20.05.1981
Efri deild: 112. fundur, 103. löggjafarþing.
Sjá dálk 4670 í B-deild Alþingistíðinda. (4833)

313. mál, steinullarverksmiðja

Frsm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Iðnn. Ed. hefur haft til umfjöllunar í alllangan tíma frv. til l. um steinullarverksmiðju. Nefndin hefur fjallað um þetta frv. á fjölmörgum fundum og haft til þess skamman tíma. Eftirtaldir aðilar, sem ég tel mér skylt að lesa hér upp, mættu á fundum nefndarinnar og veittu margvíslegar upplýsingar: Vilhjálmur Lúðvíksson, formaður steinullarnefndar, Hörður Jónsson, frá Iðntæknistofnun, Jón Steingrímsson, tilnefndur af Iðntæknistofnun, Bárður Daníelsson, frá Samtökum arkitekta, Hákon Ólafsson, frá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins, Gunnar Björnsson, frá Félagi byggingarmeistara, Jón Magnússon, fyrrv. starfsmaður steinullarframleiðslu í Danmörku og fyrrv. forstjóri steinullarverksmiðju í Hafnarfirði, Garðar Ingvarsson, frá Seðlabanka, Guðmundur Halldórsson, frá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsens, Árni Reynisson, frá Náttúruverndarráði, Ólafur Davíðsson og Hallgrímur Snorrason, frá Þjóðhagsstofnun, Eyjólfur Sæmundsson, frá Vinnueftirliti ríkisins, og Hrafn Friðriksson, frá Heilbrigðiseftirliti ríkisins.

Umsagnir frá hinum þremur síðast nefndu fylgja með þessu nál.

Nefndin leggur ekki dóm á stærð eða staðarval steinullarverksmiðju, en leggur áherslu á að eignaraðild ríkisins er skilyrt hlutafjárframlögum annarra að 60% og einnig því, að hlutafé nemi a. m. k. 30% af stofnkostnaði.

Nefndin flytur brtt. á sérstöku þskj. Einstakir nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. við frv. sem fram gætu komið.

Undir þetta nál. rita allir hv. nm. iðnn.

Ég vil þá leyfa mér í örstuttu máli að gera grein fyrir þeim brtt. sem nefndin flytur. Að mínum dómi skýra þessar brtt. sig sjálfar. Ég mun nú lesa þær upp:

1. gr. orðist svo:

Ríkisstj. er heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags, er reisi og reki steinullarverksmiðju, og að leggja fram í því skyni allt að 40% af hlutafé þess, enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar.“

Breytingin er raunar ekki önnur en sú, að við bætum þarna við: enda verði hlutafé félagsins minnst 30% af stofnkostnaði verksmiðjunnar. Við viljum binda þetta í lögum.

2. brtt. er á þá leið, að 2. gr. frv. falli brott. Í ljósi þeirra umræðna, sem verið hafa um þessa ráðagerð, þ. e. byggingu steinullarverksmiðju, finnst okkur ekki eðlilegt, eins og þessi grein hljóðar, að það sé gert ráð fyrir svo miklu forustuhlutverki ríkisins. Við teljum að forustan eigi alfarið að vera í höndum einstaklinga — ef til kemur að þessari ráðagerð verði hrundið í framkvæmd.

3. brtt. við 3. gr. er á þá lund, að við 2. tölul. bætist: Þó ekki meira en 25% af heildarlánsfjárþörf vegna stofnkostnaðar. — Tölul. 2 verður þá þannig í heild sinni: „Að veita ríkisábyrgð fyrir lánum eða taka lán, er hlutafélaginu verði veitt til byggingar verksmiðjunnar, að fjárhæð samtals allt að 21 millj. kr., eða jafnvirði þess í erlendri mynt, þó ekki meira en 25% af heildarlánsfjárþörf vegna stofnkostnaðar.“

4. brtt. er um að 4. gr. falli brott. Um þetta er það að segja, að við nm. teljum ekki ástæðu til að gefa undir fótinn með að stofnendur né hluthafar verði færri en fimm, eins og segir í hinum almennu hlutafélagalögum, og vísum við þá til þess frumkvæðis sem við ætlum að verði um þetta mál meðal þeirra sem sýnt hafa áhuga.

5. brtt. er ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo: „Ekki er ríkisstj. heimilt að taka þátt í stofnun hlutafélags samkv. 1. gr. né leggja fram fé ríkissjóðs sem hlutafé samkv. 1. tölul. 3. gr. né veita ríkisábyrgð eða taka lán samkv. 2. tölul. 3. gr. fyrr en tryggð hafa verið hlutafjárframlög annarra aðila fyrir 60% af hlutafé væntanlegs félags og aflað hefur verið öruggra viðskiptasambanda.“

Fleiri voru þær brtt. ekki sem n. flytur hér sameiginlega.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess hér og nú að fara að eyða löngu máli í umr. um þetta frv. Ég geri fastlega ráð fyrir að hv. þm. sé vel kunnugur sá aðdragandi sem er að þessu máli. Það hefur verið allrækilega kynnt í fjölmiðlum sem og fyrir hv. alþm. Eins og nál. og brtt. n. gefa til kynna leggur n. áherslu á að hér verði ekki rasað um ráð fram, ef ég mætti svo að orði komast. Nefndin hefur reynt, eftir því sem tök voru á, að meta þær forsendur sem liggja að baki þeim útreikningum og niðurstöðum sem fyrir liggja í skýrslu steinullarnefndar á vegum iðnrn. Fram hefur komið að ýmis atriði eru ekki nægilega ljós að því er varðar markað — sérstaklega erlendan markað. Því leggur n. áherslu á fyrirhyggju í allri málsmeðferð. Þrátt fyrir allt er það skoðun mín, að með þessu frv. sé þó verið að taka í útrétta hönd athafnamanna í þessu landi, og er það vel.