19.05.1981
Sameinað þing: 85. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4652 í B-deild Alþingistíðinda. (4813)

Almennar stjórnmálaumræður

Viðskrh. (Tómas Árnason):

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Stjórnarandstæðingar syngja þann söng, að allt, sem ríkisstj. gerir í efnahagsmálum, sé tóm vitleysa og hafi engin áhrif á að sporna gegn vaxandi verðbólgu í landinu. Lengst af öllum gengur þó aðalmálgagn stjórnarandstöðunnar, Morgunblaðið, sem sífellt reynir að æsa þrýstihópana í þjóðfélaginu til frekari kröfugerðar á hendur ríki og atvinnulífinu. Á næstu blaðsíðu Moggans getur svo að líta stórar fyrirsagnir um lélega afkomu atvinnuveganna og um að allt sé að velta um hrygg.

Utanríkismálin eru mjög mikilvægur málaflokkur. Ólafur Jóhannesson utanrrh. lagði fyrir Alþingi ítarlega skýrslu um utanríkismál. Hann fylgdi henni úr hlaði með ágætri ræðu. Þar segir á einum stað:

„Mér virðist að Íslendingar hafi almennt miklu meiri áhuga á innanlandsmálum en á utanríkismálum. Það skal ég ekki gagnrýna, enda liggja til þess skiljanlegar ástæður. En þegar allt kemur til alls getur þó framvindan í alþjóðamálum skipt sköpum um framtíð okkar þjóðar. Því ættum við ekki að gleyma.“

Þetta sagði Ólafur Jóhannesson í ræðu sinni. Það veltur á miklu að vel sé staðið að þessum mikilvægu málum. Utanríkismálum Íslendinga er vel borgið í traustum höndum Ólafs Jóhannessonar.

Magnús H. Magnússon sagði að landslög væru brotin þar sem lagaskylda væri að leggja 2% af fjárlögum til Byggðasjóðs. Þetta er ekki rétt, heldur skal ráðstöfunarfé Byggðasjóðs nema 2% af fjárlögum. Ráðstöfunarfé Byggðasjóðs er í fyrsta lagi eigið fé sjóðsins, í öðru lagi framlag ríkissjóðs til hans og í þriðja lagi lánsfé sem

Byggðasjóður tekur og lánar öðrum. Það var á sínum tíma deiluefni milli Framsfl. og Sjálfstfl., hve mikið framlag skyldi vera úr ríkissjóði til Byggðasjóðs. Framsfl. vildi 2%, en Sjálfstfl. að ráðstöfunarfé sjóðsins yrði 2%. Þannig urðu lögin.

Þrátt fyrir olíukreppu og óðaverðbólgu er staða íslenska efnahagskerfisins furðanlega góð í sumum greinum. Á seinasta ári voru utanríkisviðskiptin hagstæðari hér en hjá mörgum viðskipta- og grannþjóðum okkar þrátt fyrir stórhækkun vaxta á erlendum lánum og erfiðleika í flugrekstri. Ríkisfjármálin hafa verið í þokkalegu lagi síðan árið 1979, en þá urðu þau mikilsverðu umskipti að greiðsluafgangur varð í viðskiptum ríkissjóðs við Seðlabankann í fyrsta skipti síðan 1972. Þetta hélt áfram árið 1980 og þarf að verða í framtíðinni.

Heildarinnlán banka og sparisjóða jukust um 10% umfram heildarútlán á árinu 1980. Þessi staðreynd ber glöggt vitni um marktækan árangur í peningamálum og bendir til hjöðnunar verðbólgu. Þessi hagstæða þróun hefur haldið áfram á þessu ári. Af þessum ástæðum var mögulegt að semja við bankakerfið um að breyta stuttum lánum og lausaskuldum húsbyggjenda eða þeirra, sem keypt hafa íbúð til eigin nota, til allt að átta ára. Bankar og sparisjóðir vinna nú að framkvæmd þessa máls. Það var því rangt hjá Vilmundi Gylfasyni að ríkisstj. hefði ekkert aðhafst í þessum málum.

Á seinasta ári hélst full atvinna í landinu fyrir þá sem geta og vilja vinna. Þjóðarframleiðslan óx á árinu um 2.5%, sem er meira en meðaltal 24 meðlimaríkja Efnahags- og framfarastofnunarinnar. Hins vegar jukust þjóðartekjurnar aðeins um 1.2% vegna rýrnandi viðskiptakjara, en viðskiptakjörin gagnvart útlöndum voru 12% lakari á s. l. ári en var á árinu 1978. Af þessu er ljóst að engin viðbótarverðmætasköpun á mann var á seinasta ári.

