19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4637 í B-deild Alþingistíðinda. (4808)

Almennar stjórnmálaumræður

Forsrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Þegar við Íslendingar fáum fregnir af því, að í góðum grannlöndum gangi menn atvinnulausir þúsundum saman, ungir sem fullvaxta, þá setur að okkur hroll. Í Bretlandi eru nú 2.5 millj. manna atvinnulausir, tíundi hver verkfær maður. Í Danmörku eru atvinnulausir um 200 þús. manna eða um 7.5% af verkfærum mönnum. Og til eru þeir menn hér sem trúa því, að atvinnuleysi sé ráð til að draga úr verðbólgu.

Ríkisstj. hefur sett sér það markmið að gera allt það sem hún megnar til þess að tryggja landsmönnum næga atvinnu og bægja böli atvinnuleysis, þessari siðferðilegu, sálrænu og efnahagslegu ógn, frá íslenskum heimilum.

Ríkisstj. hafnar þeirri leið, að atvinnuleysi eigi að nota til viðnáms gegn verðbólgu. Sjónarmið ríkisstj. er að tryggja næga atvinnu og viðhalda kaupmætti og auka hann, en til þess þarf að draga úr verðbólgu. Það var og er eitt af okkar meginmarkmiðum.

Enginn getur séð fyrir alla hluti og enginn getur spáð með öryggi um hið óorðna. Öllum bregðast stundum bjartar vonir, og gangur mála verður annar en ætlað var. Um þá stjórn, sem nú hefur starfað í nærfellt 16 mánuði, gildir þetta sama lögmál lífsins. Sumt hefur ræst, annað ekki, sumt gengið vel, annað miður. Okkur tókst ekki að ná verðbólgunni niður á liðnu ári eins og við höfðum vonað. Til þess lágu ástæður, einkum af erlendum toga, sem áður hafa verið ítarlega raktar. En þeim mun fastari er ásetningur okkar nú í glímunni við verðbólguna að beita þeim fangbrögðum að dugi.

Um áramót samþykkti ríkisstj. efnahagsáætlun og markaði stefnu um atvinnumál og viðnám gegn verðbólgu. Það, sem einkennir þessa efnahagsáætlun, eru fyrst og fremst samræmdar aðgerðir og heildarsýn. Sumir virðast þeirrar skoðunar, að engar efnahagsaðgerðir séu til nema þær felist í kauplækkun eða kaupskerðingu. Þetta er vitaskuld rangt og háskalegt sjónarmið. Orsakir verðbólgunnar eru ákaflega margþættar og það eru allir þessir þættir sem verður að hafa auga á samtímis, ekki missa sjónar á eða missa tök á neinum einum þeirra. Þá er óvíst að aðrir skili árangri þó sæmilega gangi með þá.

Í efnahagsáætlun ríkisstj. var m. a. ákveðið að nýta svo vel sem unnt væri áhrif gjaldmiðilsbreytingarinnar sem kom til framkvæmda um síðustu áramót.

Eitt grundvallaratriðið í efnahagsáætlun var að falla frá og hætta því gengissigi sem hafði þá staðið um langan tíma. Ríkisstj. ákvað í samráði við Seðlabankann að halda stöðugu gengi fyrstu mánuði ársins. Nú hefur tekist að halda genginu föstu og stöðugu frá áramótum til þessa dags, töluvert á fimmta mánuð, og fer það fram úr björtustu vonum okkar í því efni.

Annað atriðið er jafnvægi í ríkisfjármálum.

Þriðja atriðið er jafnvægi í þróun peningamála, inn- og útlána, og ef við lítum yfir peningamálin svokölluðu er skemmst frá því að segja, að nú síðan á áramótum hefur sparifjáraukning orðið mjög veruleg og miklu meiri en undanfarin ár. Útlánaaukning hefur verið hófleg og gjaldeyrisstaðan er sterk. Þennan góða árangur í öllum þáttum peningamálanna verður að tryggja og fylgja fast eftir á næstu mánuðum.

Varðandi innflutning og útflutning eða vöruskipta- og viðskiptajöfnuð er hægt að segja að þróun innflutnings og útflutnings hefur verið hagstæðari það sem af er þessu ári en á sama tíma í fyrra.

Það eru margir fleiri þættir sem ástæða væri til að nefna hér í sambandi við efnahagsaðgerðir ríkisstj., en tími leyfir það ekki. Hins vegar er alveg ljóst öllum mönnum sem fylgjast með, að þessar aðgerðir allar hafa dregið úr spennunni. Það er meiri stöðugleiki, meira jafnvægi en áður í efnahagslífi landsmanna.

