11.11.1980
Sameinað þing: 17. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

61. mál, vegurinn undir Ólafsvíkurenni

Flm. (Gunnar Már Kristófersson):

Herra forseti. Ég verð stuttorður. Ég þakka þessum tveimur hv. þm.,1. þm. Vesturl. og hv. 4. þm. Vesturl., fyrir þær undirtektir sem tillöguflutningur minn hefur fengið hjá þeim báðum.

Mig langar vegna orða hv. 1. þm. Vesturl. að segja að mér var ljóst það sem hann skýrði hér frá, að þm. Vesturl. hefðu sent erindi til Vegagerðarinnar og óskað þar eftir ákveðnum endurbótum. Það var ætlun mín að þessi tillöguflutningur yrði til styrktar þeirri ósk, og ég tala nú ekki um ef hún verður samþykkt, sem ég vona og óska eftir, en þá held ég að svo verði.

Að öðru leyti vil ég taka undir þau orð sem fram komu hjá hv. 4. þm. Vesturl. vegna Útnesvegar. Ég held einmitt að það sé mjög gott og æskilegt fyrir okkur á utanverðu Snæfellsnesi, ekki aðeins fyrir okkur sem eigum heima í þeim þéttbýliskjarna sem í Neshreppi er, heldur einnig líka fyrir sveitirnar í Breiðuvík, að þeim vegi verði sýndur meiri sómi en verið hefur síðustu árin.