Allt, sem ég hef nú rakið, er af hinu góða. Það sem hins vegar hefur hrjáð okkur Íslendinga í efnahagsmálum mörg undanfarin ár er verðbólgan sem var 58.5% í fyrra og veldur vaxandi erfiðleikum í atvinnulífi landsmanna. Ég legg áherslu á að nauðsyn ber til að haga verðlagsmálum þannig að unnt sé að reka vel rekin fyrirtæki með eðlilegum hætti. Það er grundvallaratriði að skapa atvinnuvegunum raunhæfan rekstrargrundvöll til þess að tryggja mikla framleiðslu sem eykur velmegun þjóðarinnar.

Þjóðhagsstofnun hefur í skýrslu sinni um þjóðarbúskapinn sagt að verðbólga hefði orðið um 70% á þessu ári ef ekkert hefði verið að gert. Þetta er raunar sá hrikalegi vandi sem ríkisstj. varð að takast á við um s. l. áramót. Tæpir fimm mánuðir eru liðnir síðan ríkisstj. samþykkti efnahagsáætlunina á gamlársdag. Fram til 1. maí hefur verðbólgan vaxið um 10% sem svarar til rúmlega 32% á ársgrundvelli. Það er því alveg ljóst að um áramótin var brotið blað í þessum málum. Þó þessar upplýsingar Hagstofunnar gefi ekki að mínu mati rétta mynd af hinu raunverulega verðbólgustigi hagkerfisins liggur þó fyrir að öll skilyrði eiga að vera til þess að ríkisstj. geti náð því markmiði sínu að koma verðbólgunni niður í 40% við n. k. áramót.

Í samræmi við efnahagsáætlun ríkisstj. hefur gengi krónunnar verið haldið stöðugu síðan um áramót. 1. mars s. l. voru verðbætur á laun skertar um 7% . Hert verðstöðvun var í gildi til 1. maí. Vextir af gengistryggðum afurðamálum voru lækkaðir úr 8.5% í 4%. l. mars voru vextir útlána lækkaðir um 1%. Þá er verið að lækka skatta sem svarar 1.5% í kaupmætti lægri launa og meðallauna og lánum húsbyggjenda hefur verið breitt í lán til lengri tíma eins og áður sagði. Ágæt samvinna hefur tekist milli ríkisvalds og bankakerfisins um strangt aðhald í útlánum banka og sparisjóða.

Þessar margþættu ráðstafanir ríkisstj., sem eru m. a. fólgnar í niðurtalningu verðlags, verðbóta á laun, vaxta, gengis og skatta, hafa borið verulegan árangur í viðureigninni við verðbólguna. Framsfl. leggur ríka áherslu á að þessum ráðstöfunum verði fylgt eftir með aðgerðum síðar á árinu til að tryggja áfram hjöðnun verðbólgunnar. Þess vegna leggjum við áherslu á að viðræður haldi áfram við samtök launafólks og aðra hagsmunaaðila atvinnulífsins um samræmda stefnu í kjaramálum, atvinnumálum og efnahagsmálum til næstu tveggja ára.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson sagði að Framsfl. ræddi mikið um nauðsyn efnahagsaðgerða. Þetta er rétt, enda hafa verið gerðar ráðstafanir sem stefna hiklaust til réttrar áttar í þessum málum, eins og ég hef nú rakið. Í stað heiftarlegrar gagnrýni á allar efnahagsráðstafanir ríkisstj., þótt sumar séu líkar þeim sem hv. þm., Geir Hallgrímsson beitti sjálfur á sinni tíð, ætti hann og flokksbróðir hans frekar að gera þjóðinni grein fyrir sinni stefnu. Það er nú vonum lítið rætt um leiftursóknina gegn verðbólgunni og er það raunar vel.

1. mars s. l. gengu í gildi lög um aðhald í verðlagsmálum, hækkun vörugjalds og bindiskyldu innlánsstofnana. Þessi lög er nú verið að framkvæma en fram undan er ákvörðun um fiskverð og búvöruverð. Ríður á miklu að hægt verði að samræma þessar ráðstafanir í átt til hjöðnunar verðbólgu, m. a. með aðhaldi í gengismálum og lækkum vaxta 1. júní n. k. Þá hefur ríkisstj. samþykkt aðgerðir í verðlags- og verslunarmálum sem leiða til umbóta á sviði verslunar. Nú er heimilt að færa upp vörubirgðir í smásöluverslunum sem á að tryggja meira vöruúrval og hagkvæmari viðskipti. Þá hefur ríkisstj. einnig samþykkt nýjar reglur um álagningu sem fela í sér aukna hvatningu til innflytjenda um ódýrari innkaup til landsins. Vona ég að verðlagsráð afgreiði þetta mál næstu daga.

