20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4669 í B-deild Alþingistíðinda. (4831)

315. mál, Bjargráðasjóður

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Ég stend ekki hér upp til að mæla á móti því frv. sem hér er til umr. Ég hef áður lýst fylgi mínu við það og áhugi minn á þessu máli er ótvíræður.

En við 1. umr. þessa máls kom það fram, bæði hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. félmrh., að því fjármagni, sem gert væri ráð fyrir að Bjargráðasjóður fengi til umráða með þeirri lánsheimild sem frv. það sem við nú ræðum fjallar um, yrði varið einungis í formi lána. Ef hæstv. ráðh. hefði ekki gefið þessa yfirlýsingu við 1. umr. hefði að sjálfsögðu farið með ráðstöfun þessa fjár að lögum Bjargráðasjóðs, en samkv. lögum Bjargráðasjóðs er gert ráð fyrir að aðstoð sú, sem hann veitir, geti verið ýmist sem styrkveiting, þ. e. óafturkræft framlag, eða sem lán. Ef þetta frv., sem við nú ræðum, verður samþ. óbreytt verða yfirlýsingar hæstv. ráðh. ekki skildar á annan veg en svo, að þá skuli einungis með fara með þeim hætti sem þeir greindu frá. Ég tel að þetta sé rangt, það sé ekki minni þörf nú en áður að aðstoð Bjargráðasjóðs geti verið bæði í formi styrkveitingar og formi láns eftir því hvernig á stendur. Því þykir mér rétt að hv. deild kveði á um það, að með ráðstöfun þess fjár, sem þetta frv. fjallar um, fari eins og með ráðstöfun annars fjár sem Bjargráðasjóður hefur undir höndum.

Með tilliti til þessa hef ég leyft mér ásamt hv. þm. Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Guðmundi Karlssyni, Lárusi Jónssyni og Salome Þorkelsdóttur að bera fram svohljóðandi brtt. við frv. það sem hér er til umr.:

„Ný grein komi er verði 2. gr. og orðist þannig: Fjármagni samkv. 1. gr. skal varið ýmist til styrkveitinga eða lána samkv. 10. gr. laga nr. 51/1972, um Bjargráðasjóð, sbr. lög nr. 110/1976, lög nr. 41/1977 og lög nr. 57/1980.“

Þessi till., eins og ég hef þegar tekið fram, er einungis til þess að lýsa þeim vilja hv. deildar að það skuli fara eins með ráðstöfun þessa fjár og venja er af hálfu Bjargráðasjóðs þannig að það verði metið í hverju einstöku tilfelli hvort það skuli vera styrkveiting eða lán eða hvort tveggja og þá að hve miklu leyti styrkveiting og að hve miklu leyti lán.

Nú er það svo, að ég hef afhent skrifstofu Alþingis þessa brtt., en henni hefur ekki verið útbýtt. En ég var það forsjáll að taka ljósrit af þessu plaggi og það hef ég hér lesið upp. Það verður því að líta á þessa till. sem skriflega auk þess sem hún er of seint fram komin. Ég vænti þess, að hæstv. forseti fái heimild deildarinnar til að taka till. til umr.