19.05.1981
Sameinað þing: 84. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4620 í B-deild Alþingistíðinda. (4800)

187. mál, vegáætlun 1981--1984

Sigurgeir Bóasson:

Herra forseti. Ég mun ekki hér ræða vegáætlun í heild sinni, heldur vil ég minna sérstaklega á bréf samgrh. sem kemur fram í meirihlutaáliti fjvn., á þá leið, að samgrh. muni leggja til við ríkisstj. á næsta Alþingi að lögð verði fram viðaukatillaga við vegáætlun um framkvæmdir við Ólafsfjarðarmúla, Ólafsvíkurenni og Óshlíð, sem eiga að miða að því að draga úr hættu af snjóflóðum, skriðuföllum og grjóthruni á þessum vegum. Ég þekki sérstaklega til Óshlíðarinnar, þ. e. vegarins milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur, og fullyrði að lagfæring á Óshlíðinni er eitt stærsta hagsmunamál íbúa á norðanverðum Vestfjörðum. Vegurinn í núverandi mynd er algerlega óviðunandi og mundu þær lagfæringar, sem fyrirhugaðar eru, draga úr þeirri hættu sem vegfarendur um þennan veg hafa yfir höfði sér í bókstaflegri merkingu. Auk þess mundi slík lagfæring hafa mjög jákvæð áhrif á samskipti kaupstaðanna Ísafjarðar og Bolungarvíkur, en í dag eru samskipti og verkaskipting milli þessara kaupstaða í lágmarki með tilliti til þess, að aðeins eru um 15 km á milli staðanna. Ég sé því fyllilega ástæðu til að þakka hæstv. samgrh. fyrir þá ótvíræðu yfirlýsingu, sem fram kemur í þessu bréfi og vil lýsa furðu minni á því, hvernig hv. þm. Matthías Bjarnason og Karvel Pálmason hafa verið að agnúast út af þessu bréfi hér í umr. í dag.