lána þessu fólki til þess að kaupa hlutabréf og styrkja atvinnustöðu sína? Eru kannske þeir, sem fást við starf á sviði flugmála, forréttindastétt að þessu leyti?

Þetta kemur allt inn í þetta mál. Og það er fullkomlega kominn tími til þess að geyma ekki þessar umræður, hæstv. forseti, fram yfir helgi. Það er búið að blaðra svo margt frá hendi ráðh. um þessi mál utan við lög og rétt, að þeir hafa orðið sér til stórskammar hvað eftir annað í þessum málum. Þetta er ekki mál sem skiptir Flugleiðir höfuðmáli. En það skiptir miklu máli, hvort einstakir ráðherrar geta tekið sér það vald að fyrirskipa þjóðbanka, og það skiptir líka máli hvort þeir háu herrar, sem skipa bankastjórn Seðlabanka Íslands, hafi ákveðið að taka við öllum slíkum fyrirmælum þvert ofan í gildandi lög. Það mætti gjarnan líka heyra frá þeim. Þjóðin má gjarnan fá að vita hvort þeir eru mállausir eða rænulausir með öllu. Ef þeir eru það, þá er kominn tími til að skipta um bankastjórn í Seðlabankanum, — ef þeir hafa misst rænuna. (Gripið fram í.) Já, það eru ekki nema þeir menn sem mikið loft er í sem geta það, og það eru menn sem geta tekið sér vald, sem þeir hafa ekki að lögum, og halda svo blaðamannafundi og segja: Ég hef ákveðið að gefa Seðlabankanum þau fyrirmæli að lána starfsfólki Flugleiða 200 millj., og Seðlabankinn ætlar að hlýða. Ég spyr, — það þarf nú ekki að spyrja hæstv. samgrh., en mig langar að venda mínu kvæði í kross og spyrja hæstv. sjútvrh., þeir þekkjast sennilega lítils háttar, hvort hann ætli ekki að beita þessu sama valdi sínu við Seðlabankann fyrir sjávarútveginn í öllum þeim þrengingum sem hann er í. Ef sjútvrh. veit ekki hvernig á að fara að því að kúga Seðlabankann til hlýðni, þá bendi ég honum á að tala við samgrh. Hann getur gefið honum ráð og leiðbeiningar.

Það er gott og sýnir samstöðu þessara dugandi drengja í ríkisstj., að sjútvrh. krefst hækkunar afurðalána. Hann krefst þess, að bankarnir láni þessum stóra starfshópi. En svo kemur forsrh., höfuðpaurinn að hann heldur sig sjálfur vera í ríkisstj., og skammar lánastofnanir fyrir hvað þær láni mikið. Það hefur ekkert heyrst frá honum varðandi dagskipun samgrh. um 200 millj. kr. lán. Og það hefur ekkert heyrst frá forsrh. um þá sjálfsögðu beiðni sjútvrh., þegar hann fékk hækkun lána út á afurðir, hækkun afurðalána, — þá heyrðist ekkert frá hæstv. forsrh. um að það væri óeðlileg beiðni. Hins vegar finnst honum alveg frámunaleg stjórn á peningamálum hjá bankastjórunum í landinu, hvað þeir láni mikið. Þó að samráðherrarnir, hinir ágætu og dugandi drengir, heimti aukin útlán, þá skammar forsrh. bankastjórana fyrir að verða við beiðni hinna dugandi drengja um aukin útlán og krefst þess, að bankarnir dragi úr útlánum.

Hvernig stendur svo atvinnulífið í þessu landi? Fjmrh. kemur fram og er rígmontinn yfir afkomu ríkissjóðs. En það er eins og það komist ekkert annað að en þessi eini ríkiskassi. En hvernig er með alla hina kassana í atvinnulífinu? Þeir eru galtómir. Fjmrh. er búinn að mjólka þá kassa og kassa einstaklinganna í þjóðfélaginu algerlega. Hann varðar ekkert um hag heimilanna í landinu og um hag atvinnulífsins og atvinnuveganna. Það verður ekki eins blómlegt á næsta ári þegar atvinnulífið er allt komið í strand. Þá detta ekki nýkrónurnar, sem koma í framkvæmd um áramótin, ofan í ríkisfjárhirsluna, því þær verða ekki til, þær verða ekki í höndum atvinnuveganna eða heimilanna í þessu landi, eins og allt er að fara hjá þessari ríkisstjórn. (Gripið fram í.) Það getur vel verið. Ég ætla að segja þessum hv. framsóknarþingmanni það, að ég hef orðið og hann getur talað við forseta og flokksbræður sína á eftir. Nei, ég ætla að tala eins og mér sýnist, hvað sem hann er að segja. En það getur vel verið að það komi eitthvað við hann, hvernig ástandið er hjá þeirri ríkisstjórn sem þessi maður enn þá er að myndast við að styðja. Það getur vel verið að honum sé órótt þess vegna, þegar minnt er á kaunin sem þessi ríkisstj. skilur eftir sig eftir nokkurra mánaða starf. Það kemur að því, að þessi mál komi hér til umræðu. Hæstv. forseti Sþ. getur ekki lengi haldið verndarhendi sinni yfir ríkisstj. með því að tefja umræður, hvorki um Flugleiðamálin né önnur.