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði að fylgt hefði verið óbreyttri stefnu í olíuviðskiptum. Þetta er ekki rétt með farið. Olíuviðskiptum er nú dreift til fleiri landa en áður var til þess að auka öryggið. Enn fremur er nú byggt á þrenns konar verðviðmiðunum í olíuinnkaupum til þess að forða frá hinum miklu verðsveiflum á uppboðsmarkaðnum í Rotterdam. Fram að þessu hefur þessi breyting ekki leitt til ódýrari innkaupa á olíuvörum. En allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að dreifa viðskiptum og reyna að forðast snöggar og óvæntar verðsveiflur í olíuviðskiptum.

Góðir hlustendur. Ég rakti áður aðgerðir ríkisstj. í efnahagsmálum sem yfirleitt hafa fengið góðar móttökur hjá öllum almenningi, sem táknar auðvitað það að þjóðin vill áframhaldandi aðgerðir sem leiða til hjöðnunar verðbólgu án mikillar kjaraskerðingar. Auðvitað hljóta allir að gera sér grein fyrir því, að vegna versnandi viðskiptakjara við útlönd, sem leiða til minni þjóðartekna, verða minni verðmæti til skipta á þessu ári. tekna, verða minni verðmæti til skipta á þessu ári. Almennar launahækkanir munu því ekki leiða til meiri kaupmáttar launa, heldur til meiri verðbólgu og upplausnar. Það er því ógnvekjandi að vel launaðar stéttir skuli ætla að hrinda af stað nýrri verðbólguskriðu. Ég held að fólk geri sér í vaxandi mæli grein fyrir þeim sannleika, að minnkandi verðbólga er mesta kjarabótin þegar til lengdar lætur. Óðaverðbólgan leiðir hins vegar hægt og bítandi til minni framleiðslu, verri lífskjara og ótryggari atvinnu. Ég álít að hin mikla verðbólga hafi t. d. leitt til þess að Íslendingar verða að vinna miklu lengri vinnutíma en grannþjóðirnar til að hafa sambærileg kjör.

Á aðalfundi miðstjórnar Framsfl. í aprílmánuði var m. a. samþykkt að stuðlað yrði að lækkun vöruverðs, m. a. með lánum til hagkvæmari vörukaupa og skynsamlegri álagningarreglum. Þá verði dregið úr hækkunum á gjaldskrám opinberra stofnana með ráðdeild í rekstri og jafnvel samdrætti í framkvæmdum og þjónustu án þess að stefna rekstrinum í hættu. Hækkun búvöruverðs og fiskverðs verði takmörkuð eins og frekast er kostur, en þó gætt samræmis um kjör bænda og sjómanna við aðra. Niðurgreiðslur á landbúnaðarvörum verði auknar og leitað nýrra leiða til að mæta stórauknum olíukostnaði fiskiskipa. Þá segir í samþykkt miðstjórnar að ef nauðsyn beri til verði leitað eftir samstöðu með launþegum um hámark verðbóta á laun 1. sept. og 1. des. n. k., enda verði sú kaupmáttarskerðing bætt á lægri laun með lækkun skatta eða hækkun fjölskyldubóta.

Framsfl. hefur alltaf verið þeirra skoðunar að gera verði breytingar á okkar vísitölukerfi til að draga úr víxlverkun launa og verðlags. Sennilega verður aldrei ráðið við verðbólguna til fulls án slíkra aðgerða. Þess vegna samþykkti miðstjórn Framsfl. að leitað verði eftir samkomulagi um almennar reglur varðandi útreikning vísitölu sem miða að því að draga úr hraða verðbólgunnar.

Að lokum ályktaði svo miðstjórnin að Framsfl. leggi áherslu á að hið fyrsta verði hafinn undirbúningur að áframhaldandi niðurtalningu verðbólgunnar á árinu 1982 í samræmi við ákvæði stjórnarsáttmálans.

Það er ákaflega áríðandi að sem flestir taki þátt í baráttunni við verðbólguna. Náðst hefur marktækur árangur á þessu ári og honum þarf og verður að fylgja eftir. Við erum á réttri leið. Verðbólgan er minnkandi. Þess vegna má ekki líðast að óþjóðhollar aðgerðir einstakra þrýstihópa geri að engu þann árangur sem hefur náðst og verður að halda áfram með markvissum hætti.

Ég þakka áheyrnina. Góða nótt.