Á fyrstu fjórum mánuðum ársins varð verðbólgan verulega minni en undanfarin ár, eða um 32% ef miðað er við heilt ár. Ég vil taka það skýrt fram, að sumir stjórnarandstæðingar og málgögn þeirra hafa snúið út úr þeim ummælum, sem ég hef áður haft í þessa átt, og túlkað þau svo, að þar með hafi ég verið að spá 32% verðbólgu fyrir allt árið 1981. Vitanlega er þetta útúrsnúningur einber. Þessi 32%, sem ég hef nefnt um þróunina á fyrstu fjórum mánuðum ársins ef reiknað er til heils árs, eru ekki spá, heldur staðreynd sem liggur fyrir.

Af hálfu annars arms stjórnarandstöðunnar hafa oft og tíðum verið gerðar harðar árásir á okkur sjálfstæðismenn í ríkisstj. Ein þessara árása er sú og hún var endurtekin hér í kvöld, að við sjálfstæðismenn í ríkisstj. séum bandingjar Alþb. eða Framsóknar — eftir því sem henta þykir fyrir þann sem talar og skrifar — sem engu ráðum í þessari ríkisstj. Svo gerðist það fyrir nokkrum dögum, þegar ég skrapp til Svíþjóðar í heimsókn þangað, að þá skrifaði næststærsta stjórnarandstöðublaðið leiðara með stórri fyrirsögn um það, að nú væri illt í efni, Gunnar væri farinn til útlanda, ekkert fengist afgreitt í ríkisstj., því að ráðherrarnir væru gersamlega ráðvilltir og þetta stafaði af því, eins og blaðið sagði, að „pabbi er ekki heima“. Þetta sýnir samræmið í málflutningnum.

Annað atriði, sem er kannske öllu alvarlegra, er að því er haldið er fram, að allt sé í rauninni í hinni mestu óvissu í varnar- og öryggismálum landsins. Eitt af þeim innihaldslausu og villandi slagorðum, sem búin eru til, er að Alþb. hafi verið falin lykilaðstaða í öryggis- og varnarmálum landsins. Þetta er básúnað út hér á landi og náttúrlega símað til útlanda til að skapa vantrú bandamanna okkar í Norður-Atlantshafsbandalaginu.

Hver er sannleikurinn í þessum málum? Þessir menn, sem uppi hafa þessar árásir, vita ósköp vel að það var ein af forsendum stjórnarmyndunar að fylgt yrði áfram óbreyttri stefnu í utanríkis-, varnar- og öryggismálum. Það er kannske rétt að minnast á það, að í lok nóvembermánaðar var haldinn fundur í næstæðstu stofnun Sjálfstfl., næst landsfundi, þ. e. flokksráði, meira að segja sameiginlegur fundur flokksráðs og formanna í sjálfstæðisfélögum. Þar var gerð einróma ályktun á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta.

„Flokksráðstefnan og formannafundurinn fagnar því, að fylgt er þeirri stefnu í utanríkismálum, öryggis- og varnarmálum sem Sjálfstfl. mótaði á fyrstu árum lýðveldisins og flokkurinn hefur síðan staðið vörð um.“

Þessi ályktun er samþykkt einróma m. a. af formanni Sjálfstfl., 10 mánuðum eftir að ríkisstj. var mynduð, þar sem allt þetta lá ljóst fyrir.

Í rauninni þarf ekki að fara fleiri orðum um slíkan málflutning sem þennan. En það vil ég þó segja að lokum, að víst er að varnir landsins eru ekki veikari í dag en þær voru í stjórnartíð hv. 1. þm. Reykv.

Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa talað í umr. í kvöld, og þeim þykir ósköp gaman, formönnunum, að telja upp mörg ágæt mál sem þeim tókst ekki að koma í framkvæmd meðan þeir voru í stjórn, en þeir ætlast til að núverandi stjórn hrindi í framkvæmd þegar í stað og sé helst búin að því öllu saman. Þetta ber náttúrlega vott um alveg sérstakt traust á núverandi ríkisstj. sem skylt er að þakka.

Orkumál eru meðal forgangsmála núv. ríkisstj., og nú eru ýmist í framkvæmd eða í undirbúningi mestu virkjunarframkvæmdir sem um getur. Stærsta virkjun landsins, Hrauneyjafossvirkjun, er langt komin, og áður en henni lýkur verður hafist handa um næstu stórvirkjun og svo koll af kolli, stundum tvær samtímis. Jafnframt þessu er unnið að könnun á margvíslegum möguleikum um orkufrekan iðnað.

Herra forseti. Góðir hlustendur. Störfum ríkisstj. miðar áfram rólegum en öruggum skrefum. Verðbólgan er á niðurleið sem stendur, og við munum halda áfram því starfi og stuðla að því jafnvægi á öllum sviðum sem nauðsynlegt er. Við vitum að meiri hluti þjóðarinnar stendur að baki og styður okkur í þessari viðleitni. Við munum ekki láta öfgar og upphrópanir hrekja okkur af þeirri leið.

Þökk þeim er hlýddu.